SORPA bs. hefur stigið stórt og framsýnt skref með vinnslu lífræns úrgangs í gas- og jarðgerðarstöðinni GAJU. Með því er stefnt í áttina að aukinni sjálfbærni og kolefnishlutleysi og gegnir GAJA mikilvægu hlutverki í að innleiða hringrásarhagkerfið á Íslandi. Með því að hætta að urða lífrænan úrgang frá höfuðborgarsvæðinu er komið í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur um 90 þúsund tonnum af koltvísýringi árlega. Það samsvarar tæplega 10 prósentum af markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Því er ljóst að GAJA og sú bætta úrgangsmeðhöndlun sem henni fylgir er eitt stærsta umhverfisverkefni höfuðborgarsvæðisins á 21. öldinni.
Með gerbreyttri og umhverfisvænni úrgangsstjórnun breytist einnig sá kostnaður sem felst í meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt lögum verður SORPA að innheimta raunkostnað af meðhöndlun úrgangs. Í því ljósi hafa gjaldskrár félagsins verið teknar til gagngerrar endurskoðunar. Stjórn SORPU samþykkti á fundi sínum í gær nýja gjaldskrá sem tekur gildi 1. janúar 2021. Gjaldskrárliðum er bæði breytt til hækkunar og lækkunar og er áætlað að tekjur SORPU aukist um sem nemur um það bil 25 prósentum til að mæta auknum kostnaði við bætta úrgangsmeðhöndlun.
Gert er ráð fyrir að útflutningur á brennanlegum úrgangi til orkuvinnslu hefjist við árslok 2021 og að urðun verði hætt í Álfsnesi árið 2023 eins og viðauki við eigendasamkomulag SORPU kveður á um.