Chat with us, powered by LiveChat
30. október 2021

Kaffið hjá Te & kaffi ristað með metani frá SORPU

Te & Kaffi stendur á merkilegum tímamótum og hefur fyrirtækið nú hafið fulla notkun á metangasi sem er umhverfisvænn orkugjafi unninn úr lífrænum úrgangi. Hingað til hefur Te & Kaffi líkt og flest önnur kaffifyrirtæki ristað sitt kaffi við própangas sem er jarðefnaeldsneyti. Metangasið er af allt öðrum toga og er 100% umhverfisvænn orkugjafi.

„Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel, ferlið er búið að vera langt og mikil fjárfesting í kringum það en við erum virkilega ánægð að vera loksins byrjuð að nota metan til þess að rista kaffið okkar,“ segir Stefan Ulrich, framleiðslustjóri kaffibrennslu Te & Kaffi.

Metangasið er fengið frá SORPU og er framleitt úr lífrænum úrgangi í GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, og safnað úr lífrænum úrgangi á urðunarstað SORPU. „Umbylting hagkerfisins úr línulegu hagkerfi í hringrásarhagkerfi er eitt mikilvægasta verkefni samtímans. Það á ekki síst við hjá SORPU, sem meðhöndlar úrgang frá öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins. Markmið SORPU er að lágmarka myndun úrgangs og koma þeim úrgangi sem myndast aftur inn í hringrásina. Gas úr lífrænum úrgangi er frábært dæmi um hringrásarhagkerfið að verki,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU.

Te & Kaffi er 37 ára gamalt rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem leggur mikinn metnað í gæði og sjálfbærni en þessi atriði eru höfð að leiðarljósi í allri stefnumótun fyrirtækisins. Mikið hefur verið unnið að umhverfisvænum breytingum undanfarið en stjórnendur fyrirtækisins hvergi nærri hættir að leita sífellt leiða til náttúrujákvæðra breytinga.

Til gamans má geta er allt kaffi frá Te & Kaffi nú í niðurbrjótanlegum umbúðum í stað plast eða samsettra umbúða og hvetjum við því fólk til þess að flokka það með lífrænu sorpi sé þess kostur en þannig lenda þær í hringrásarhagkerfinu þar sem metan er unnið úr þeim. Þá má því segja að kaffiumbúðirnar okkar knýja áfram kaffibrennsluna okkar.

Nýjustu fréttir