Stjórn Sorpu bs. samþykkti í lok síðasta árs að veita framkvæmdastjóra félagsins heimild til að undirrita viljayfirlýsingu um þróunarsamstarf við PVD ehf. vegna verkefnis um vinnslu olíu úr plasti.
Samstarfið er hluti af því verkefni Sorpu að finna plasti, sem þangað er skilað, betri farveg og einn margra kosta við aðferðir og tækni sem PVD hefur fram að færa er að plastið þarf hvorki að vera sérvalið né hreint til að vera nothæft til olíuvinnslu.
Tæknin hefur verið notuð erlendis þar sem hún hefur sannað gildi sitt og því ekki um tilraunaverkefni að ræða, segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, í samtali við Morgunblaðið í morgun.
„Þetta yrði því mjög fjölhæf innlend leið til að endurnýta plast og styður við áherslu Sorpu á betri nýtingu á þeim efnum sem berast til okkar. PVD mun til dæmis geta unnið lífdísil úr plastinu sem kæmi þá í stað innflutts jarðefnaeldsneytis,“ útskýrir Jón Viggó og bætir við:
„Það að nýta plast í olíuframleiðslu með þessum hætti gerir Sorpu kleift að endurnýta plast sem ætti sér annars ekki endurnýtingarfarveg nema í brennslu erlendis. Hlutur jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa fer vonandi ört minnkandi á Íslandi á næstu árum en ólíklegt að því verði alfarið útrýmt og því jákvætt að framleiða lífdísil innanlands.“
Viðræður Sorpu og PVD vegna verkefnisins hafa staðið yfir frá árinu 2016. Með undirritun viljayfirlýsingarinnar skuldbindur Sorpa sig til að starfa ekki að þróunarsamstarfi um vinnslu á olíu úr plasti með öðrum aðilum í 18 mánuði frá undirritun og til að sjá PVD fyrir allt að 6 þúsund tonnum af plasti á því tímabili. Í viljayfirlýsingunni eru ákvæði sem gera Sorpu kleift að losna undan þeirri skuldbindingu sem í henni felast við tilteknar aðstæður en Sorpa tekur ekki á sig fjárhagslegar skuldbindingar með undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Samstarfið er á frumstigi og nú stendur yfir forhönnun verksmiðjunnar með tilliti til samsetningar og orkuinnihalds þess plasts sem kemur til Sorpu. Áætlað er að sú vinna taki að minnsta kosti sex mánuði og hluti af þeirri vinnu er að finna verksmiðjunni staðsetningu. Stefnt að því að vinnsla hefjist eftir 18 til 24 mánuði.