Chat with us, powered by LiveChat
25. júní 2020

Tímamót í úrgangsmálum á höfuðborgarsvæðinu

Kjörnum fulltrúum í stjórnum sveitarfélaganna sex sem standa að SORPU bs. var í dag boðið að kynnast nýrri Gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi (GAJA) og vélrænni flokkunarlínu í móttöku- og flokkunarstöð í Gufunesi. Tilkoma þessara tveggja úrvinnslustöðva felur í sér byltingu í starfsemi SORPU og er meðal stærstu framfaraskrefa í umhverfismálum hér á landi á síðari tímum, því þær gera sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu kleift að stórauka flokkun og endurvinnslu og hætta urðun úrgangs á næstu þremur árum. Með þessu færist sorphirða á höfuðborgarsvæðinu í átt til hringrásarhagkerfisins með 90 þúsund tonna samdrætti í losun koltvísýrings sem jafngildir því að taka 40.000 bensín- eða dísilknúnar fólksbifreiðar af götunum. Að auki verður hægt að nýta innlenda orku í auknum mæli í stað innflutts eldsneytis.

Þriðjungi metanframleiðslu GAJA þegar ráðstafað til iðnaðarframleiðslu

Með tilkomu GAJA tvöfaldast núverandi metanframleiðsla SORPU og fer úr rúmum þremur milljónum rúmmetra í liðlega sex milljónir rúmmetra. Auk aukinnar metanframleiðslu mun úrvinnsla Gas- og jarðgerðarstöðvarinnar skila árlega um 12 þúsund tonnum af moltu sem nýtt verður til almennrar landgræðslu og jarðarbóta. Fram kom í kynningunni að nú þegar liggur fyrir samningur um sölu á einni milljón rúmmetra af metani til iðnaðarnotkunar og er frekara markaðsstarf í fullum gangi. Ljóst er að SORPA mun geta nýtt 2,2 milljónir rúmmetra af metanframleiðslunni fyrir eigin starfsemi, komi ekki til fleiri stórkaupendur á næstu misserum. Því má segja að þeirri viðbótar metanframleiðslu sem til verður með GAJA hafi þegar verið fundinn farvegur.

Stofnfé aukið

Kostnaður við GAJA hefur eins fram hefur komið  hækkað umtalsvert á framkvæmdatímanum, bæði vegna vanáætlunar og óhagstæðra útboðsskilyrða, en einnig vegna magnaukningar og verðbóta og af fleiri ástæðum . Vegna þessa viðbótarkostnaðar leggur stjórn og eigendavettvangur til að sveitarstjórnir hækki stofnframlag sitt til SORPU um 1000 milljónir króna. Með því að urðun úrgangs er hætt þarf ekki að útbúa nýtt urðunarsvæði í Álfsnesi, sem áætlað var að myndi kosta á bilinu 800 - 1150 milljónir króna.

Urðun í Álfsnesi hætt 2023

Vegna breytinga sem nú verða á meðferð og förgun úrgangs hjá SORPU og með aukinni áherslu á endurnýtingu lífræns úrgangs mun þörf fyrir urðun minnka mjög hratt næstu þrjú til fjögur árin. SORPA hefur í samstarfi við önnur sorpsamlög á suðvesturhorni landsins unnið að því síðustu ár að finna framtíðarlausn á urðun óvirks úrgangs en sú lausn liggur enn ekki fyrir. Því hafa eigendur SORPU samþykkt að framlengja um þrjú ár heimild til takmarkaðrar nýtingar á urðunarstaðnum í Álfsnesi til ársloka 2023 en þá verður allri urðun þar hætt. Síðustu ár hafa 120 til 140 þúsund tonn af úrgangi verið urðuð árlega í Álfsnesi.

Græn gjaldskrá hvetur til flokkunar

Hertar umhverfiskröfur hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir SORPU við eyðingu sorps og úrvinnslu. Þetta á bæði við um kostnað við rekstur úrvinnslustöðvanna í Gufunesi og Álfsnesi en einnig mun kostnaður vegna aukins útflutnings á brennanlegum úrgangi til orkuendurvinnslu hækka verulega. Til að mæta auknum rekstrarkostnaði er verið að þróa nýja „græna gjaldskrá“ SORPU sem mun taka mið af umhverfishagsmunum og vinnslukostnaði í GAJA. Sem dæmi um áherslur í grænni gjaldskrá má nefna að dýrara verður að koma með óflokkaðan og grófan úrgang til vinnslu hjá SORPU en flokkaðan úrgang. Gert er ráð fyrir að ný gjaldskrá taki gildi í byrjun árs 2021 en á næstu vikum verður farið í samráð um hana með hagsmunaaðilum .

Nýjustu fréttir