Chat with us, powered by LiveChat
25. mars 2020

Fjórðungi minna magn úrgangs til SORPU fyrstu tvo mánuði ársins

Heildarmagn úrgangs sem barst til SORPU fyrstu tvo mánuði ársins dróst saman um 27% miðað við sama tímabil í fyrra. Ástandið í þjóðfélaginu endurspeglast að einhverju leyti í ruslinu okkar og samdráttur í magni úrgangs er vísbending um að hægt hafi á hjólum atvinnulífsins. Áhrifin af verkfalli starfsfólks sorphirðunnar í Reykjavík voru augljós og birtust í minna magni blandaðs úrgangs, pappírsefna og plasts í móttökustöðinni í Gufunesi.

Á meðan á verkfallinu stóð nýttu íbúar sér grenndargáma fyrir úrgang í auknum mæli en um 19% meira magn barst í þá af flokkuðum pappír, plasti og gleri, enda voru pappírs- og plasttunnur ekki losaðar hjá íbúum í Reykjavík á meðan á verkfallinu stóð. Það náði þó ekki að vega nema að litlu leyti á móti samdrætti í úrgangsmagni því í heildina dróst magnið sem barst í móttökustöðina í Gufunesi saman um 17% milli ára.

Magn úrgangs sem barst á endurvinnslustöðvar SORPU, sem eru sex talsins, stóð nokkurn veginn í stað miðað við sama tímabil í fyrra. Ekki var því að sjá að íbúar færu með úrgang sinn í neinum mæli á endurvinnslustöðvarnar þegar ruslatunnur yfirfylltust. Upplifun starfsmanna var þó að aukin umferð hafi verið um stöðvarnar á meðan á verkfallinu stóð.

Íbúar endurnýja síður húsbúnað

Svo virðist sem íbúar hafi dregið úr endurnýjun húsbúnaðar að undanförnu þar sem 25% minna magn barst í nytjagáma Góða hirðisins á fyrstu tveimur mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þar spilar þó einnig inn í að starfsfólk Góða hirðisins fylgist betur með gámunum en áður og sérstök áhersla hefur verið lögð á að draga úr þeirri sóun sem fylgir flutningum á óseljanlegum vörum frá endurvinnslustöðvum í Góða hirðinn.

Það verður áhugavert að rýna í magntölur marsmánaðar og sjá hver áhrifin verða af aðgerðum vegna Covid-19 veirunnar og hvort sorphirða í Reykjavík, sem nú er hafin aftur eftir verkfall, vegi eitthvað upp á móti þeim áhrifum.

Þróun í úrgangsmagni í janúar og febrúar miðað við sama tímabil 2019.

Nýjustu fréttir