6. september 2023

SORPU heimilt að semja við Stena Recycling AB um brennanlegan úrgang

Kærunefnd útboðsmála aflétti í gær stöðvun samningsgerðar vegna kæru á útboði SORPU á brennanlegum úrgangi. Íslenska gámafélagið kærði þann 29. júní ákvörðun SORPU að velja tilboð Stena Recycling AB í fyrrgreindu útboði. SORPU er því heimilt að ganga til samninga við Stena um útflutning á brennanlegum úrgangi.

„Þessi niðurstaðar er mikill sigur fyrir umhverfið. Með útflutningi á brennanlegum úrangi drögum við úr urðun um rúm 40.000 tonn á ári. Þessi úrgangur verður þess í stað fluttur til Svíþjóðar og nýttur til að framleiða orku innan nokkurra vikna,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU. „Ég á ekki von á öðru en að kærnefnd útboðsmála komist í framhaldinu að endanlegri niðurstöðu um að SORPA hafi staðið rétt að útboðinu.“

Þar sem kæran barst á biðtíma stöðvaðist samningsgerð sjálfkrafa vegna kærunnar. SORPA krafðist þess að öllum kröfum Íslenska gámafélagsins yrði hafnað og að sjálfkrafa stöðvun yrði aflétt. Í rökstuðningi kærunefndar útboðsmála kemur meðal annars fram að eins og málið liggi fyrir á þessari stundu hafi ekki verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaupum sem leitt gæti til ógildingar á ákvörðun SORPU að velja tilboð Stena. Leyst verður endanlega úr efnisþætti málsins í framhaldinu.

Nýjustu fréttir