Chat with us, powered by LiveChat
20. febrúar 2020

Gjaldfærni SORPU bs. ávallt tryggð

Miðað er við að endurskoðun á rekstri og fjármögnun SORPU bs. sem nú stendur yfir ljúki á næstu mánuðum. SORPA hefur verið í miklum fjárfestingum undanfarið og fyrir liggur að ganga þarf frá heildarfjármögnun fyrirtækisins til að standa undir þeim. Helgi Þór Ingason verkfræðingur sem ráðinn hefur verið tímabundið í starf framkvæmdastjóra SORPU mun leiða þá vinnu.

SORPA bs. er byggðasamlag sem felur í sér að sveitarfélögin sex sem að henni standa bera ábyrgð á rekstrinum. Gjaldfærni fyrirtækisins er því alltaf tryggð þó að til þess geti komið að sveitarfélögin sem að því standa þurfi að leggja fram frekari fjármuni til rekstursins.

Mikilvægi starfsemi SORPU bs. hefur aukist í takti við vaxandi kröfur um úrbætur í umhverfismálum á undanförnum árum. Á sama tíma hefur sorpmóttaka dregist saman á samlagssvæðinu, sem er vissulega jákvætt en kemur þó niður á tekjustraumum til SORPU bs.  Lögum samkvæmt ber að hætta urðun lífræns úrgangs eigi síðar en 2025 en það hefur m.a. leitt til þess að ráðast hefur þurft í kostnaðarsamar framkvæmdir á vegum SORPU bs. þ.m.t. byggingu svokallaðrar gas- og jarðgerðarstöðvar. Fjármögnun þessara verkefna er nú í heildarskoðun og er miðað við að tillögur þar að lútandi liggi fyrir á næstu mánuðum.

Að gefnu tilefni, vegna fréttaflutnings af fyrirhugaðri lántöku fyrirtækisins, skal áréttað að sú aðgerð er liður í að skapa nauðsynlegt ráðrúm til að fara yfir heildarfjármögnun framkvæmda og rekstrar SORPU bs. til lengri tíma. Um er að  ræða eðlilega fjármögnunaraðgerð á byggingartíma mannvirkja.

Nýjustu fréttir