Ársskýrsla SORPU árið 2019 er komin á vefinn.
Í skýrslunni má meðal annars sjá að heimilin hentu minna magni af sorpi í sorptunnuna árið 2019 en árið 2018. Árið 2018 henti hver einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali 142 kílóum af sorpi á ári í sorptunnuna en sú tala lækkaði í 136 kíló árið 2019. Samdrátturinn nam því rúmum 4 prósentum á milli ára. Þá er þó ótalið það efni sem fer í endurvinnslutunnur við heimili, í grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar.
Íbúar Kópavogs og Seltjarnarness náðu bestum árangri í að draga úr úrgangsmagni milli ára og nam samdráttur í úrgangi frá heimilum þar 5,1 prósenti. Reykvíkingar henda samt sem áður ennþá minnstu magni af sorpi í sorptunnuna á mann, eða 131 kílói.
Í skýrslunni er einnig fjallað um starfsemi SORPU og má þar finna upplýsingar um rekstur og afkomu, grænt bókhald, ítarlegri magntölur úrgangs en eru raktar hér að ofan, umfjöllun um samfélagslega ábyrgð, orkuframleiðslu, efnamælingar og þau verkefni sem fyrirtækið hefur unnið að síðastliðið ár.