Samkomutakmarkanir vegna þriðju bylgju Covid-19 faraldursins tóku gildi á miðnætti. Takmarkanirnar hafa áhrif á starfsemi SORPU. Ljóst er að hluti þeirra aðgerða sem SORPA grípur til hafa áhrif á viðskiptavini og eru þeir beðnir um að sýna ástandinu skilning.
Starfsfólk SORPU brýnir fyrir viðskiptavinum sínum að fara eftir leiðbeiningum um einstaklingsbundnar smitvarnir .
SORPA hefur meðal annars gripið til eftirfarandi aðgerða:
Endurvinnslustöðvar SORPU starfa eftir takmörkunum vegna 20 manna reglunnar. Fólk í sóttkví má ekki, hvorki nú né áður, heimsækja Endurvinnslustöðvar SORPU. Mikilvægt er að viðskiptavinir virði tveggja metra regluna. Þetta er sérstaklega mikilvægt við flösku- og dósamóttökurnar.
Í móttöku- og flokkunarstöð SORPU í Gufunesi hefur starfsfólki verið skipt upp til að tryggja fjarlægðarmörk og virða samkomutakmarkanir. Þá mega viðskiptavinir ekki nota salernisaðstöðu í móttöku- og flokkunarstöðinni og brýnt er fyrir viðskiptavinum að virða tveggja metra fjarlægðarmörk.
Á starfsstöðvum SORPU í Álfsnesi hefur starfsmönnum einnig verið skipt upp og samgangur milli þeirra er enginn nema utandyra. Ávallt er krafist tveggja metra fjarlægðar milli manna. Krefjist nauðsyn þess að menn hittist innandyra er grímuskylda. Lokað er fyrir móttöku gesta í Álfsnesi. Viðskiptavinir fá aðeins að fara um svæðið í beinum tengslum við losun úrgangs og er óheimilt að fara inn í húsnæði SORPU í Álfsnesi. Verktakar sem hugsanlega þurfa að koma á svæðið vegna viðhalds og viðgerða þurfa leyfi staðarstjóra eða verkstjóra. Kröfur um persónuleg þrif handþvott og sótthreinun eru og hafa verið strangar.
Mælst er til þess að þau sem eiga erindi við skrifstofu SORPU á Gylfaflöt 5 sinni þeim með rafrænum hætti. Sé það ekki hægt skulu gestir á skrifstofu SORPU spritta hendur við komu á skrifstofu SORPU og virða tveggja metra reglu. Gestum verða jafnframt boðnar grímur.