SORPA og Te & kaffi hafa undirritað þróunarsamning um kaup á allt að 40.000 normalrúmmetrum af metani á ári. Metanið verður til í GAJU, sem er eitt umfangsmesta umhverfis- og loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu frá því heitt vatn var lagt í hús. Hluti af metaninu er framleiddur með niðurbroti á umbúðum frá Te & kaffi.
Metanið verður nýtt sem orkugjafi til að rista kaffibaunir hjá Te & kaffi og kemur í stað kósangass sem dregur verulega úr kolefnisfótspori kaffisins sem Te & kaffi býður upp á.
Samningur SORPU og Te & kaffi er til marks um hversu góðum árangri má ná við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nýta innlenda orkugjafa með góðu samstarfi og hugmyndaauðgi. Metanið sem SORPA afhendir Te & kaffi kemur úr GAJU, en með henni og bættri úrgangsmeðhöndlun mun SORPA árlega koma í veg losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 90.000 tonnum af koltvísýringsígildi á hverju ári. Það jafngildir um 10 prósentum af markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun innan Parísarsamkomulagsins til ársins 2030.
Umbúðir Te & kaffi brotna niður og verða að metani og moltu
„Við settum okkur skýr markmið um að verða grænna fyrirtæki og höfum markvisst verið að vinna í því undanfarin tvö ár. Þessi breyting er mjög stór þáttur í þeirri vegferð en við erum einnig að skipta yfir í umbúðir unnar úr plöntusterkju sem GAJA umbreytir í mold og metan sem svo aftur nýtist okkur við framleiðslu á kaffi. Þessi hringrás er eitthvað sem við erum ótrúlega stolt að vera hluti af,“ segir Kristín María Dýrfjörð, einn eigenda Te og kaffi.
Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri SORPU, fagnar því að metan frá GAJU verði notað til að búa til umhverfisvænna kaffi. „Hringrásarhagkerfið teygir anga sína víða og það er frábært til þess að hugsa að umbúðir utan af vöru verði hluti af virðiskeðju nýrrar vöru hjá sama fyrirtæki. Þetta er til marks um þann árangur sem er að verða af umbreytingaferli SORPU í eitt af lykilfyrirtækjum við innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi.“
Te & Kaffi er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1984 og er leiðandi á íslenskum kaffimarkaði. Framleiðsla á kaffi spilar veigamesta þáttinn í starfsemi fyrirtækisin ásamt rekstri á níu kaffihús á höfuðborgarsvæðinu.