Flokkunarsetur SORPU

Hér finnur þú helstu upplýsingar um hvernig á að flokka. Hér beint fyrir neðan er gluggi þar sem þú getur slegið inn helstu tegundir af rusli og fengið svar við hvað á að gera við það.

Fjórir flokkar á hverju heimili

Á hverju heimili verður fjórum úrgangsflokkum safnað:

Matarleifar
Pappír og pappi
Plastumbúðir
Blandaður úrgangur

Leitast verður við að íbúar finni sem minnst fyrir breytingunum

Tunnum verður skipt út þegar innleiðing hefst og reynt verður eftir fremsta megni að fjölga tunnum sem minnst. Fjölgun tunna við sérbýli getur þó kallað á breytingar á sorpgeymslu eða lóð.

Öll heimili fá körfu og bréfpoka undir matarleifar

Matarleifum verður safnað í bréfpoka sem sveitarfélögin útvega íbúum um leið og tunnuskiptin eiga sér stað. Eina breytingin er að nú verða matarleifar flokkaðar sér en áður fóru þær saman með blönduðum úrgangi. Ekki verður meiri lykt af þessu fyrirkomulagi en verið hefur.

Karfan undir bréfpokana passar auðveldlega í flokkunarhirslur eldhúsinnréttinga.

Pokarnir hafa gefist mjög vel á Norðurlöndunum og skipta lykilmáli til að hægt sé að vinna nothæfa moltu úr matarleifunum með pokunum fá íbúar körfu til að safna matarleifum inn á heimilum. En karfan tryggir að það lofti um pokann sem kemur í veg fyrir mögulegan leka.

Tunnur

Almennt fyrirkomulag við sérbýli verður þrjár tunnur, sem fullnægir úrgangsþörf flestra heimila*

Íbúar munu lítið þurfa að aðhafast í tengslum við þessa breytingu annað en að tileinka sér nýja flokkunarsiði. Við flest sérbýli bætist við ný tunna, tvískipt, fyrir matarleifar og blandaðan úrgang.

Eftir samræmingu verði fyrirkomulag svohljóðhljóðandi:

Ein tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang
Ein tunna fyrir pappa og pappír
Ein tunna fyrir plastumbúðir


Tvískiptu tunnurnar eru tæmdar í bíla sem eru sérhannaðir með það huga að úrgangsflokkarnir blandist ekki.

*Fyrir sérlausnir, eins og fleiri eða færri tunnur, skulu íbúar hafa samband við sitt sveitarfélag eftir að dreifingu lýkur. Hafa ber í huga að öll heimili skulu flokka í fjóra flokka, óháð fjölda tunna. 

Tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang, auk plast- og pappírstunnu

Fyrirkomulag við fjölbýli

Mismunandi fyrirkomulag verður við fjölbýli og fer útfærsla eftir aðstæðum hverju sinni.

Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er og í flestum tilfellum verður leitast við að halda rúmmáli tunna óbreyttu, þ.e að koma þeim fyrir í rýmum sem eru til staðar.

Mismunandi útfærslur verða á fjölda tunna en hægt er að sjá mögulegar útfærslur á meðfylgjandi mynd þar sem annars vegar eru fjórar tunnur og annarsvegar kör með tunnum.

Stærð á tunnum

Tegund Hæð Breidd Dýpt
140 lítra 1100 mm 505 mm 555 mm
240 lítra 1169 mm 580 mm 724 mm
360 lítra 1150 mm 590 mm 880 mm
660 lítra 1225 mm 1255 mm 775 mm

240 lítra tunna er algengasta stærðin t.d. fyrir tvískiptar tunnur og matarleifar og blandaðan úrgang.

Hvað þarf ég að flokka?

Í glugganum hér fyrir ofan er hægt að slá inn algengustu úrgangstegundir og fá upplýsingar um hvernig á að flokka þær.

Hér fyrir neðan er hægt að sækja plaköt með upplýsingar um flokkun og hvernig tunnurnar líta út í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum.

Matarleifar

í tunnuna fer meðal annars:

  • Eggjaskurn
  • Matarleifar með beini
  • Kaffikorgur
  • Fiskiúrgangur

Plastumbúðir

í tunnuna fer meðal annars:

  • Snakkpokar
  • Plastfilma
  • Plastpokar
  • Sjampóbrúsar

Pappír og pappi

í tunnuna fer meðal annars:

  • Dagblöð
  • Bréfpokar
  • Pítsakassar
  • Pappírsumbúðir

Blandaður úrgangur

í tunnuna fer meðal annars:

  • Dömubindi
  • Blautklútar
  • Bleyjur
  • Ryksugupokar

Þá verður málmumbúðum (niðursuðudósir o.fl.) og glerumbúðum (glerkrukkur o.fl.) safnað á grenndarstöðvum.

