Alls 5580 manns fengu fræðslu og kynningu hjá SORPU á árinu 2025
SORPA býður upp á almenna fræðslu og kynningu og á síðasta ári var metfjöldi í heimsóknum til okkar. Almenningur, grunnskólanemendur, háskólanemar, fyrirtæki og félög komu í heimskókn eða fengu heimsókn frá SORPU. Fræðslan gengur út á kynningu og spjall um starfsemina, tækifæri og áskoranir með hringrásarhagkerfið; hvað við getum gert, hvernig við getum dregið úr neyslu og skapað ný tækifæri með þá hugsun að úrgangur sé mikilvæg og dýrmæt auðlind.
1370 manns komu í heimsókn í Kassann í Góða hirðinum í upplifun og fræðslu
Í Góða hirðinum er að finna nýtt og spennandi viðburðarými þar sem haldnir eru tónleikar, fyrirlestrar, vinnustofur og fleira í anda hringrásarhagkerfis. Þetta rými nýtur mikilla vinsælda og aðsókn eykst ár frá ári. Góði hirðirinn hélt sitt árlega jólauppboð og styrkveitingu í Kassanum í desember þar sem samtals 7 milljónir króna voru gefnar til góðgerðar- og líknarmála. Með þessu bættust við þær rúmar 14 milljónir sem Góði hirðirinn hefur þegar úthlutað á árinu.
750 háskólanemar fengu fræðslu og kynningu hjá SORPU
Aukinn áhugi er hjá háskólanemum um starfsemi SORPU og um ný tækifæri er varðar hringrásarhagkerfið. SORPA er í virku samstarfi við tækni- og sprotafyrirtæki, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands og tekur virkan þátt í Sjálfbærnidegi HR sem haldinn er hvert haust. Fjölmörg skóla- og rannsóknarverkefni hafa rýnt í og rannsakað hringrásarhagkerfið og þá er gjarnan leitað til SORPU með fræðslu, gögn og upplýsingar.
Við erum alltaf stolt og glöð að fá forvitið fólk í heimókn. Velkomin og gleðilegt nýtt ár!