19. janúar 2023

Góði hirðirinn flytur - verslun við Hverfisgötu lokar

Stór og mikil tímamót eru framundan því í mars á þessu ári mun ný verslun Góða hirðisins opna að Köllunarklettsvegi 1 (húsnæði gömlu Kassagerðarinnar). Í nýju og stærra húsnæði mun verða meira rými sem skapar aukna möguleika á að finna notuðum hlutum nýtt heimili og þar með lengja líftíma þeirra í takt við tilgang og markmið hringrásarahagkerfisins.

Verslanir Góða hirðisins í Fellsmúla og á Hverfisgötu munu af þeim sökum loka og flytjast undir sama þak á Köllunarklettsvegi. Verslunin á Hverfisgötu mun loka 31. janúar næstkomandi og sama tíma mun netverslun Góða hirðisins draga sig í hlé vegna breytinga og flutninga. Viðskiptavinir hafa til 20. febrúar til að sækja vörur sem keyptar hafa verið í netverslun. Verslunin í Fellsmúla mun síðan loka þann 20. febrúar.

Sérstakir tilboðsdagar verða í öllum verslunum Góða hirðisins fyrir flutningana. Allur ágóði á tilboðsdögum á Hverfisgötu mun renna til góðgerðamála.

Markmið Góða hirðisins hefur frá upphafi verið að endurnota hluti til áframhaldandi lífs og draga þannig úr sóun. Þá hefur allur ágóði af sölu runnið til góðgerðarmála en frá árinu 1996 hefur um 270 milljónir króna verið veittar í styrk.

Nýjustu fréttir