Fólk í sóttkví má ekki koma inn á endurvinnslustöðvar SORPU. Að gefnu tilefni þarf því miður að vekja athygli á þessu. Starfsfólk endurvinnslustöðva hefur ítrekað orðið vart við að fólk í sóttkví komi inn á stöðvarnar.
„Þetta veldur okkur miklum vonbrigðum,“ segir Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva SORPU. „Gestir okkar og starfsfólk eiga sama rétt og annað fólk á vernd gegn veirunni og því er óskiljanlegt að fólk haldi að það megi koma á endurvinnslustöðvar þegar það er í sóttkví.“
Heimsókn á endurvinnslustöð samræmist ekki reglum um sóttkví og skiptir þar engu hver ástæða sóttkvíarinnar er. Slík heimsókn er brot á sóttkví og útsetur gesti og starfsfólk endurvinnslustöðvanna fyrir smitum. Fólki er bent á að kynna sér reglur um sóttkví á slóðinni https://www.covid.is/flokkar/sottkvi
Verði fólk uppvíst að því að koma á endurvinnslustöðvar SORPU meðan það er í sóttkví verður því umsvifalaust vísað burt og það tilkynnt til lögreglu ef það hlýðir ekki fyrirmælum starfsfólks.
Enn búist við töfum og röðum
Fólk sem ekki er í sóttkví og vill skila endurvinnsluefnum til SORPU er minnt á að helgarnar verða álagspunktar á endurvinnslustöðvunum meðan hertar samkomutakmarkanir eru í gildi.
„Við minnum viðskiptavini okkar á að þeir geta lagt sitt af mörkum til að heimsókn á endurvinnslustöð gangi hratt og vel fyrir sig við þessar krefjandi aðstæður,“ segir Guðmundur Tryggvi.
„Við hvetjum fólk til að koma til okkar á virkum dögum yfir miðjan daginn, vera ekki fleiri saman í bíl en nauðsyn krefur og vera búið að flokka öll endurvinnsluefni áður en lagt er af stað á endurvinnslustöðina. Ef fólk fer eftir þessum ábendingum gengur heimsókn á endurvinnslustöð hraðar og betur fyrir alla.“