Chat with us, powered by LiveChat

Persónuverndaryfirlýsing SORPU

Með persónuverndaryfirlýsingu þessari er greint frá því hvernig SORPA bs., kt. 510588-1189, Köllunarklettsvegi 1, 104 Reykjavík, sem ábyrgðaraðili (hér eftir „SORPA“, „byggðasamlagið“ eða „við“) stendur að vinnslu persónuupplýsinga um viðskiptavini og aðra einstaklinga í tengslum við starfsemi byggðasamlagsins.

Öflug persónuvernd er SORPU kappsmál og leggur byggðasamlagið mikla áherslu á að virða réttindi einstaklinga og að öll meðferð persónuupplýsinga sé ávallt í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd, sem nú eru lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (hér eftir „persónuverndarlög“).

Hjá SORPU starfar persónuverndarfulltrúi sem hægt er að leita til með fyrirspurnir, ábendingar eða athugasemdir með því að senda póst á netfangið personuvernd@sorpa.is eða hringja í síma 520-2200.

1. Hvaða upplýsingum söfnum við og um hverja?

Hjá SORPU er unnið með persónuupplýsingar í tengslum við rekstur og þjónustu byggðasamlagsins. Yfirlýsing þessi gildir um vinnslu sem SORPA hefur með höndum um viðskiptavini, forsvarsmenn og starfsfólk viðskiptavina ef um lögaðila er að ræða, aðra sem hafa samband við byggðasamlagið eða heimsækja starfsstöðvar eða nota vefsvæði SORPU (vefsíðu Góða hirðisins, vefsíðu SORPU og þjónustuvef), verktaka, birgja og samstarfsaðila (einnig vísað til sem „þú“).

Um vinnslu á persónuupplýsingum starfsumsækjenda og starfsmanna SORPU er fjallað um í sérstökum persónuverndaryfirlýsingum.

Söfnun og vinnsla persónuupplýsinga er forsenda þess að SORPA geti veitt þér eða fyrirtækjum, sem þú starfar hjá eða ert í forsvari fyrir, þá þjónustu sem óskað hefur verið eftir. Ólíkum persónuupplýsingum kann að vera samband eftir eðli viðskiptasambandsins.

SORPA vinnur, eins og við á hverju sinni, einkum eftirfarandi persónuupplýsingar um einstaklinga í viðskiptum við byggðasamlagið:

