Chat with us, powered by LiveChat
4. nóvember 2021

Gjaldskrár SORPU hvetja til minni sóunar, minni urðunar, meiri flokkunar og styðja við hringrásarhagkerfið

Uppfærð gjaldskrá SORPU tekur gildi 1. janúar 2022. Breytingarnar fela í sér aukinn hvata til heimila og fyrirtækja til að draga úr sóun, flokka betur, og styðja þannig við innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi.

SORPU er samkvæmt lögum skylt að innheimta raunkostnað við meðhöndlun hvers úrgangsflokks og því óheimilt annað en að láta raunkostnað við meðhöndlun birtast í gjaldskrám.

Vegna samdráttar í urðun í takt við samkomulag eigenda um að hætta að urða í Álfsnesi í lok árs 2023 hækkar einingaverð urðunar. Auk þess er gert ráð fyrir að útflutningur á brennanlegum úrgangi til orkuvinnslu hefjist í lok næsta árs. Brennsla á úrgangi til orkuvinnslu er loftslagslega ábyrgari kostur en urðun, en að sama skapi dýrari kostur.

Þá hefur komið í ljós á árinu sem er að líða að kostnaður við rekstur GAJU er meiri en áætlaður var og birtist sá kostnaður í nýrri gjaldskrá. Kostnaður SORPU vegna nýrra kjarasamninga hefur þar að auki áhrif til hækkunar á gjaldskrá. Alls aukast tekjur SORPU um 29% við gjaldskrárbreytingarnar til að mæta auknum kostnaði.

Til að draga úr kostnaði geta einstaklingar og sérstaklega fyrirtæki lagt aukna áherslu á flokkun endurvinnsluafurða frá öðrum og óendurvinnanlegum úrgangi. Móttökugjöld á flokkuðum endurvinnsluefnum eru að jafnaði lægri en móttökugjöld á óflokkuðum úrgangi.

Samræming og sérsöfnun í lykilhlutverki

Samtök sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu vinna nú að undirbúningi á samræmingu á sorphirðukerfum og flokkun á höfuðborgarsvæðinu. Í því kerfi er meðal annars gert ráð fyrir sérsöfnun á lífrænum úrgangi.

Þessar breytingar eru mikilvægar til að stuðla að betri meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu öllu. SORPA bindur jafnframt vonir við að þær leiði af sér lægri meðhöndlunarkostnað SORPU og samfélagsins alls af úrgangi, enda er ódýrara að meðhöndla flokkaðan og sérsafnaðan úrgang heldur en blandaðan.

Nýjustu fréttir