23. maí 2023

Vegna ábendinga um gæði metans

Undanfarna daga hafa borist ábendingar vegna gæða á metangasi. Metangas sem SORPA afhendir sínum viðskiptavinum er að jafnaði í kringum 95% metangas en hefur undanfarnar vikur verið um 90%. Mælingar í bílum sem benda til að gæði séu á bilinu 70% til 80% eru því ekki í samræmi við mælingar SORPU.

Markmið SORPU er að afhenda 95% hreint metangas og hefur verið gripið til aðgerða, bæði á urðunarstað SORPU í Álfsnesi og í GAJU til að ná gasgæðum í 95%. Til að tryggja áframhaldandi afhendingu á gasi sem stenst gæðakröfur SORPU er stefnt að því að bora fleiri gassöfnunarholur á urðunarstað SORPU til að safna enn meira metangasi.

Með þessum borunum er auk þess dregið úr þeim gróðurhúsaáhrifum sem verða af uppgufun á metangasi frá urðunarstaðnum, því metangas er 28 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur og mikilvægt að koma í veg fyrir losun þess út í andrúmsloftið.

Þessu til viðbótar er mikilvægt að allir íbúar höfuðborgarsvæðisins flokki matarleifar með réttum hætti þegar nýjar tunnur koma við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Úr matarleifunum er hægt að vinna metangas með mun skilvirkari hætti og safna með því meira gasi. Upplýsingar um nýja flokkun má finna á vefnum www.flokkum.is

Bruni á metangasi losar rétt um tíunda hluta af því sem verður ef metangas sleppur óhindrað út í andrúmsloftið og því til mikils að vinna að hámarka söfnun og nýtingu á því.

Nýjustu fréttir