Fimmtudaginn 1. júlí kveðjum við svarta ruslapokann og tökum á móti glæra pokanum á endurvinnslustöðvum SORPU.
Til að stuðla að meiri endurvinnslu og styðja við hringrásarhagkerfið eiga viðskiptavinir SORPU að koma með allan úrgang og endurvinnsluefni í glærum pokum á endurvinnslustöðvar. Það þýðir að engum úrgangi má skila í ógagnsæjum pokum á endurvinnslustöðvar SORPU.
„Staðreyndin er því miður sú að meira en helmingurinn af öllu því sem viðskiptavinir okkar skila í gáminn fyrir blandaðan úrgang á sér endurvinnslufarvegi. Efnið sem fer í gáminn fer hins vegar beint í urðun. Glæru pokunum er ætlað að auðvelda starfsfólki endurvinnslustöðvanna að hjálpa viðskiptavinum okkar að skila endurvinnsluefnunum í réttan farveg,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU. Dæmi um þessi efni eru pappír, plast, textíll og raftæki.
Urðun er þar að auki bæði óumhverfisvænni og dýrari en endurvinnsla fyrir samfélagið í heild. Þetta eru þannig skref í átt að innleiðingu hringrásarhagkerfisins, sem hægt er að kynna sér hér.
Glæra poka er hægt að kaupa í flestum verslunum í dag og verða þeir komnir aftur í sölu á endurvinnslustöðvum á næstu dögum.