Gler- og málmumbúðum safnað í grenndargámum

Til viðbótar við fjögurra flokka kerfi við heimili verður grenndargámum fjölgað.

  • Gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum verður safnað á grenndarstöðvum sem verða staðsettar um 500 metra frá hverju heimili.
  • Stærri grenndarstöðvar verða í um kílómetra fjarlægð frá hverju heimili og þar bætast við gámar fyrir pappír og pappa, og plast.

Grenndarstöð-L

Spurt og svarað um nýtt flokkunarkerfi

Spurt og svarað um nýjar tunnur

  • Af hverju er verið að fara í þessar breytingar?

    Almenningur hefur lengi kallað eftir sérsöfnun á lífrænum úrgangi og samræmingu á flokkunarkerfi við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Þetta felur í sér betri þjónustu við íbúa á öllu höfuðborgarsvæðinu - eitt kerfi, einar reglur. Í dag er mismunandi flokkunarkerfi á milli sveitarfélaga.

    Nýja kerfið byggir á lögum sem taka gildi árið 2023 og fela í sér betri meðhöndlun á úrgangi en hætta þarf að urða lífrænan úrgang.

  • Hvað þýða þessar breytingar fyrir umhverfið?

    Nýtt kerfi gerir okkur kleift að flokka enn betur því það er mikilvægt að halda auðlindum innan hringrásarhagkerfisins. Því betur sem við flokkum úrganginn okkar, því meiri líkur eru á að hægt sé að endurvinna hann.

  • Hvað á ég að gera við málma og gler?

    Þessum flokkum þarf hver og einn að skila á grenndargámastöðvar sem verða staðsettar með um 500 metra millibili á öllu höfuðborgarsvæðinu.

  • Verður breyting á grenndargámum?

    Gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum verður safnað á grenndarstöðvum sem verða staðsettar innan við 500 metra frá hverju heimili.

    Stærri grenndarstöðvar verða innan við kílómetra fjarlægð frá hverju heimili og þar bætast við gámar fyrir pappír og pappa, og plast.

Spurt og svarað um nýjar tunnur

  • Hvernig tunnur verða hjá mér?

    Tunnum fyrir fjóra flokka verður komið fyrir við íbúðarhús eftir þörfum. Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er og í flestum tilfellum verður leitast við að koma tunnum fyrir í því rými sem er þegar til staðar við íbúðarhús. Í hinu nýja kerfi verða því að jafnaði tvær til  þrjár tunnur við sérbýli en í fjölbýlishúsum fer útfærsla eftir aðstæðum á hverjum stað. Nánari útfærslur í hverju sveitarfélagi verða kynntar síðar. 

  • Hvenær koma tunnur til mín?

    Nýtt kerfi verður innleitt um mitt ár 2023.

    Nánari tímaáætlun kemur síðar en innleiðing er í höndum hvers sveitarfélags.

  • Hversu mikið pláss taka tvískiptu tunnurnar?

    Tvískiptu tunnurnar er jafn stórar og hinar hefðbundnu 240 lítra tunnur. Eina breytingin er að þær eru með sitthvort hólfið og lokin opnast til hliðar í staðinn fyrir á móti þeim sem stendur fyrir framan tunnuna.

  • Verða tvískiptar tunnur líka í sorpgeymslum fjölbýlishúsa?

    Nei, almennt má gera ráð fyrir því tvískiptar tunnur verði ekki sorpgeymslum fjölbýlishúsa. Tunnusamsetning í fjölbýlishúsum getur orðið á ýmsan hátt allt eftir aðstæðum á hverjum og einum stað.

  • Hvað geri ég ef pappa- eða plast hólfið í tvískiptri tunnu fyllist?

    Þá getur þú annað hvort farið með pappann eða plastið á stærri grenndarstöðvar sem verða staðsettar með um 1000 metra millibili á höfuðborgarsvæðinu, eða óskað eftir að tvískipta tunnan verði fjarlægð og fengið tvær 240 lítra tunnur í staðinn. Það þýðir þá að þú hafir þrjár tunnur í heildina og þurfir að stækka tunnuskýlið sem því nemur.

  • Ég þarf að búa til nýtt tunnuskýli heima hjá mér. Hvað þarf ég að hafa í huga?

