12. október 2023

Greinaflokkur: Hvað verður um ruslið þitt?

Hér verður safnað saman greinum í greinaflokknum: Hvað verður um ruslið þitt?, sem verða birtir á Vísi næstu vikur og mánuði.

Hvað verður um ruslið þitt?

SORPA tekur á móti rúmlega 500 tonnum af rusli á dag. Árið 2022 voru þetta 188 þúsund tonn. Síðustu ár hefur orðið bylting til hins betra í viðhorfi til rusls. Markmiðið er ekki lengur að koma því fyrir kattarnef með eins ódýrum hætti og hægt er – það er: grafa það í jörðu – heldur grípa til lausna til að draga úr óþarfa neyslu og meðhöndla með sem bestum hætti það rusl sem við framleiðum öll. 

Enginn er eyland 

SORPA leikur lykilhlutverk í að færa okkur úr línulega hagkerfi hins einnota og óumhverfisvæna yfir í hringrásarhagkerfið. En SORPA gerir það ekki ein. SORPA þarf á samstarfi og sambandi við framleiðendur og almenning að halda; framleiðendur til að tryggja að vörur sem passa hringrásarhagkerfinu komi á markað, og almenning sem flokkar ruslið svo hægt sé að koma því í réttan farveg. 

Á móti þurfa framleiðendur og almenningur að geta treyst því að SORPA sinni sínu og komi því sem þau skila af sér í réttan farveg. Þarna þarf SORPA á samstarfi við endurvinnslufyrirtæki að halda sem geta hvort tveggja meðhöndlað það sem þau fá frá SORPU og miðlað skýrum og traustum upplýsingum um hvað verður um ruslið. 

Krafa um aukið gagnsæi

Þessar upplýsingar liggja að miklu leyti fyrir hjá endurvinnslufyrirtækjunum eða SORPU. Til að stuðla að auknu gagnsæi um hvað verður um ruslið eftir að það kemur til SORPU ætlum við hjá SORPU að birta stuttar greinar með helstu upplýsingum um hvað verður um helstu tegundir af rusli. Þetta eru til dæmis matarleifar, blandaður úrgangur, fernur, plast, pappír, nytjahlutir í Góða hirðinum, textíll, flöskur og dósir, gler, málmar og fleira.  Af þessum 188 þúsund tonnum af rusli sem SORPA tók við komu um 88 þúsund tonn beint frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu. Það eru rúm 240 tonn á hverjum degi. Í þessum greinum munum við beina sjónum að þessum 88 þúsund tonnum. 

Þær lausnir sem standa til boða til að meðhöndla rusl eru sjaldnast gallalausar, en við leggjum okkur fram um að velja skástu lausnirnar sem í boði eru hverju sinni. Þróunin á þessu sviði er mjög hröð, og við lærum í sífellu af bæði reynslu og mistökum okkar og annarra. Það sama má segja um stóran meirihluta þeirra sem starfa í þessum geira, það eru flestir í þessu af heilindum. Verkefnið er stórt og því fylgir mikil ábyrgð í þeim mikilvægu umhverfis- og loftslagsverkefnum sem fram undan eru: að færa samfélagið okkar yfir í hringrásarhagkerfi.

Þessi hluti greinaflokksins birtist á Vísi þann 12. október 2023.

---

Hvað eru endurnot, endurvinnsla og endurnýting?

Við sem vinnum alla daga við að meðhöndla rusl vitum að flækjustig þessa málaflokks er mun meira en maður hefði haldið við fyrstu sýn. Þetta er jú bara rusl, hversu flókið getur þetta verið? Á suman hátt allt of flókið. Ein birtingarmynd þessa flækjustigs er orðanotkunin í úrgangsþríhyrningnum svokallaða. Hann segir í einföldu máli fyrir um hvernig eigi að forgangsraða því hvernig rusl er meðhöndlað.

Úrgangsþríhyrningurinn

Úrgangsþríhyrningurinn

Fyrsta þrepið í úrgangsþríhyrningnum eru úrgangsforvarnir – eða það að sleppa því að skapa rusl – yfirleitt með því að draga úr innkaupum. SORPA er mikill aðdáandi úrgangsforvarna.

Nú verður þetta flókið því öll næstu þrep úrgangsþríhyrningsins byrja á endur-eitthvað. Endurnotkun, endurvinnsla og endurnýting. Þessi þrjú hugtök hafa ólíka merkingu. Byrjum á endurnotkun.

