Chat with us, powered by LiveChat
18. nóvember 2020

Góði hirðirinn sprettur upp við Hverfisgötu 94

Góði hirðirinn, nytjamarkaður SORPU, opnaði í vikunni verslun við Hverfisgötu 94 í miðborg Reykjavíkur til viðbótar við verslunina í Fellsmúla 28. Með versluninni eykur Góði hirðirinn þjónustu við íbúa og gesti í miðborginni. Í versluninni verður mikið úrval notaðra muna á borð við húsgögn, raftæki, bækur, vínylplötur, smávöru og margt fleira.

„Verslunin er um 300 fermetrar og vöruframboðið þverskurður af því sem hefur verið í boði hjá Góða hirðinum,“ segir Ruth Einarsdóttir, rekstrarstjóri Góða hirðisins. Hún segir eftirspurn eftir notaðri vöru hafa aukist mikið á undanförnum árum með aukinni umhverfisvitund. „Sérstaklega hjá ungu fólki en líka öðrum sem er umhugað um umhverfis- og loftslagsmál,“ segir Ruth.

Verslunin er uppspretta – pop-up verslun – sem sprettur upp á Hverfisgötu yfir jólin. Ef vel gengur er til skoðunar að verslunin verði áfram við Hverfisgötu 94.

400 bílastæði og mikill fjöldi strætóleiða

Verslunin er vel tengd almenningssamgöngum enda Hlemmur í allra næsta nágrenni og strætóbiðstöð beint á móti versluninni. Um 400 bílastæði eru auk þess í tveggja mínútna göngufæri við verslunina í tveimur bílahúsum. Annars vegar á Vitatorgi við Lindargötu og hins vegar Stjörnuporti við Laugaveg.

Þau sem ekki eiga heimagengt í verslanir Góða hirðisins við Fellsmúla 28 eða Hverfisgötu 94 eru ávallt velkomin í netverslun Góða hirðisins, www.godihirdirinn.is .

Með viðskiptum við Góða hirðinn styðja viðskiptavinir við hringrásarhagkerfið og koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr sóun. Allar vörurnar í Góða hirðinum eru í leit að framhaldslífi á nýju heimili eftir að fyrri eigendur skiluðu þeim til Góða hirðisins gegnum endurvinnslustöðvar SORPU. Í Góða hirðinum er því hægt að gera jólagjafakaupin í góðri sátt við umhverfið og loftslagið.

Sama dag, 19. nóvember, opnar verslun Góða hirðisins við Fellsmúla 28 að nýju, en hún hefur verið lokuð undanfarið vegna samkomutakmarkana.

Í báðum verslunum verður hámarksfjöldi viðskiptavina á hverjum tíma 10 manns til 1. desember. Allir viðskiptavinir verða að vera með grímu inni í verslunum Góða hirðisins.

Nýjustu fréttir