    Best er að hafa samband við sveitarfélagið þar sem þú býrð til að fá nánari upplýsingar. En almennt er best að koma tunnuskýlunum fyrir sem næst götu svo starfsfólk sorphirðunnar þurfi ekki að sækja tunnur langt inn fyrir lóðarmörk.

  • Hvernig bílar eru notaðir til að tæma tvískiptar tunnur?

    Til að tæma tvískiptar tunnur verða notaðir bílar með tveimur hólfum. Flokkaður úrgangur, t.d. matarleifar og blandaður úrgangur, fer þá í sitthvort hólfið.

  • Hversu oft verða tunnurnar tæmdar?

    Losun á tunnum mun í flestum tilvikum aukast. Til að fá nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við sitt sveitarfélag.

  • Get ég breytt fyrirkomulagi á tunnum hjá mér?

    Reynt verður að hafa breytingar eins þægilegar og fyrirferðalitlar eins og mögulegt er þannig að íbúar finni sem minnst fyrir þeim. Íbúum verður bent á að prófa nýtt fyrirkomulag í nokkrar vikur. Ef það hentar ekki þá er hægt að hafa samband við sitt sveitarfélag til að athuga hvaða möguleikar eru í stöðunni.

  • Hvernig verða tunnurnar merktar?

    Allar tunnur verða merktar með nýjum merkingum í samræmi við reglur Fenúr (Fagráðs um endurnýtingu og úrgang). Merkingarnar byggja á samræmdu norrænu merkingakerfi.

  • Hvað verður gert þar sem eru djúpgámar?

    Mismunandi fyrirkomulag er á djúpgámum. Hægt er að hafa samband við sitt sveitarfélag til að fá meiri upplýsingar um djúpgáma.

Spurt og svarað um matarleifar

  • Hvernig safna ég matarleifum og hvernig poka á ég að nota?

    Matarleifum verður safnað í bréfpoka sem brotna auðveldlega niður og festast ekki í vélbúnaði móttökustöðva SORPU. Sveitarfélögin úthluta bréfpokum til íbúa til að byrja með til að tryggja söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Sveitarfélögin útvega íbúum einnig ílát til að safna lífrænum úrgangi inn á heimilum.

  • Munu bréfpokar ekki leka?

    Söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi kallar að hluta til á breyttar venjur. Þær munu meðal annars fela í sér að passa að blautar matarleifar fara ekki í bréfpokana eða þá að farið sé reglulega með þá út í tunnu. Ef mjög blautar matarleifar fara í pokana verður hægt að setja eldhúspappír í botn þeirra.

  • Hvar nálgast ég fleiri poka og hvað munu þeir kosta?

    Pokarnir munu berast í allar helstu matvöruverslanir í seinnihluta júní 2023 og verða fríir til að byrja með.

  • Af hverju þarf að flokka matarleifar?

    Söfnun á matarleifum eða lífrænum úrgangi er stórt skref í átt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Úr lífrænum úrgangi sem safnast við heimili er framleitt metangas og molta eða jarðvegsbætir. Metangas nýtist meðal annars sem bifreiðaeldsneyti og molta nýtist til landgræðslu.

    Samkvæmt lögum sem taka gildi árið 2023 þarf að hætta að urða lífrænan úrgang.

  • Munu matarleifar ekki lykta illa í tunnunni?

    Ef það er ekki koma ólykt úr almennu tunnunni núna þá mun ekki koma ólykt úr lífrænu tunnunni eftir breytingar. Samsetning úrgangsins mun ekki breytast heldur mun úrgangurinn bara vera í sitthvorri tunnunni en ekki blandaður saman eins og áður.

  • Þarf ég að fá tunnu fyrir matarleifar ef ég er með heimamoltugerð?

    Já, það verður skylda fyrir öll heimili að hafa fjóra flokka fyrir úrgang. Auk þess er ýmislegt lífrænt sem fellur til í eldhúsinu sem hentar ekki til heimajarðgerðar.

  • Hversu stórar eru körfurnar fyrir matarleifar?

    Körfurnar eða ílátin fyrir matarleifar sem verða inni á heimilum eru að stærðinni 247mm x 197mm x 280mm (L x B x H).

    matarleifar_karfa

  • Má ég setja matarleifar beint í tunnuna í engum poka?

    Já, SORPA gerir ekki athugasemdir við að setja matarleifar í tunnuna í engum poka. Tunnan verður hins vegar óhreinni við það svo við mælum með því að nota bréfpokana.

Hvenær kemur að mér?

Staða mála í þínu sveitarfélagi

Þú færð allar nánari upplýsingar um nýtt samræmt flokkunarkerfi í þínu sveitarfélagi á heimasíðum sveitarfélaganna hér að neðan.