Chat with us, powered by LiveChat

Jafnréttisáætlun SORPU

Áætlun tók gildi: 11.11.2014 
Síðast endurskoðuð í maí 2024 
Endurskoðist í maí 2027

1. Tilgangur og markmið

Jafnréttisáætlun SORPU miðar meðal annars að því að auka almenna starfsánægju og bæta starfsanda. Jafnréttisáætlun er unnin í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Tilgangur jafnréttisáætlunar er að tryggja fyllsta jafnrétti milli kynja á vinnustaðnum með það að markmiði að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundin mismunun eigi sér stað. Einnig skal tryggt að einelti, kynferðisleg og/eða kynbundin áreitni og annað ofbeldi sé ekki liðið á vinnustaðnum. Í jafnréttisáætlun þessari skal tryggt að starfsmönnum sé ekki mismunað vegna kyns, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, aldurs og stöðu að öðru leyti.

2. Launajafnrétti 

Greiða skal jöfn laun og starfsmenn skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og skulu þau viðmið sem lögð eru til grundavallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismun. Við ákvörðun starfskjara skal tryggt að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar þeirri ákvörðun feli ekki í sér kynjamismun. Það gildir jafnt um frammistöðu í starfi, lífeyrisframlag, lengd orlofs eða veikindaréttar eða hvers konar annarra starfskjara sem hægt er að meta til fjár. 

Markmið

  • Það er markmið SORPU að laun og önnur starfskjör eða hlunnindi séu jöfn fyrir sambærileg eða jafn verðmæt störf
    • Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir alla starfsmenn. Ákvarðanir sem hafa áhrif á launakjör skulu byggjast á málefnalegum forsendum og jafnréttis gætt. Viðmið sem sett eru til grundvallar launaákvörðunum skulu ekki fela í sér kynjamismunun

Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, deildarstjórar, mannauðsstjóri og sérfræðingur á fjármálasviði.
Mæling: Úttektir ytri fagaðila og vottun á jafnlaunakerfi SORPU ásamt niðurstöðum launagreininga.
Tímarammi: Árlegar úttektir á jafnlaunakerfi SORPU og ársfjórðungslegar launagreiningar.

3. Laus störf, starfsþjálfun, sí- og endurmenntun 

Mikilvægt er að öllum bjóðist jöfn tækifæri til að vinna að þeim verkefnum er fyrirtækið kemur að og sinnir.

Markmið

  • Stefnt skal að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynja í störfum innan SORPU eða eins og hægt er
    • Jafnréttissjónarmið verður að meta til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar

Ábyrgð: Framkvæmdastjóri, framkvæmdastjórn og mannauðsstjóri.
Mæling: Fylgst er með kynjahlutfalli eftir deildum og í stjórnendateymi SORPU.
Tímarammi: Tölfræði tekin saman tvisvar á ári.

  • Við auglýsingu starfa skal gæta þess að umsóknir séu opnar öllum kynjum
    • Þess verði gætt að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis við úthlutun verkefna eða þegar teknar eru ákvarðanir um framgang í störfum
    • Jafnframt skal tryggja að allir starfsmenn óháð kyni njóti sömu tækifæra til að axla ábyrgð

Ábyrgð: Stjórnendur hverrar ráðningar ásamt mannauðsstjóra.
Mæling: Fylgst er með kynjahlutfalli umsækjenda, þeirra aðila sem koma í ráðningarviðtöl og þeirra aðila sem eru ráðnir.
Tímarammi: Tölfræði tekin saman tvisvar á ári.

  • Ekki skal mismuna starfsmönnum eftir kyni hvað varðar möguleika til sí- og endurmenntunar og starfsþjálfunar
    • Tryggja skal að allir starfsmenn óháð kyni geti sótt námskeið sem haldin eru sérstaklega til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf
    • Leitast þarf við að höfða til allra kynja í tilboðum er lúta að starfsþjálfun og endurmenntun og gæta skal jafnréttis hvað varðar ábyrgð og þátttöku starfsmanna í starfshópum og nefndum

Ábyrgð: Framkvæmdastjórn og mannauðsstjóri.
Mæling: Fylgst er með kynjahlutfalli þeirra starfsmanna sem sækja námskeið og þjálfun á vegum samlagsins.
Tímarammi: Tölfræði tekin saman einu sinni á ári

4. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs  

SORPA skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera öllum starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu eins og mögulegt er. Þessar ráðstafanir skulu miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma. Taka skal tillit bæði til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa fyrirtækisins. Þar með talið að starfsmenn eigi auðveldara með að koma til starfa eftir fæðingarorlof, foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. 

