Eftirspurn eftir metangasi SORPU hefur aldrei verið meiri. Á fyrstu fimm mánuðum þessar árs hefur SORPA selt 871.752 rúmmetra af gasi, samanborið við 799.304 rúmmetra fyrstu 5 mánuðina árið 2022, sem er ríflega 9% aukning. Einn rúmmetri af metangasi inniheldur um það bil jafnmikla orku og einn lítri af dísilolíu.
Metangas SORPU er framleitt úr lífrænum úrgangi, bæði í GAJU og í urðunarhaug SORPU í Álfsnesi. Ef gasinu væri ekki safnað myndi það sleppa út í andrúmsloftið og valda 25-30 sinnum meiri loftslagsáhrifum en koltvísýringur. Gasið er því grænt og stuðlar að orkuskiptum á Íslandi.
Eftirspurn umfram framboð
Eftirspurn eftir metangasi hefur hins vegar aukist umfram framleiðslu. Viðskiptavinir SORPU, til dæmis olíufélögin sem kaupa metangas af SORPU, hafa þess vegna lent í þeirri óþægilegu stöðu að fá ekki nægilega mikið gas afhent til að halda þjónustu sinni gangandi. Eins hafa gæði metangassins tímabundið dalað örlítið, eins og fram kom í tilkynningu frá SORPU þann 23. maí síðastliðinn.
SORPA mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja að ekki verði þjónustufall hjá kaupendum á gasi frá SORPU og gæta jafnræðis ef ekki verður hægt að afhenda öllum viðskiptavinum það gas sem þeir þurfa á hverjum tíma.
SORPA vinnur hörðum höndum að því að auka bæði framleiðslu og gæði á metangasinu. Til þess verða boraðir tugir borhola í urðunarhaug SORPU á næstu vikum til að auka gassöfnun. GAJA mun einnig tímabundið taka við því grasi sem fellur til við garðslátt á höfuðborgarsvæðinu til að auka framleiðslu í verksmiðjunni.