  • Auðkennis- og samskiptaupplýsingar: Nafn, kennitala, heimilisfang, póstnúmer, símanúmer, netfang, rafræn skilríki og aðrar grunnupplýsingar.
  • Samskiptasaga: Upplýsingar úr samskiptum sem þú velur að eiga við SORPU, hvort sem þau fara fram bréflega, rafrænt, s.s. með tölvupósti eða í gegnum netspjall, vefsíðu, samfélagsmiðlasíður SORPU, með símtali, munnlega eða á annan hátt.
  • Upplýsingar vegna viðskiptasambandsins og samningsupplýsingar: Upplýsingar um viðskipti og samskipti við byggðasamlagið og aðrar upplýsingar sem leiða af samningssambandi þínu við byggðasamlagið um einstaka vörur eða þjónustu.
  • Greiðslu- og kortaupplýsingar: Upplýsingar sem þörf er á svo unnt sé að afhenda þá vöru eða þá þjónustu sem þjónustan eða viðskiptasambandið nær til, s.s. um færslur, greiðslukortanúmer og greiðslustaðfestingar.
  • Upplýsingar vegna stofnunar reiknings- og lánaviðskipta og lánshæfismats: Upplýsingar sem sendar eru SORPU við stofnun reikningsviðskipta eða með umsókn um viðskiptakort, s.s. nafn umsækjanda, símanúmer, netfang, bílnúmer eða annað auðkenni og upplýsingar um lánshæfi sem fengnar eru frá lánshæfismatsfyrirtækjum. Eftir atvikum er einnig unnið með upplýsingar um fyrirtæki, vinnustað eða vinnuveitanda umsækjanda, t.d. þegar sótt er um viðskiptakort sem tengist reikningi lögaðila.
  • Upplýsingar sem safnast við notkun viðskiptakorts: Notkun á viðskiptakorti og notkunarsaga, þ.m.t. dagsetning og tímasetning notkunar auk upplýsinga um losun úrgangs, úrgangsflokk og magn/þyngd.
  • Upplýsingar vegna útgáfu og innheimtu reikninga: Afrit af útgefnum reikningum sem innihalda upplýsingar um magn og tegund þjónustu, dagsetningu og upphæðir. Einnig upplýsingar sem tengjast innheimtuaðgerðum ef upp koma vanskil.
  • Upplýsingar um viðskipti í gengum vefverslun Góða hirðisins: Afrit af vörupöntun sem inniheldur upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer, netfang, greiðsluupplýsingar og afhendingarmáta. Við vistun upplýsinga er greiðslukortanúmeri þínu skipt út fyrir svokallað sýndarnúmer (e. Token) en engin greiðslukortanúmer vistast í vefverslun Góða hirðisins.
  • Upplýsingar sem safnast í tengslum við styrkumsóknir: Afrit af styrkumsókn sem inniheldur upplýsingar um nafn, kennitölu, símanúmer og netfang sem og aðrar upplýsingar sem sendar eru SORPU í slíkri umsókn. Vinnsla þessi fer fram á grundvelli beiðni einstaklings um að gera samning um styrkveitingu við byggðasamlagið. Upplýsingar eru geymdar eins lengi og nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslu.
  • Upplýsingar í tengslum við skrásetningu viðskipta, hvort heldur kaup eða sölu, og færslu bókhalds.
  • Upplýsingar sem safnast við beina markaðssetningu: Nafn, netfang og eftir atvikum símanúmer.
  • Tæknilegar upplýsingar og afleiddar upplýsingar: Upplýsingar um búnað og tæki sem notuð eru til þess að tengjast vefsvæðum SORPU, s.s. IP-tölu, tegund snjalltækis, vefkökur og hvaða aðgerðir þú framkvæmir á vefsvæðunum. Ef við á staðsetningarupplýsingar í tengslum við notkun á vefsíðum SORPU á grundvelli samþykkis.
  • Upplýsingar sem safnast við rafræna vöktun: Hljóð- og myndbandsupptökur sem safnast við rafræna vöktun með eftirlitsmyndavélum eða hljóðupptöku símtala.
  • Upplýsingar sem safnast við bílnúmeravöktun: Á endurvinnslustöðvum skrá myndavélar inn- og útakstur bifreiða ásamt bílnúmeri. Þá kann SORPA að afla frekari upplýsinga úr ökutækjaskrá, s.s. tegund, flokkun og burðargetu bifreiðar, hvort eigandi/umráðamaður sé einstaklingur eða lögaðili, sem og póstnúmer aðseturs í þágu greiningar á samsetningu gesta og mats á dreifingu viðskiptavina.
  • Upplýsingar úr opinberum skrám, frá korta- og greiðslumiðlunarþjónustum og frá fjárhagsupplýsingastofum (Creditinfo): Upplýsingar úr opinberum skrám, s.s. þjóðskrá, ökutækjaskrá og hlutafélagaskrá. Framangreind upptalning er ekki tæmandi en SORPA getur unnið aðrar upplýsingar um þig sem eru nauðsynlegar hverju sinni eftir eðli viðskiptasambandsins eða samskipta þinna við SORPU, s.s. frá korta- og greiðslumiðlunarþjónustum og fjárhagsupplýsingastofum (Creditinfo).

