Fyrsta tilraunamoltan er komin í gegnum vinnsluferlið í GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU í Álfsnesi og lofar hún góðu. Um 102 tonn af tilraunamoltu hafa verið unnin í stöðinni í tveimur lotum, 53 tonn 49 tonn. Efnamælingar á tilraunamoltunni gefa til kynna að efnasamsetning hennar sé í samræmi við starfsleyfiskröfur GAJU.
Efnið sem varð að tilraunamoltunni var tekið til meðhöndlunar á síðasta ári meðan enn var verið að stilla nýjan búnað í Móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi, sem forvinnur lífefnið sem er meðhöndlaður í GAJU og flokkar frá öðrum úrgangi.
Tilraunamoltan var sigtuð með tiltölulega grófum búnaði og er verið að bæta við öflugri sigtunarbúnaði sem skilar enn hreinni moltu en þeirri sem framleidd var í fyrstu lotunum. Með því er brugðist við plast- og glerögnum í tilraunamoltunni sem ekki hefur náðst að sigta frá að fullu.
Mikilvægi flokkunar og sérsöfnunar
„Það er jákvætt að sjá tilraunamoltuna koma út úr ferlinu svona lausa við þungmálma. Það er ekki einfalt að keyra upp verksmiðju sem þessa. Niðurstöður efnamælinga gefa til kynna að vinnsluferli GAJU virki sem skyldi. Hreinna hráefni inn Móttöku- og flokkunarstöð SORPU og þaðan í GAJU væri til mikilla bóta. Sérsöfnun á lífrænum úrgangi við húsvegg íbúa á höfuðborgarsvæðinu er í augum stjórnenda SORPU nauðsynlegt skref til að auka gæði moltunnar. GAJA er eitt metnaðarfyllsta loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu frá því að heitt vatn var lagt í hús. Samhliða bættri meðhöndlun úrgangs mun gangsetning hennar skila samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um tugi þúsunda tonna af koltvísýringsígildi á hverju ári,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU.
Tilraunamoltan sýnir enn fremur fram á mikilvægi góðrar og réttrar flokkunar. Gler á aldrei að fara í sorptunnuna heldur á í öllum tilvikum að skila gleri í grenndargáma eða á endurvinnslustöðvar til að koma í veg fyrir að það berist í moltuna. Plast á að flokka frá öðrum úrgangi nema í algjörum undantekningartilvikum, eins og þegar það er mjög óhreint. Þá er betra að þrífa það og flokka á heimilinu eða skila beint á endurvinnslustöðvar eða í grenndargáma.
Í fyrstu lotu moltunnar var magn E.coligerla meira en heimilt er í einni af fimm mælingum sýnatökunnar og því verður þeirri tilraunamoltu fargað á urðunarstað. E-coli fannst hins vegar nánast ekki í annarri lotu.
Niðurstöður efnagreiningar moltunnar eru sem hér segir. Taflan sýnir:
Samkvæmt starfsleyfi GAJU, sem miðast við kröfur í reglugerð 674/2017, má fjöldi E.coli-gerla ekki fara yfir 1.000 í hverju sýnanna fimm fyrir sig. Undantekning frá þessu er að hlutfall E.coli má fara yfir 1.000 í einu af fimm sýnum, en það sýni má ekki fara yfir 5.000.
Lota úr moltu 2 stenst því kröfur starfsleyfis þar sem fjöldi gerla í öllum fimm sýnum er 20.
Lota 1 stenst ekki kröfur starfsleyfis því eitt sýni fer yfir 5.000.