Chat with us, powered by LiveChat
12. apríl 2022

Íslenska Gámafélagið og Terra umhverfisþjónusta afhenda sérsafnaðan lífrænan úrgang í GAJU

Bæði Íslenska Gámafélagið og Terra umhverfisþjónusta afhenda nú sérsafnaðan lífrænan úrgang beint í GAJU. Þetta bætist við þann lífræna úrgang sem unninn er úr blönduðum úrgangi frá heimilum í móttöku- og flokkunarstöð SORPU. Með þessu er tekið skref í átt að bættri meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu og þar með í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Mikilvægir samfélagslegir innviðir

„Það er mikilvægt og jákvætt skref að stór fyrirtæki á sviði úrgangsmeðhöndlunar sýni SORPU og GAJU það traust að fela okkur að vinna lífræna úrganginn sem þau sækja til heimila og fyrirtækja. GAJA er hluti af mikilvægum samfélagslegum innviðum á sviði hringrásar og loftslagsmála og nauðsynlegt að fullnýta þá innviði til að hámarka árangur samfélagsins af þeim,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU. „Dyr GAJU standa eins og er opnar öllum þeim sem vilja koma sínum sérsafnaða, lífræna úrgangi í ábyrgan farveg. Hvar á landinu sem þau eru.“

„Það er okkur sönn ánægja að taka þátt í því að koma lífrænum úrgangi í hringrásar hagkerfið með því að nýta þá innviði sem búið er að byggja upp í GAJU,“ segir Valgeir Baldursson, forstjóri Terra. „Núverandi línulegt hagkerfi í löndum heimsins byggist á ósjálfbærri nýtingu auðlinda og miðast við að framleiða – kaupa – nota – henda – og kaupa nýtt. Það er orðið aðkallandi að endurhugsa allt efnahagskerfið og innleiða hringrásarhagkerfi sem miðast við að hámarka verðmætin og auðlindirnar, auka endurnotkun og endurvinnslu. Þetta kallar að við vinnum saman og samnýtum þá innviði sem byggðir eru upp. Með samstarfinu við Sorpu næst enn meiri árangur í endurnýtingu á lífrænum úrgangi en hingað til hefur verið hægt.  Þetta er stór þáttur í því mikilvæga verkefni sem við stöndum öll frammi fyrir er kemur að loftlagsmálum – skiljum ekkert eftir.“

Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, fagnar sömuleiðis því að þeir innviðir sem felast í GAJU nýtist sem best.

GAJA er eitt stærsta loftslagsverkefni síðari tíma

Í GAJU, sem er eitt stærsta loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu síðan heitt vatn var lagt í hús, er lífrænn úrgangur unninn. Við þá vinnslu er komið í veg fyrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Úr úrganginum er framleitt metangas sem nýtist meðal annars sem eldsneyti og molta. Vinnsla á metangasi er nú þegar í gangi en stefnt er á að fullvinnsla á moltu hefjist seinna á árinu.

Nýjustu fréttir