Vegna fréttar um gjaldskrárbreytingar SORPU í Fréttablaðinu 29. desember vill SORPA koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.
Föstudaginn 6. nóvember síðastliðinn áttu fulltrúar SORPU og Samtaka iðnaðarins fund þar sem fjallað var um fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar. Ekki bárust athugasemdir við þær breytingar á fundinum eða eftir fundinn til fulltrúa SORPU fyrr en í fjölmiðlum rúmum mánuði síðar.
SORPA hefur tekið saman minnisblað sem útskýrir forsendur gjaldskrárhækkana fyrir gler og steinefni og komið á framfæri við Samtök iðnaðarins. Það var gert 16. desember síðastliðinn. Forsendur breytinganna liggja því fyrir hér .
Í lögum um meðhöndlun úrgangs númer 55/2003, sem gilda um starfsemi rekstraraðila förgunarstaðar úrgangs, er skýrt kveðið á um skyldu til að innheimta gjald fyrir förgun úrgangs og að það skuli nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins. Þessi skilningur er staðfestur í minnisblaði sem unnið var fyrir SORPU, og var einnig sent fulltrúum Samtaka iðnaðarins 16. desember og má nálgast hér .
SORPU er því óheimilt annað en að innheimta raunkostnað fyrir förgun úrgangs með þeim hætti að hver og einn úrgangsflokkur standi undir kostnaði við förgun hans. Einn úrgangsflokkur má ekki standa straum af kostnaði vegna annars úrgangsflokks.
Vangaveltur í frétt Fréttablaðsins um að gjaldskrárbreytingum sé ætlað að „fylla upp í um 900 milljóna króna gat í rekstrarreikningi næsta árs og 700 milljónir til viðbótar árið 2021,“ eiga sér enga stoð. Gjaldskrár samlagsins endurspegla raunkostnað við meðhöndlun úrgangs. Stór skref eru nú stigin í því að draga úr urðun og urðunarstaðnum í Álfsnesi verður lokað í árslok 2023. Afleiðing þessa er sú að kostnaður við ráðstöfun úrgangs fer almennt vaxandi og sá kostnaður er borinn af eigendum úrgangsins.