22. apríl 2024

SORPU heimilt að semja við Stena

Kærunefnd útboðsmála leysti 12. apríl sl. endanlega úr kærum Íslenska gámafélagsins frá 29. júní 2023 og 22. september 2023, vegna útboðs SORPU á brennanlegum úrgangi árið 2023. Með úrskurði nefndarinnar var kröfu kæranda um viðurkenningu skaðabótaskyldu vísað frá nefndinni en öllum öðrum kröfum kæranda var hafnað.

Forsaga málsins er sú að Íslenska gámafélagið og Stena Recycling AB voru meðal þeirra aðila sem gerðu tilboð í fyrrnefndu útboði. SORPA valdi tilboð Stena Recycling sem var lægst en jafnframt stigahæst samkvæmt valforsendum útboðsins.

Íslenska gámafélagið kærði þessa ákvörðun SORPU til kærunefndar útboðsmála 29. júní sl. Í kæru var krafist að ákvörðun SORPU um val tilboðsins yrði felld úr gildi, að viðurkennt væri að SORPU væri skylt að gera samning við Íslenska gámafélagið og að SORPA greiddi kæranda málskostnað.

Þar sem kæran barst á biðtíma stöðvaðist samningsgerð sjálfkrafa vegna kærunnar. SORPA krafðist þess að öllum kröfum Íslenska gámafélagsins yrði hafnað og að sjálfkrafa stöðvun yrði aflétt. Með ákvörðun kærunefndarinnar frá 5. september sl. var fallist á kröfu SORPU um að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar. Í rökstuðningi ákvörðunarinnar kom m.a. fram að eins og málið lægi fyrir hefðu ekki verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt gætu til ógildingar ákvörðunar SORPU eða annarra athafna samlagsins.

Í framhaldinu var tilboð Stena Recycling endanlega samþykkt og kærði Íslenska gámafélagið þá ákvörðun til nefndarinnar og krafðist þess að hún léti upp álit sitt á skaðabótaskyldu SORPU vegna þess. Kærur Íslenska gámafélagsins voru sameinaðar í einu máli.

Með úrskurði nefndarinnar í sameinuðum málum var kröfu um álit á skaðabótaskyldu vísað frá nefndinni þar sem Íslenska Gámafélaginu hefði verið í lófa lagið að gera slíka kröfu í upphaflegri kæru málsins 29. júní 2023. Kæran væri því utan kærufrests og því vísað frá nefndinni. Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar um val á tilboði Stena Recycling var hafnað þar sem kominn væri á bindandi samningur og kröfu um viðurkenningu að SORPU væri gert að gera samning við Íslenska gámafélagið var hafnað þar sem hún væri utan valdsviðs kærunefndarinnar. Þá var kröfum um málskostnað hafnað.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála

Nýjustu fréttir