Árið 2023 hóf SORPA að láta móttökuaðila erlendis flokka drykkjarfernur sérstaklega frá öðrum pappírsumbúðum og senda í sérhæfða endurvinnslu.
Þetta var gert eftir að í ljós kom að móttökuaðili SORPU á pappír erlendis gat ekki ábyrgst að drykkjarfernur væru endurunnar í þeirra endurvinnsluferlum. Drykkjarfernur krefjast sérstakrar meðhöndlunar við endurvinnslu sem aðeins er boðið upp á hjá sérhæfðum endurvinnsluaðilum. Af þeim sökum fóru þær í orkuendurnýtingu eftir endurvinnsluferli sem skilaði ekki árangri.
Afar lítill árangur fyrir dýra meðhöndlun
Eftir tveggja ára reynslu af þessu sérhæfða endurvinnsluferli hafa athuganir leitt í ljós að þessi flokkun á drykkjarfernum skilar afar litlum árangri, eykur losun koltvísýrings og er auk þess kostnaðarsöm.
Aðrar leiðir til endurvinnslu kannaðar
SORPA mun því að svo stöddu hætta að senda pappír sem safnað er við heimili í sérstaka flokkun erlendis, þar sem slík leið er afar kostnaðarsöm, án teljanlegs árangurs. Þess í stað fer allur pappír og pappi tímabundið í fyrri endurvinnslufarveg, sem skilar rúmlega 90% endurvinnsluhlutfalli, með minna kolefnisfótspori og kostnaði en núverandi farvegur.
SORPA er nú þegar að leita skilvirkari, umhverfisvænni og hagkvæmari leiða til að safna og meðhöndla drykkjarfernur í samráði við hagaðila á borð við framleiðendur drykkjarvara til að tryggja að þær komist í þá sérhæfðu endurvinnslu sem þær þarfnast, með lægri tilkostnaði.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarin ár staðið sig mjög vel í flokkun á öllum flokkum, sem er forsenda endurvinnslu. SORPA biður íbúa á höfuðborgarsvæðinu því eftir sem áður að setja drykkjarfernur í tunnuna fyrir pappír við heimili meðan leitað er leiða til að koma þeim í sérhæfða endurvinnslu.