Starfsemi

SORPA bs. er rekin án hagnaðarsjónarmiða með umhverfi, samfélag og hagkvæmni að leiðarljósi. Frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi SORPU og að fyrirtækið stuðli að sjálfbærum gildum sem víðast í samfélaginu. Fyrirtækið hefur margvísleg tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið í gegnum starfsemi sína og er birtingarmyndin fyrst og fremst ýmis samfélagsverkefni sem SORPA hefur unnið að í gegnum tíðina og aukin nýting hráefna sem felast í úrgangi.

Hlutverk SORPU

Byggðasamlagið SORPA er í eigu sex sveitarfélaga; Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Hlutverk SORPU er að annast meðhöndlun úrgangs og sinna þannig lögbundinni skyldu sveitarfélaganna. Það felur í sér rekstur á móttöku- og flokkunarstöð, urðunarstað, gas- og jarðgerðarstöð og sex endurvinnslustöðvum, sem reknar eru samkvæmt þjónustusamningi við sveitarfélögin. SORPA hefur einnig umsjón með grenndargámum fyrir hönd sveitarfélaganna og rekur nytjamarkaðina Góða hirðinn og Efnismiðlun Góða hirðisins.

Hlutverk SORPU er að annast meðhöndlun úrgangs og sinna þannig lögbundinni skyldu sveitarfélaganna.

Stjórn SORPU bs.

Stjórn byggðasamlagsins er skipuð einum fulltrúa og einum til vara frá hverju aðildarsveitarfélagi og skal hann vera aðalmaður í sveitarstjórn eða framkvæmdastjóri sveitarfélags. Sömu skilyrði gilda um varamenn sem hver sveitarstjórn tilnefnir.  Kjörtímabil stjórnar er til tveggja ára frá upphafi kjörtímabils sveitarstjórna.  Stjórnarmenn fara með hlutfallslegt atkvæðavægi í samræmi við íbúafjölda þess sveitarfélags sem þeir eru fulltrúar fyrir. Atkvæðavægi endurskoðast í byrjun hvers árs miðað við íbúatölu aðildarsveitarfélags hinn 1. desember árið á undan.

Í stjórn SORPU sitja:

Valdimar Víðisson fyrir Hafnarfjörð - formaður
Árelía Eydís Guðmundsdóttir fyrir Reykjavík - varaformaður
Aldís Stefánsdóttir fyrir Mosfellsbæ
Guðfinnur Sigurvinsson fyrir Garðabæ
Orri Vignir Hlöðversson fyrir Kópavog
Svana Helen Björnsdóttir fyrir Seltjarnarnes

Framkvæmdastjóri er Jón Viggó Gunnarsson.

Stofnsamningur

Í stofnsamningi kemur fram að tilgangur byggðasamlagsins sé að annast meðhöndlun úrgangs sbr. lög nr. 55/2003 fyrir sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem öll eru stofnaðilar að því.

SORPA er starfsleyfisskylt fyrirtæki og er starfsleyfi veitt í samræmi við ákvæði 20. greinar reglugerðar nr. 785/1999 um atvinnustarfsemi sem getur haft í för með sér mengun, samanber lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsleyfi nær til staðsetningar, eðli og umsvifa starfseminnar.

Starfsleyfisgjafi  og eftirlitsaðili fyrir móttöku og flokkunarstöðina í Gufunesi er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og fyrir urðunarstaðinn og GAJA í Álfsnesi er það Umhverfisstofnun.

Starfsleyfi og eftirlit með endurvinnslustöðvum SORPU veita: 
Í Reykjavík: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.
Í Kópavogi og Garðabæ: Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.
Í Mosfellsbæ: Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis.

Stofnsamninga, starfsleyfi og önnur skjöl má finna undir útgefnu efni.