Endurnot

Endurnotkun er sem dæmi þegar Sigríður hættir að nota skóna sína og gefur Guðríði þá og Guðríður notar þá í staðinn fyrir að kaupa nýja skó, eða þegar þú kaupir þér stól í Góða hirðinum. Þarna haldast hlutir í hringrásinni og þjóna áfram þeim tilgangi sem þeim var í upphafi ætlað.

Um 3% – um 7 tonn – af þeim 240 tonnum sem koma frá heimilum til SORPU á hverjum degi fara í endurnot.

Endurvinnsla

Hugtakið endurvinnsla hefur til þessa verið samheiti fyrir allskonar sem er gert við rusl, annað en að urða það. Það er ekki gott, því endurvinnsla hefur ákveðna merkingu: Ef hlutur er þess eðlis að ekki er hægt eða ákjósanlegt að nota hann áfram í þeim tilgangi sem hann var framleiddur er stundum hægt að endurvinna hann. Áldósir undan drykkjum eru gott dæmi um þetta. Áldós sem er komið í endurvinnslu er brædd og álið úr henni notað aftur í einhverja aðra álvöru. Kannski bílhurð. Kannski nýja áldós.

Forsenda þess að SORPA geti komið hlutum í endurvinnslu er að þeir séu rétt flokkaðir við heimili. Við sjáum síðan um að koma þeim í réttan farveg þar sem þau eru unnin áfram í samræmi við þær kröfur sem við gerum til okkar samstarfsaðila.

Um 29% – um 70 tonn – af þeim 240 tonnum sem koma frá heimilum til SORPU á hverjum degi eru send í endurvinnslu. Það þýðir þó ekki endilega að allt sem er sent til endurvinnslu sé endurunnið. Ástæða þess er yfirleitt eðli þess efnis sem um ræðir, en við förum nánar í það síðar.

Endurnýting

Endurnýting á sér stað þegar ekki er hægt eða ákjósanlegt að endurnota eða endurvinna hlut. Gott dæmi um þetta er þegar blandað rusl, til dæmis bleyja eða ryksugupoki, er brennt til að framleiða orku. Að brenna það rusl sem er ekki hægt að endurnota eða endurvinna – annað hvort vegna þess að það var ekki framleitt með endurnotkun eða endurvinnslu í huga, eða þá að það endaði í rangri tunnu þrátt fyrir að vera endurvinnanlegt – telst vera endurnýting ef þú framleiðir orku úr því.

Um 39% – 93 tonn – af þeim 240 tonnum sem koma til SORPU á hverjum degi fara í endurnýtingu.

Förgun

Förgun á rusli felur í sér að því er komið fyrir kattarnef á gamla mátann og ekkert gert til að reyna að vinna úr því verðmæti. Dæmi um þetta er gamli urðunarhaugurinn í Gufunesi þar sem allskonar óþverri var losaður og bara mokað yfir eða þegar rusl er brennt á víðavangi án þess að vinna úr því orku. Urðunarstaður SORPU í Álfsnesi er þó skömminni skárri, þar sem úr honum er sótt metangas, en árangur af slíkri söfnun verður aldrei í líkingu við það að meðhöndla lífrænt efni eins og í GAJU.

Förgun er því það versta sem þú getur gert við rusl. Um 29% – 70 tonn – af þeim 240 tonnum sem koma frá heimilum til SORPU á hverjum degi er fargað. Þetta á hins vegar eftir að breytast verulega á næstu vikum og mánuðum þegar SORPA byrjar að flytja ruslið sem fer í tunnuna fyrir óflokkanlegt til brennslu. Þá hættum við að urða tugi þúsunda tonna af rusli á ári hverju og komum því í endurnýtingu, sem er skárri farvegur.

Nú þegar þessi hugtök eru komin á hreint getum við hent okkur á bólakaf í efnisflokkana. Í næstu viku verður fjallað um ruslflokk sem hefur verið mikið í deiglunni undanfarna mánuði: matarleifar.

Þessi hluti greinaflokksins birtist á Vísi þann 18. október 2023.

---

Hvað verður um matarleifarnar þínar?

