Gjaldskrár SORPU grundvallast á þeirri reglu að sá sem afhendir SORPU úrgang greiðir fyrir meðhöndlun hans. Óheimilt er að láta einn gjaldflokk niðurgreiða kostnað við meðhöndlun annars. SORPU ber því skylda samkvæmt lögum að breyta gjaldskrám í samræmi við raunkostnað við meðhöndlun úrgangs þegar sá kostnaður breytist. Heildartekjur SORPU aukast um 24% vegna breytinganna. Þetta kom fram á vef SORPU 23. okóber síðastliðinn. Gjaldskrárhækkanir munu ekki ná til endurvinnslustöðva sem þjónusta fyrst og fremst heimilin, nema þá að litlu leyti vegna vísitöluhækkana.
Miklar breytingar eiga sér nú stað á vinnsluferlum samlagsins með gangsetningu nýrrar vinnslulínu í móttöku- og flokkunarstöð í Gufunesi og gangsetningu hinnar nýju gas- og jarðgerðarstöðvar GAJA í Álfsnesi. Urðun í Álfsnesi dregst af þessum sökum saman á árinu 2021 og verður henni alveg hætt fyrir árslok 2023.
Hér er því um að ræða gríðarlegar breytingar á ráðstöfun úrgangs. Þessar breytingar á vinnsluferlum leiða óhjákvæmilega til hækkana á kostnaði við meðhöndlun úrgangsflokka. Þeir sem afhenda SORPU úrgang til meðhöndlunar geta dregið úr kostnaði sínum við það með betri flokkun. Varðandi hækkun á gjaldskrá vegna móttöku glers og steinefna þá skýrist hækkunin af hærri rekstrarkostnaði við urðunarstaðinn sem gjaldskrá verður að endurspegla.