9. janúar 2024

Bréfpokar undir matarleifar munu fást frítt á endurvinnslustöðvum SORPU og í Góða hirðinum

Sérsöfnun á matarleifum hófst á síðasta ári á suðvesturhorni Íslands sem liður í aukinni flokkun við heimili. Bréfpokum undir matarleifar var dreift frítt til íbúa samhliða nýju kerfi og í helstu matvöruverslunum á síðasta ári og kann SORPA þeim verslunum sem tóku þátt í verkefninu miklar þakkir.

Ljóst er að dreifingin hafi gengið vel og íbúar höfuðborgarsvæðisins sótt um 24 milljónir poka frá því verkefnið hófst. Það magn af bréfpokum ætti að duga heimilunum í eitt og hálft ár.

Frá og með 10. janúar mun SORPA því hætta dreifingu bréfpoka í verslunum en áfram munu íbúar þó geta sótt bréfpoka endurgjaldslaust á endurvinnslustöðvum SORPU og í verslun Góða hirðisins. Samhliða því verður gjaldfrjálsri dreifingu bréfpoka í verslunum hætt.


Árangur samræmdrar flokkunar er mikill og hreinleiki matarleifanna sem íbúar skila um 98%. Enn er þó töluvert af matarleifum eftir í tunnunni fyrir blandað rusl og því til mikils að vinna að ná sem mestum matarleifum úr blönduðu tunnunni á nýju ári.

Nýjustu fréttir