Chat with us, powered by LiveChat
2. apríl 2020

Hjólasöfnun Barnaheilla er hafin á endurvinnslustöðvum

Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi var formlega hleypt af stokkunum föstudaginn 27. mars í SORPU á Sævarhöfða. Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason afhenti fyrstu hjólin í söfnunina. Fulltrúi barna sem tók á móti fyrstu hjólunum var Elsa Margrét Þórðardóttir, 11 ára nemandi í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður þessar vikurnar og mánuðina telja samtökin mikilvægt að viðhalda þessu þarfa verkefni og hugsa fram á vorið þegar vonandi sem flest börn og ungmenni munu geta hjólað um á eigin hjólum.

Söfnunin stendur yfir til 1. maí og hefjast úthlutanir á hjólum upp úr miðjum apríl.

Hjólin verða gefin börnum og unglingum sem ekki hafa tök á því að kaupa sér reiðhjól. Hægt verður að sækja um hjól í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga.

Hjólasöfnunin hefur mjög breiða skírskotun í lýðheilsu- og samfélagslega þætti þar sem öllum börnum er gert kleift að geta hreyft sig utandyra, bæta úthald og líkamlegan styrk og njóta umhverfisins. Auk þess eflir verkefnið þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu og veitir þeim meiri vellíðan.

Hjólunum verður safnað á endurvinnslustöðvum SORPU á Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnarseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar munu gera hjólin upp undir styrkri stjórn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum áður en þau verða afhent.

Þetta er í níunda sinn sem hjólasöfnunin fer fram en hún er unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT, SORPU og ýmsa aðra velunnara. Rúmlega 2000 börn hafa notið góðs af hjólasöfnun Barnaheilla frá því henni var fyrst hrundið af stað árið 2012.

Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook-síðu söfnunarinnar og einnig er hægt að skrá sig þar til þátttöku í sjálfboðaliðastarf fyrir hjólaviðgerðir.

Nýjustu fréttir