Undanfarið hefur umræða skapast um verðlagningu í Góða hirðinum. SORPA og Góði hirðirinn fagna allri umræðu um endurnot og mikilvægi þess að nothæfum hlutum sé komið aftur inn í hringrásina með sem bestum hætti. Verkefni Góða hirðisins er fyrst og fremst að vinna að þessu markmiði.
Verslanir Góða hirðisins eru því ekki reknar í hagnaðarskyni heldur til að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins með því að hámarka endurnot og draga úr sóun. Verði afgangur af þeim tekjum sem Góði hirðirinn aflar á hverju ári er sá afgangur látinn renna til góðgerða.
Tekjur Góða hirðisins voru í fyrra um 350 milljónir króna. Kostnaður af rekstri verslananna var hins vegar um um 340 milljónir króna. Tæplega 10 milljónir króna voru gefnar til góðgerða á síðasta ári.
Frá árinu 1999 hefur Góði hirðirinn veitt um 267 milljónum til ýmissa góðgerðarmála. Góði hirðirinn er með tæplega 40 manns í vinnu í um 30 stöðugildum og er launakostnaður því langstærsti kostnaðarliður Góða hirðisins.
Í ár hefur Góði hirðirinn selt vörur til endurnota fyrir um 270 milljónir króna en kostnaður af rekstrinum er um 286 milljónir króna. Ástæða þessa er samdráttur í sölu fyrstu þrjá mánuði ársins, þar sem aftakaveður í byrjun árs dró verulega úr heimsóknum viðskiptavina í Góða hirðinn auk þess sem mikil veikindi starfsmanna – aðallega vegna Covid – gerðu það að verkum að stytta þurfti opnunartíma verslana Góða hirðisins verulega.
Sala í verslunum Góða hirðisins hefur hins vegar aukist verulega undanfarna mánuði og stefnt að því að ná jafnvægi í rekstri verslananna fyrir lok árs.
Það sem af er þessu ári hafa rúmlega 1.000 tonn af vöru borist frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu til Góða hirðisins gegnum söfnunargáma á endurvinnslustöðvum SORPU.
Af því má sjá að í ár kostar það Góða hirðinn ríflega 280.000 krónur að koma einu tonni af nytjavöru aftur inn í hringrásina. Þessi kostnaður leggst hins vegar ekki á alla þá vöru sem berst Góða hirðinum, því aðeins um 60-70% af því sem berst í Góða hirðinn selst. Þetta hlutfall hefur farið hratt hækkandi frá því það náði lágmarki í um 25% fyrir nokkrum árum. Stefnt er að því að hækka þetta hlutfall enn meira.
Hluti af því sem berst í gámunum er ónýtt og ekki fást kaupendur að öðru. Kostnaðurinn deilist því á 650 tonn en ekki 1.000. Því sem ekki selst er því miður fargað með tilheyrandi kostnaði.
Meðalverð allra hluta sem seldir eru í verslun Góða hirðisins í Fellsmúla eru um 470 krónur og hefur það verð hækkað um rúm 17% frá því í fyrra til að mæta hækkandi kostnaði.
Eins og fram hefur komið mun Góði hirðirinn flytja í nýtt og mun stærra og hentugra húsnæði í gömlu Kassagerðinni við Köllunarklettsveg 1 snemma á næsta ári. Við þá breytingu stækka bæði verslun og lager verslunarinnar til muna. Það þýðir að hægt verður að gefa vörum lengri tíma í hillum til að seljast, geyma vöru sem berst á óhentugum tíma – jólaskraut berst til dæmis aðallega í janúar – og þannig koma hærra hlutfalli af vöru aftur inn í hringrásina.
Með þessu er stefnt að því að auka stuðning við innleiðingu hringrásarhagkerfisins, gefa meiri peninga til góðgerða og draga eins og hægt er úr kostnaði Góða hirðisins við hverja selda vöru þannig að hægt verði að halda verði í verslunum Góða hirðisins eins lágu og kostur er.