Um það bil ár er liðið frá því að GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, var ræst og tók til við að vinna lífrænan úrgang og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu ári sem GAJA hefur verið í uppkeyrslu hafa komið ljós atriði sem mikilvægt er að ávarpa.
Á þessu fyrsta starfsári hefur komið í ljós að flokkunarbúnaður í Móttöku- og flokkunarstöð SORPU í Gufunesi nær ekki að tryggja henni nógu hreina hráefnisstrauma til moltugerðar. Þrátt fyrir 85-90% árangur vélrænnar flokkunar dugar sá árangur ekki til.
Fram hefur komið að plast, gler og þungmálmar hafa greinst í moltu frá GAJU . Sérfræðingar hafa bent á að til að moltan uppfylli kröfur um hreinleika verði að ráðast í sérsöfnun á lífrænum úrgangi. Sveitarfélögin sem standa að SORPU hafa þegar hafið undirbúningsvinnu við sérsöfnun og samræmingu á sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu og stefnt er að sérsöfnun á lífrænum úrgangi á höfuðborgarsvæðinu sem fyrst.
Í ágúst greindist myglugró í límtréseiningum í þaki og burðarvirki GAJU. Af þessum sökum hefur fullvinnsla á lífrænum úrgangi í moltu verið stöðvuð tímabundið meðan verið er að meta umfang vandans og tryggja öryggi starfsfólks. Myndun myglugróa er hluti af moltugerðarferli þar sem lífrænn úrgangur brotnar niður og eðlilegt að mygla finnist við vinnslu. Stöðvunin hefur ekki áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi með söfnun metangass.
Óháðir sérfræðingar hafa verið fengnir til að gera úttekt á umfangi vandans og leggja fram tillögur til úrbóta. Upplýsingagjöf til stjórnar var verulega ábótavant og jafnvel villandi á byggingartíma. Það kom meðal annars fram í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem núverandi stjórn kallaði eftir.
„Öryggi starfsmanna skiptir okkur öllu máli og við vildum bæði tryggja það og hefjast tafarlaust handa við að stemma stigu við mygluvextinum. GAJA er einn hlekkur í að innleiða hringrásarhagkerfið á höfuðborgarsvæðinu og það er því mikilvægt að stöðin starfi hnökralaust og nái vinnslumarkmiði sínu. Þessi myglugró sem hafa greinst vekja upp spurningar um hvernig staðið var að hönnun og efnisvali fyrir húsnæði hennar. Við í stjórn SORPU höfum falið framkvæmdastjóra að leita skýringa á þessu sem allra fyrst,“ segir Líf Magneudóttir, formaður stjórnar SORPU.
Gjaldskrárhækkun væntanleg vegna útflutnings
Markmið SORPU og eigenda hennar er að hætta að urða úrgang. Ekki er þó hægt að endurnýta allan úrgang. Til að hætta að urða þarf því að flytja brennanlegan úrgang úr landi til brennslu. Brennsla er umhverfislega ábyrgari kostur en urðun þar sem það dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá honum auk þess sem úrgangurinn er nýttur til framleiðslu á orku og kemur þannig í stað brennslu jarðefnaeldsneytis.
Útflutningur á úrgangi til brennslu er eðli málsins samkvæmt mun dýrari valkostur en urðun. Vegna þeirra lagareglna sem gilda um innheimtu kostnaðar við meðhöndlun úrgangs er SORPU skylt að hækka gjaldskrár sínar sem þessu nemur.
Fjögur sorpsamlög á suðvesturhorni landsins auk umhverfis- og auðlindaráðuneytis vinna nú að forverkefni til undirbúnings á framtíðarlausn til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar. Til að draga úr kostnaði, losun gróðurhúsalofttegunda og auka endurvinnslu er mikilvægt að heimili og fyrirtæki flokki enn betur og skili endurvinnsluefnum í réttan farveg.