Eitt það besta sem þú getur gert fyrir loftslagið er að flokka matarleifar. Fyrir skömmu hófst sérsöfnun á matarleifum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Í stað þess að urða matarleifar, sem veldur mikilli uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda, vinnum við þær í GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU. Gangsetning GAJU markaði tímamót í meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu, en þangað rata allar rétt flokkaðar matarleifar frá heimilum.

Engu minni tímamót urðu þegar flokkun á höfuðborgarsvæðinu var samræmd og byrjað að safna matarleifum sérstaklega. Nýja flokkunarkerfinu hefur verið ótrúlega vel tekið og bendir skoðun til að um 65 til 75% af þeim matarleifum sem áður fóru í tunnuna fyrir blandaðan úrgang fari nú í réttan farveg. Við vonuðumst til að ná svona 50% á fyrsta ári. Við höfum því öll staðið okkur skínandi vel í að gera þetta rétt. Hreinleiki matarleifanna er líka framar vonum. Það er mikilvægt svo moltan standist gæðakröfur, sem gæti verið teflt í tvísýnu ef aðskotahlutum eins og lífplastpokum eða öðru rusli er hent með matarleifunum.

Loftslagsstöðin GAJA

GAJA hefur allt frá gangsetningu í ágúst árið 2020 meðhöndlað lífrænan úrgang frá heimilum og fyrirtækjum. Nokkrir byrjunarörðugleikar voru við gangsetningu hennar, sérstaklega moltugerðarhlutans, en nú starfar GAJA af fullum krafti og fær loks sérsafnaðar matarleifar til meðhöndlunar, sem á að tryggja hreinleika annarrar tveggja hliðarafurða hennar: moltunnar.

Allar matarleifar sem safnað er á höfuðborgarsvæðinu verða því innan skamms endurunnar (sjá skilgreiningu á endurvinnslu í þessari grein). SORPA framleiðir metangas úr matarleifum, og árið 2022 framleiddi GAJA um 697.084 rúmmetra af metangasi sem nýtast í samgöngur og iðnað. Einn rúmmetri af metangasi er álíka orkuríkur og einn lítri af dísilolíu. Þegar gassöfnun á urðunarstaðnum er bætt við slagar metangasframleiðsla SORPU í um tvær milljónir rúmmetra, sem duga til að knýja um 2.000 fólksbíla í heilt ár. GAJA er því fyrst og fremst loftslagsverkefni.

Urðunarstaðurinn í Álfsnesi er einn stærsti losunarpóstur á höfuðborgarsvæðinu og losar um 100.000 tonn af koltvísýringi á hverju ári. Það jafngildir losun um 30.000 til 50.000 fólksbíla. Vá.

Metangas sem sleppur í andrúmsloftið er skaðvaldur

Þegar lífrænn úrgangur er urðaður myndast nefnilega ógrynni af metani, sem er þrjátíu sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Með því að hætta að urða lífrænan úrgang, og vinna hann við stýrðar aðstæður í GAJA, dregur SORPA úr losun um tugi þúsunda tonna af koltvísýringi á hverju ári. Fyrir hvert tonn af matarleifum sem eru unnar í GAJU sparast um 800 kíló í losun af koltvísýringi. Þegar GAJA verður fullmettuð af matarleifum má því gera ráð fyrir að hún komi í veg fyrir losun um 20.000 tonnum af gróðurshúsalofttegundum – og þá eru ótalin jákvæð áhrif af notkun metansins og moltunnar.

Matarleifar eru sá hluti ruslsins þíns sem við höfum besta yfirsýn yfir. Við fylgjum því eftir frá vöggu til grafar; allt frá því það lendir í gámi í móttöku- og flokkunarstöðinni okkar í Gufunesi, þangað til það er orðnar að metangasi og moltu. Með því að einu að flokka matarleifar tekur þú þátt í að búa til verðmæti og þú kemur í veg fyrir neikvæð áhrif á loftslag.

Ruslgrein næstu viku fjallar um blandaða úrganginn. Hann fer í tunnuna með svarta límmiðanum sem var einu sinni eina tunnan fyrir utan nánast öll heimili, en er nú aðeins ætluð fyrir rusl sem á sér engan annan farveg en að vera brennt til að framleiða orku.

Þessi hluti greinaflokksins birtist á Vísi þann 25. október 2023.

---

Hvað verður um blandaða ruslið þitt?

