2. maí 2024

SORPA hlýtur Kuðunginn

Við hjá SORPU erum stolt að segja frá því að við hlutum Kuðunginn árið 2023, sem er umhverfisviðurkenning umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á SORPU, kemur fram að SORPA hafi í samstarfi við almenning lyft grettistaki í flokkun matarleifa árið 2023. SORPA hafi á árinu ráðist í mikilvæg umbótaverkefni sem sneru meðal annars að innleiðingu samræmds flokkunarkerfis og sérsöfnun matarleifa á höfuðborgarsvæðinu. Með sérsöfnun matarleifa hafi verið stigið stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, sem hafi skilað gríðarlegum umhverfisávinningi.

SORPA hafi gengið mun lengra en hægt sé að ætlast til af fyrirtækinu miðað við kjarnastarfsemi og hafi tekist að breyta hegðun almennings á skömmum tíma, auk þess að virkja fólk til þátttöku með átaki í fræðslu og markaðsherferðum. Þá hafi SORPA tekið þátt í fjölda samstarfsverkefna á sviðum endurvinnslu og endurnýtingar og veitt hlutum nýtt líf, m.a. í gegnum Efnismiðlunina og Góða hirðinn. Telur dómnefndin að SORPA sé vel að viðurkenningunni komin og sé öðrum fyrirtækjum til mikillar eftirbreytni með starfi sínu. Hér má sjá alla umsögn dómnefndar.

Við erum þakklát fyrir þessa viðurkenningu sem er heldur betur hvatning til okkar allra hjá SORPU að halda áfram að vinna að góðum verkefnum fyrir umhverfið í samvinnu við íbúa og sveitafélög höfuðborgarsvæðisins!

Takk fyrir að flokka, þessi árangur er okkar saman ♻

Nýjustu fréttir