Metan ehf., sem framleiðir metangas úr lífrænum úrgangi frá GAJU, gas- og jarðgerðastöð SORPU bs. og frá urðunarstað SORPU í Álfsnesi, hækkaði þann 1. júlí sl. heildsöluverð til olíufélaganna þriggja sem selja metangas. Verð á metani frá Metan ehf. hækkar um allt að 28% prósent.
Hækkuninni er ætlað til að tryggja sjálfbæran rekstur Metan ehf. og standa undir nauðsynlegum fjárfestingum í tækjabúnaði og innviðum til að framleiða metan.
Núverandi framleiðslugeta nær auk þess ekki að anna allri eftirspurn eftir metangasi og því þörf á að auka framleiðslu á þeirri grænu orku sem metangas úr lífrænum úrgangi er. Sú framleiðsluaukning krefst umtalsverðra fjárfestinga til að tryggja áframhaldandi framboð á grænni orku á Íslandi.
Metan ehf. er í eigu SORPU bs. og framleiðir á bilinu 80-90% af seldu metangasi á Íslandi.