19. apríl 2024

Vel gert!

Eitt umhverfisverkefna ársins 2023 hjá okkur var samræming flokkunar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hófst sérsöfnun og flokkun við heimili í fjóra úrgangsflokka; pappír og pappa, plastumbúðir, matarleifar og blandaðan úrgang, sem er lykilþáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi.

Árangur verkefnisins hefur nú þegar farið fram úr markmiðum og björtustu vonum okkar, hvort sem litið er til vitundarvakningar í samfélaginu eða jákvæðra áhrifa á magn úrgangs, þróunar í endurvinnsluhlutfalli eða hreinleika þess sem íbúar flokka.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga mikið lof skilið fyrir að standa svona vel að flokkun og lætur árangurinn ekki á sér standa.

Líkt og sjá má á mynd hér fyrir neðan hefur dregið úr úrgangi heimila og endurvinnsluhlutfall að sama skapi aukist. Það er vel gert!

Frettatilkynning-tolur_glæra-01

Með sérsöfnun á matarleifum stigum við öll saman stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Matarleifar eru auðlind og úr þeim framleiðum við nú metangas og moltu í GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU. Á árinu 2023 flokkuðu íbúar höfuðborgarsvæðisins og nágrennis um 10.500 tonn af matarleifum, sem er mjög vel gert!

Síðasta ár var metár í framleiðslu og sölu á metani, sem er dýrmæt og græn orka í samgöngum og iðnaði. Ekki er mikið til af lausu metani og það sem er framleitt er allt fullnýtt. Moltan frá GAJU uppfyllir líka öll skilyrði MAST sem heilbrigður jarðvegsbætir. Moltan verður gefin til íbúa og fyrirtækja í ár. Þar með aukast jákvæð umhverfis- og loftlagsáhrif söfnunar og endurvinnslu á matarleifum verulega.

Stóru skilaboðin og hugarfarsbreytingin með samræmingu flokkunar voru að nú flokkum við sérstaklega blandaðan úrgang (það sem fór í urðun) og ekki er hægt að endurvinna, í stað þess að flokka endurnýtanleg efni frá blönduðum úrgangi.

Mælingar SORPU sýna að magn matarleifa í blönduðum úrgangi (ruslinu) árið 2022 var um 58 kg á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins. Markmið með sérsöfnun matarleifa, sem hófst um mitt ár 2023, var að lækka þá tölu um helming. Niðurstöður fyrir árið 2023 leiða í ljós að magn matarleifa í blönduðum úrgangi var komið niður í 19 kg á hvern íbúa á ársgrundvelli, sem er 65% minna magn en árið áður. Einnig var sett markmið sem sneri að hreinleika í matarleifum. Árið 2022 var 30% lífræns úrgangs annað en matarleifar og bréfpokar. Markmið var sett að minnka það einnig um helming. Mælingar frá GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, sýna að hreinleiki í matarleifum árið 2023 var 98% sem er gríðarlega góður árangur og til marks um að hve vel íbúar standa að flokkun matarleifa. Vel gert!

Frettatilkynning-tolur_að_breyta_hegðun

Á eftirfarandi mynd má sjá magn úrgangsflokka í blönduðum úrgangi fyrir og eftir innleiðingu (kg/íbúa). Enn er til mikils að vinna og að ná enn meira magni matarleifa úr blönduðum úrgangi.

Frettatilkynning-tolur_glæra-02

Samkvæmt könnun Gallup sem framkvæmd var meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins í lok árs 2022, sögðust 95% flokka pappír og pappa, 85% flokka plastumbúðir og aðeins 27% aðspurðra sögðust flokka matarleifar. Markmið voru sett um að ná hækkun í öllum þessum þremur flokkum þar sem matarleifarnar myndu taka mestum breytingum, eða tvöfaldast í 54%. Í könnun Gallup í lok árs 2023 kom í ljós að flokkun matarleifa fór úr 27% árið 2022 í 90%. Enn fremur kom í ljós að hlutfall þeirra sem flokka pappír og pappa jókst úr 95% 2022 í 98% 2023. Hlutfall þeirra sem flokka plastumbúðir jókst úr 85% 2022 í 94% 2023. Hér á mynd má sjá niðurstöðurnar dregnar saman.

Við erum afskaplega þakklát íbúum höfuðborgarsvæðisins fyrir frábærar viðtökur á samræmdu flokkunarkerfi, sem skila þessum góða árangri fyrir okkur öll og umhverfið.

Hér má sjá allar niðurstöður viðhorfskönnunar Gallup árið 2023 fyrir áhugasama.

Takk fyrir að flokka!

Nýjustu fréttir