Það rusl sem ekki er hægt að endurnota, endurvinna flokkast oft sem blandað rusl. Þetta getur verið ýmis konar rusl: dömubindi, blautklútar, bleyjur, ryksugupokar, kattasandur, hundaskítur, tyggjó, og margt, margt fleira. Hann á heima í tunnunni með svarta miðanum sem á stendur „blandaður úrgangur.“ Tunnan fyrir blandað rusl er þannig illnauðsynlegur kostur í meðhöndlun á rusli. Í gamla daga, áður en við fórum að flokka, fór allt ruslið okkar þangað.

Þangað fer núna vandræðaúrgangur, og blandað rusl, sem hefur hingað til verið urðaður með tilheyrandi raski á landi og losun gróðurhúsalofttegunda. Þangað til nýlega fóru matarleifarnar þínar nefnilega í flokkinn blandað rusl. Vegna þessarar urðunar á lífrænu efni losar urðunarstaðurinn í Álfsnesi um 100.000 tonn af koltvísýringsígildum á hverju ári. Með sérsöfnun á matarleifum í GAJU og útflutningi á öðru blönduðu rusli til brennslu gerum við ráð fyrir að þessi losun verði á bilinu 10.000 til 20.000 tonn eftir 10 til 15 ár.

Ég gæti tekið daginn í að þylja upp hvað á að fara í flokkinn blandað rusl. Til að koma í veg fyrir að þetta verði leiðinlegasta grein sögunnar bendi ég þess í stað á leitargluggann á forsíðu www.sorpa.is, þar sem stendur „Hvað á að gera við...“ Þar getur þú slegið inn algengustu tegundir af því sem fólk þarf að losa sig við, og flokkunarvélin okkar segir þér hvernig þú átt að flokka það. Ef leitarorðið birtist ekki í fellilistanum máttu endilega ýta á enter, því þá fáum við tilkynningu um að einhver hafi leitað að þessu orði og munum gera okkar besta til að tengja það við réttan flokk.

Orkuvinnsla í stað urðunar

Urðun er sísta leiðin til að meðhöndla rusl. Hún fellur neðst í forgangsröðun úrgangsþríhyrningsins sem við fórum yfir í þessari grein. Það er því til mikils að vinna að urða eins lítið og mögulegt er og urða alls ekki rusl sem þarf ekki að urða. Asbest er dæmi um rusl sem er fátt hægt að gera við annað en að urða. Blandað rusl er dæmi um rusl sem þarf ekki að urða. Það á sér nefnilega skárri farveg.

Seinna á þessu ári ætlar SORPA að hætta að urða blandað rusl á urðunarstað SORPU í Álfsnesi, og flytja það þess í stað til útlands – fyrst um sinn til Svíþjóðar – þar sem það verður brennt í sorpbrennslustöð, og hitinn sem skapast við brunann notaður til að framleiða orku. Við gerum ráð fyrir að forða um 40.000 tonnum af rusli – sem er álíka þungt og 40.000 smábílar – frá urðun á hverju ári og koma í skárri farveg. Við þetta lyftist blandaða ruslið upp úr flokki förgunar yfir í flokk endurnýtingar, því brennsla á rusli til orkuvinnslu er skárri kostur en urðun.

Hvers vegna flytjum við rusl til útlands?

Í þessu samhengi er gjarnan velt upp spurningunni: „Hvers vegna að flytja þetta til útlands í orkuvinnslu frekar en að nýta það á Íslandi?“ Þessari spurningu höfum við velt svo mikið fyrir okkur að við höfum komið að gerð tveggja skýrslna um þetta mál, annars vegar þessari hér, og hins vegar þessari hér. Í stuttu máli má segja að ákveðin atriði flæki og hægi á uppbyggingu á sorpbrennslu á Íslandi. Það fyrsta er kostnaður. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu á sorpbrennslu sem gæti unnið orku úr öllu rusli á Íslandi sem á sér ekki skárri farveg er á bilinu 135 - 236 milljón evrur, sem jafngilti um 20-35 milljörðum króna þegar fyrri skýrslan var gefin út.

SORPA og eigendur hennar vildu auk þess koma blönduðu rusli úr urðun sem fyrst. Það tekur hins vegar nokkuð mörg ár að reisa eitt stykki sorpbrennslu, með tilheyrandi undirbúningi vegna staðarvals, deiliskipulags og annars sem tengist framkvæmdum. Útflutningur varð því fyrir valinu, í það minnsta í bili.

