Umhverfisskýrsla SORPU, grænt bókhald, fyrir árið 2019 er komin út. Í skýrslunni er fjallað um niðurstöður umhverfisbókhalds SORPU, s.s. notkun hráefna í starfseminni, orku- og vatnsnotkun, eldsneytisnotkun og fleira. Einnig er fjallað um loftslagsmarkmið SORPU og þau verkefni sem farið var í á árinu til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni. Umhverfisskýrslan er hluti af ársskýrslu SORPU en hún er væntanleg í heild sinni í byrjun sumars.
Helstu niðurstöður
Heildarúrgangsmagn sem móttekið var hjá SORPU árið 2019 dróst saman um 14,6% frá fyrra ári og var alls tekið við 224.756 tonnum.
Endurnýtingarhlutfall úrgangs var 49,6%.
Árið 2019 heimsóttu 3.484 einstaklingar á öllum aldri SORPU til að fræðast um starfsemi fyrirtækisins og umhverfissjónarmið við flokkun og meðhöndlun úrgangs.
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flutninga og aksturs með úrgang á vegum SORPU dróst saman og var heildarlosun CO 2 vegna eldsneytisnotkunar um 1.325 tonn (1.690 tonn 2018). Losunin dregst saman um hálft kg CO 2 á hvert meðhöndlað tonn úrgangs hjá fyrirtækinu.
Fleiri áhugaverðar niðurstöður má kynna sér í skýrslunni .