SORPA stendur árlega fyrir rannsókn og greiningu á úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 100 kg sýni eru tekin úr hverjum sorpbíl úr öllum sorphirðuhverfum á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er ánægjulegt að segja frá því að mjög hefur dregið úr magni pappa, pappírs og plasts sem berst til SORPU til urðunar í gegnum sorptunnur heimilanna. Á sama tíma hefur eldhúsúrgangur aukist lítillega en magn annarra úrgangsflokka í sorptunnunni lítið breyst“ segir Gyða S. Björnsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá SORPU.
Þegar litið er lengra aftur í tímann má sjá að frá árinu 2011 hefur dregið umtalsvert úr magni pappírs, pappa og plasts í sorptunnum íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Magn pappa og pappírs hefur minnkað úr 42 kg á hvern íbúa árið 2011 í 13,2 kg á hvern íbúa á árinu 2019. Plast í sorptunnum hefur á sama tíma minnkað úr 27,8 kg á hvern íbúa árið 2011 í 20,4 kg á síðasta ári. Heildarmagn úrgangs í sorptunnum hefur farið úr tæpum 175 kg í 137 kg, sem er verulegur árangur að sögn Gyðu.
Á árinu 2019 var eldhúsúrgangur 51,4% af öllu húsasorpi sem barst SORPU frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu, næst mest var af plasti (14,9%), í þriðja sæti var pappír og pappi (9,7%) og því fjórða bleyjur (6,7%). Greining á innihaldi sorptunnunnar sýnir að heimili á höfuðborgarsvæðinu hafa aukið mjög endurvinnslu og nýta allar mögulegar leiðir til þess. Þá hafa framleiðendur umbúða að einhverju leyti dregið úr bæði umfangi umbúða og jafnvel skipt um hráefni í umbúðum samhliða aukinni vitund íbúa. Miðað er við að ný gas- og jarðgerðarstöð SORPU, sem tekin verður í notkun á þessu ári, muni vinna allan úrgang frá heimilum. Þá mun allri urðun á heimilisúrgangi verða hætt en á árinu 2019 fóru 31.676 tonn á urðunarstaðinn í gegnum sorphirðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar forvinnsla úrgangs hefst vegna gas- og jarðgerðarstöðvar verður úrgangur úr sorptunnum flokkaður með hátæknivæddum flokkunarbúnaði sem aðskilur lífrænan úrgang frá öðrum tegundum úrgangs, s.s. plasti og málmum. Lífræna hlutanum verður síðan ekið í GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU í Álfsnesi. Aðferðin er ákaflega einföld fyrir íbúa þar sem ekki verður þörf á sérstakri tunnu fyrir lífrænan úrgang með tilheyrandi kostnaði við hirðu. Öflug forvinnsla heimilisúrgangs í móttöku- og flokkunarstöð tryggir að öll lífræn efni nýtast. Önnur efni, t.d. plast og málmar, eru aðskilin frá lífrænum efnum í ferlinu og fara til frekari flokkunar og vinnslu. Stefnt er að yfir 95% endurnýtingu á úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu þegar vinnslan verður að fullu komin í gagnið. Eftirvinnsla á jarðgerðarefninu í GAJA tryggir svo hreinleika jarðvegsbætisins.
Plast, fatnað, gler og pappír þarf þó að flokka sérstaklega til að tryggja hámarks nýtingu þeirra hráefna og stuðla að aukinni umhverfisvernd. Aukin áhersla verður einnig á flokkun spilliefna og lyfja og að þeim sé skilað í réttan farveg.
Árleg matarsóun um 75 kg á íbúa á höfuðborgarsvæðinu
Á árunum 2011 til 2019 hefur hlutfall eldhússúrgangs í sorptunnum heimilanna aukist úr rúmum 38% árið 2011 í rúm 50% árið 2019. Um 50% úrgangs í sorptunnum eru matarleifar eða um 67 kíló á hvern íbúa á ári og samsvarar það magn um 10% af 2000 Kcal áætluðum dagskammti hvers íbúa. Þetta er meðal þess sem lesa má úr rannsókn SORPU á húsasorpi á síðasta ári en slík rannsókn hefur verið gerð árlega undanfarin ár að sögn Bjarna Hjarðar, yfirverkfræðings hjá SORPU.
Nokkuð önnur mynd blasir við ef bætt er við matarleifum sem rekstraraðilar skila á endurvinnslustöðvarnar og í böggum til urðunar. Þegar sá úrgangur er tekinn með í reikninginn nálgast árleg matarsóun á hvern íbúa um 75 kg. Það er því ljóst að rekstraraðilar gegna lykilhlutverki ef draga á úr matarsóun.