Þá erum við búin að afgreiða bæði matarleifar og blandað rusl, sem eru tveir langstærstu ruslflokkarnir sem koma frá heimilum til SORPU. Í næstu viku ætlum við að segja frá því hvað er gert við pappírinn þinn.

Þessi hluti greinaflokksins birtist á Vísi þann 1. nóvember 2023.

---

Hvað verður um pappírinn þinn?

Pappír hefur fylgt manninum í mörg hundruð ár. Elstu dæmi um endurvinnslu á pappír birtast á níundu öld, þegar Japanir eru sagðir hafa endurnýtt pappír fyrstir allra. Pappír, og pappi, eru því gott endurvinnsluefni og mikilvægt að flokka rétt og vel. Rétt flokkun er nefnilega forsenda þess að öll endurvinnslukeðjan sem á eftir kemur virki sem skildi.

SORPA tekur á móti 8.700 tonnum af pappír og pappa frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu í gegnum söfnunarkerfið við heimili, grenndarstöðvar og endurvinnslustöðvar. Öllum þessum tonnum er safnað saman í móttöku- og flokkunarstöð SORPU í Gufunesi, sem má eiginlega kalla hjarta starfsemi SORPU, og þau flutt með skipi til útlanda, þar sem þau eru sett í endurvinnslufarveg.

Það er nokkuð mismunandi nákvæmlega hvar pappírinn er á endanum endurunninn, því Stena Recycling, fyrirtækið sem tekur á móti pappírnum frá SORPU, endurvinnur hann ekki sjálft, heldur flokkar hann aðeins betur og kemur til fyrirtækja sem sérhæfa sig í pappírsendurvinnslu. Þessi fyrirtæki eru öll í Evrópu, til dæmis í Svíþjóð og Hollandi.

Hvernig er pappír endurunninn?

Endurvinnsluhlutfall pappírs er nokkuð hátt. Það er engin leið að segja hversu hátt endurvinnsluhlutfall nákvæmlega þess pappírs sem SORPA tekur á móti er, en meðaltöl pappírsendurvinnslufyrirtækjanna sem pappírinn endar hjá eru um 90 prósent. Restin sem ekki er hægt að endurvinna, er ýmist óendurvinnanlegur pappír, rusl sem var flokkað vitlaust eða annað efni sem af einhverjum ástæðum rataði í þennan farveg.

Pappírsendurvinnsla er í sjálfu sér ekki verulega flókin. Notaður pappír er settur í risavaxið kar þar sem trefjarnar í honum eru leystar upp í heitu vatni, sem er í einhverjum tilvikum blandað ýmsum efnum. Þessar trefjar eru svo notaðar til að framleiða til dæmis pappírsumbúðir og allskonar pappír eins og eldhús- og salernispappír. Þannig pappír er vel að merkja sjaldnast hægt að endurvinna aftur. Notaður eldhúspappír á því frekar heima í tunnunni fyrir matarleifar eða blönduðum úrgangi heldur en í tunnunni fyrir pappír.

Þessi um það bil 10 prósent af því sem fer í pappírsendurvinnslu og ekki er hægt að endurvinna er svo komið í endurnýtingarfarveg. Það þýðir að þessi 10 prósent eru ekki endurunnin heldur brennd til að framleiða orku, sem er skárri nýting á hráefni en að farga því með því að urða það, eins og við fjölluðum um í þessari grein.

Hvaða máli skiptir endurvinnsla á pappír?

Þegar öllu er á botninn hvolft: skiptir þessi flokkun og endurvinnsla á pappír einhverju máli? Væri ekki betra að brenna þetta allt saman og framleiða orku? Í stuttu máli: já, hún skiptir máli. Nei, það væri ekki betra. En hér er svarið í löngu máli.

Það má til dæmis horfa til losunar koltvísýrings við notkun á nýjum pappír samanborið við endurunninn pappír. Í lífsferilsgreiningu, þar sem hlutur er skoðaður frá eins mörgum ófjárhagslegum hliðum og hægt er, kemur til dæmis í ljós að brennsla á endurvinnsluefnum til orkuvinnslu, sem reyndar telur hvort tveggja pappír og plast – það síðarnefnda hafandi mjög stórt kolefnisspor – veldur losun á rúmlega einu kílói af koltvísýringi fyrir hvert kíló sem er brennt. Til samanburðar sparast 0,36 kíló af koltvísýringi fyrir hvert kíló af endurvinnsluefnum þegar þau eru endurunnin – aftur, bæði pappír og plasti – samanborið við að framleiða úr nýjum hráefnum. Stuttu útgáfuna af þessari greiningu má finna hér og löngu, löngu útgáfuna hér.