Markmið

  • Tryggja skal að allt starfsfólk, óháð kyni, geti samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf. Tekið skal tillit til heilsufars og fjölskylduaðstæðna starfsfólks
    • Starfsfólki skulu kynnt úrræði á borð við sveigjanlegan vinnutíma og möguleikum á hlutastörfum þar sem því er við komið
    • Öllu starfsfólki, óháð kyni, skal vera gert kleift að nýta rétt sinn til fæðingar- og foreldraorlofs
    • Öllu starfsfólki, óháð kyni, skal vera gert kleift að nýta rétt vegna veikinda barna

Ábyrgð: Deildarstjórar og mannauðsstjóri.
Mæling: Jafnvægi milli vinnu og einkalífs er mælt einu sinni á ári í vinnustaðagreiningu.
Tímarammi: Vinnustaðagreining einu sinni á ári.

  • SORPA stefnir markvisst að því að draga úr yfirvinnu starfsmanna eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi vakta
    • Vaktakerfi skal vera fyrirsjáanlegt að minnsta kosti þrjá mánuði fram í tímann svo hægt sé að samhæfa fjölskyldulíf og starf
    • Upplýsa skal starfsmenn um fyrirkomulag vakta á hverri starfsstöð og er það á ábyrgð deildarstjóra starfsstöðva, þá geta starfsmenn líka nálgast vaktakerfi inn á innra neti SORPU og á starfsstöð sinni

Ábyrgð: Deildarstjórar hverrar deildar þar sem á við.
Mæling: Álag og streita er mæld einu sinni á ári í vinnustaðagreiningu.
Tímarammi: Uppfært á þriggja mánaða fresti. 

5. Einelti, kynbundin, kynferðisleg áreitni og ofbeldi. 

Það er stefna SORPU að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu ávallt kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða annað ofbeldi er undir engum kringumstæðum liðið á vinnustað SORPU. Meðvirkni starfsmanna er fordæmd. 

Markmið

  • Að koma í veg fyrir og/eða útrýma einelti, áreitni og/eða ofbeldi á vinnustað SORPU 
    • Starfsfólk fær reglulega fræðslu um einelti, áreitni og ofbeldi og afleiðingar þess
    • Forvarnar- og viðbragðsáætlun SORPU gegn einelti, áreitni og ofbeldi aðgengileg og kynnt fyrir öllum
    • Skapa vinnuskilyrði sem koma í veg fyrir slík atvik

Ábyrgð: Deildarstjórar og mannauðsstjóri.
Mæling: Mælt tvisvar á ári í vinnustaðagreiningu.
Tímarammi: Regluleg fræðsla, kynning í nýliðafræðslu, forvarnar og viðbragðsáætlun aðgengileg og til staðar ásamt spurningum tvisvar á ári í vinnustaðagreiningu.

6. Eftirfylgni 

Jafnréttisáætlun þessi er í sífelldri þróun, þá er hún endurskoðuð og þróuð með hliðsjón af reynslu og fyrirliggjandi greiningum. Deildarstjórar bera á byrgð á að einstökum ákveðum jafnréttisáætlunarinnar sé framfylgt innan hverrar deildar. 

Jafnréttisáætlun þessa ber að endurskoða og skila til Jafnréttisstofu á þriggja ára fresti, næst í maí árið 2027. Þá skulu mannauðsstjóri og launafulltrúi rýna jafnréttisáætlunina á sex mánaða fresti, með það að markmiði að sannreyna hvort jafnréttisáætlun skili tilætluðum árangri. Ásamt því að meta hvort markmið áætlunar séu raunhæf og hvort starfsmenn hafi nýtt sér tækifærin sem áætlun felur í sér. Vinnustaðagreining/áhættumat skal framkvæmd einu sinni til tvisvar á ári með tilliti til markmiða og verkefna jafnréttisáætlunar. Árlega skal fara yfir markmið, aðgerðir og niðurstöður verkefna með framkvæmdastjóra, deildastjórum og helstu stjórnendum í tengslum við árlegan rýnifund stjórnenda. 

Samþykkt og útgefið í maí 2024.