Húsasorpsrannsókn SORPU

Árlega framkvæmir SORPA samanburðarrannsóknir á samsetningu blandaðs úrgangs frá heimilum og frá rekstraraðilum.

Rannsókninni er m.a. ætlað að svara kröfum um rekjanleika úrgangs sem fer til urðunar, auk þess að vera liður í þróun aðferða og endurvinnslufarvega. Rannsóknin var fyrst framkvæmd árið 1993 og hefur verið gerð árlega frá árinu 1999. Rannsóknin er framkvæmd í nóvember ár hvert.

Úrtak rannsóknar og úrgangsflokkar

Rannsóknin er þrískipt og er gerð greining á úrgangi frá sorphirðu, endurvinnslustöðvum og á úrgangi sem kemur baggaður á urðunarstað.

Tekið er 100 kg sýni úr einum sorphirðubíl fyrir flest sorphirðuhverfi Reykjavíkurborgar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Garðabæjar, Seltjarnarness og Hafnarfjarðar, samkvæmt sorphirðudagatali viðkomandi sveitarfélags. Samtals eru það um 30 sýni.

Tekin eru sambærileg sýni úr gámi fyrir blandaðan úrgang frá hverri endurvinnslustöð SORPU, samtals 12 sýni.

Í þriðja lagi eru svo tekin 9 sýni úr blönduðum úrgangi frá rekstraraðilum sem söfnunaraðilar koma með í böggum á urðunarstað SORPU í Álfsnesi.

Úrgangur er flokkaður í yfir 30 skilgreinda úrgangsflokka en til einföldunar eru niðurstöður kynntar samkvæmt yfirflokkum. Sem dæmi má nefna að flokkurinn pappír- og pappi hefur þrjá undirflokka og plast hefur sjö undirflokka.

Framkvæmd

Starfsmenn móttöku- og flokkunarstöðvar sjá um framkvæmd rannsóknarinnar en ábyrgðarmaður er umhverfisstjóri SORPU.

Umsjón baggarannsóknar er í höndum óháðra aðila (Resource international), sem sjá um sýnatöku, stýra flokkun og skráningu, úrvinnslu gagna og skila skýrslu með niðurstöðum rannsóknarinnar.