Í næstu viku tökum við svo fyrir annan, áhugaverðan ruslflokk: plast.

Þessi hluti greinaflokksins birtist á Vísi þann 10. nóvember 2023.

--

Hvað verður um plastið þitt?

Plast er algjört undraefni. Það framlengir líftíma matvæla og er nauðsynlegt í heilbrigðisþjónustu og ýmsum iðnaði. En plast á sínar skuggahliðar. Við notum allt of mikið af því og framleiðendur mættu leggja sig betur fram við að framleiða og setja á markað plast sem er auðveldara að endurvinna. Plast hverfur ekki eða eyðist við náttúrulegt niðurbrot, heldur brotnar það niður í smærri hluta og verður að endingu að örplasti. Margar gerðir plasts eru ágætis endurvinnsluefni og vel er hægt að hækka endurvinnsluhlutfallið með markvissri flokkun.

Almenningur og fyrirtæki flokka umbúðaplast í sérstakar tunnur við húsvegg og á grenndarstöðvum. Árlega sendir SORPA um tvö þúsund tonn af plasti til frekari flokkunar og endurvinnslu og endurnýtingu í Evrópu. Það plast sem ekki er hægt að endurvinna fer í brennslu til orkuframleiðslu. Eins og hvert mannsbarn veit eftir að hafa lesið þessa greinaröð okkar upp til agna þá er endurvinnsla betri meðhöndlun en orkuvinnsla, og orkuvinnsla er skárri meðhöndlun en urðun.

Plast er hins vegar ekki allt skapað jafnt. Sumt plast er betra en annað til endurvinnslu. Þumalputtareglan er að því einsleitari sem plaststraumur er, þeim mun auðveldara er að endurvinna plastið. Blöndun á mismunandi plasti leiðir því til lægra endurvinnsluhlutfalls og meira magn fer til orkuvinnslu. Og blöndun á plasti við önnur efni, til dæmis pappír eða málma, þýðir að endurvinnsluaðilar geta yfirleitt bara unnið einn efnisstraum. Því getur SORPA ekki breytt og því getur almenningur ekki breytt. En því geta vöruhönnuðir, framleiðendur, innflytjendur og markaðsaðilar breytt. Við köllum því eftir betra plasti á markað sem er auðveldara að endurvinna.

Fjórir flokkar af plasti á endurvinnslustöðvum

Til að auka endurvinnslumöguleika plasts er plast nú líka flokkað í fjóra flokka á endurvinnslustöðvum SORPU. Það er ástæða fyrir því, við sitjum ekki allan daginn og reynum að fá hugmyndir til að flækja líf fólks að óþörfu. Ekki allan daginn.

Flokkarnir eru: plastumbúðir (sama plast og má fara í tunnuna heima og á grenndarstöðvar), frauðplast, filmuplast og hart plast. Hver þessara plaststrauma þarf sértæka vinnslu hjá móttökuaðila. Með þessari flokkun er auðveldara fyrir móttökuaðila okkar að endurvinna plastið og hefur þessi fjórflokkun skilað sér í að umtalsvert meira af því plasti sem fólk hendir hjá SORPU er endurunnið, og minna er brennt til orkuvinnslu.

Frauðplast er í þessu samhengi sérstaklega áhugavert. Með frauðplasti meinum við plastið sem er til dæmis utan um raftækin sem þú kaupir, en ekki bakkinn undan fiskinum. Bakkinn má fara í tunnuna heima, en við viljum alls ekki fá frauðplastið utan af raftækjunum í hana. Ef frauðplast blandast öðru plasti – sem allir sem hafa snert frauðplast vita að það gerist um leið og það molnar – þá rýrir það endurvinnslumöguleika annars plasts. Ef það er hins vegar flokkað frá er hægt að endurvinna það með tiltölulega góðum árangri, jafnvel allt að 80-90%.

Þetta var plastið þitt. Í næstu viku ætlum við að segja þér hvað verður um það sem þú setur í nytjagáminn og er selt í Góða hirðinum.

Þessi hluti greinaflokksins birtist á Vísi þann 18. nóvember 2023.

Nýjustu fréttir