SORPA vinnur, eins og við á hverju sinni, einkum eftirfarandi persónuupplýsingar um einstaklinga sem veita byggðasamlaginu þjónustu eða koma fram fyrir hönd lögaðila sem SORPA á í samningssambandi við:

  • Auðkennis- og samskiptaupplýsingar: Nafn, kennitala, starfstitill, vinnustaður, vinnusími og vinnunetfang.
  • Samskiptasaga: Upplýsingar um samskipti við byggðasamlagið hvort sem þau fara fram bréflega, rafrænt, s.s. tölvupósti eða í gegnum netspjall, vefsíðu, samfélagsmiðlasíður SORPU, með símtali, munnlega eða á annan hátt.
  • Upplýsingar vegna viðskiptasambandsins og samningsupplýsingar: Upplýsingar um þá þjónustu sem veitt er og samskipti við SORPU og aðrar upplýsingar sem leiða af samningssambandi þínu við byggðasamlagið um einstaka þjónustu, s.s. lýsingu verkefna, tímaskráningu (ef við á), verkbeiðnir og samningar.
  • Reiknings- og greiðsluupplýsingar: Upplýsingar sem koma fram á reikningum sem sendir eru byggðasamlaginu, þar á meðal um þá þjónustu sem veitt er, dagsetningu, fjárhæð og reikningsnúmer
  • Upplýsingar sem safnast við rafræna vöktun: Hljóð- og myndbandsupptökur sem safnast við rafræna vöktun með eftirlitsmyndavélum eða hljóðupptöku símtala.

Þá styðst vefsvæði SORPU við vefkökur, sem eru litlar textaskrár sem komið er fyrir í tölvu eða snjalltæki notanda, sem safna persónuupplýsingum sem nauðsynlegar eru fyrir virkni vefsvæðis byggðasamlagsins og markaðssetningu. Nánari upplýsingar um vefkökur má finna á vefsíðu SORPU í sérstökum vefkökuborða þar sem hægt er að leyfa eða hafna vefkökum.

2. Í hvaða tilgangi vinnum við persónuupplýsingar um þig?

Öll vinnsla SORPU á persónuupplýsingum fer fram í skýrum, yfirlýstum og málefnalegum tilgangi. SORPA vinnur aðallega með persónuupplýsingar þínar í þeim tilgangi að:

  • Uppfylla lagaskyldu sem hvílir á byggðasamlaginu eða starfsfólki þess hverju sinni.
  • Eiga samskipti við þig, svara fyrirspurnum eða bregðast við ábendingum eða kvörtunum.
  • Koma á og viðhalda samningssambandi við verktaka, birgja og aðra samstarfsaðila.
  • Hafa samband við þig, auðkenna þig, stofna og viðhalda viðskiptasambandi og heimila reikningsviðskipti, og framkvæma efni samnings milli þín og byggðasamlagsins og veita þá vöru og þjónustu sem boðið er upp á í starfseminni.
  • Stofna viðskiptareikning eða vegna umsóknar um reikningsviðskipti, þ.m.t. staðfesta lánshæfi þitt, viðhalda áhættu- og fjárstýringu, innheimta og vakta kröfur í vanskilum í tilefni vanskila.
  • Veita aðgang að vörum og þjónustu í samræmi við ákvæði viðskiptasamninga.
  • Veita þér betri yfirsýn yfir viðskipti þín við SORPU.
  • Tryggja öryggis- og eignavörslu og vernda viðskiptavini, starfsfólk og aðra sem eiga erindi við byggðasamlagið, stuðla að og rannsaka, upplýsa eða koma í veg fyrir lögbrot og aðra refsiverða og/eða ámælisverða háttsemi.
  • Stuðla að net- og upplýsingaöryggi með því að greina, rannsaka og koma í veg fyrir hvers kyns misferli, fjársvik eða netógnir.
  • Þróa vöru og þjónustuframboð byggðasamlagsins, bæta virkni vöru eða þjónustu, í þágu gæða- og umbótastarfs.
  • Reka vefsvæði og bæta upplifun þína af þeim.
  • Stunda markaðs- og kynningarstarf m.a. með því að veita persónubundna þjónustu, senda þér upplýsingar um tilkynningar og markaðsefni með tölvupósti eða SMS.
  • Meðhöndla uppljóstranir eða ábendingar um ámælisverða háttsemi eða lögbrot, þar á meðal tryggja rétta málsmeðferð, skrá samskipti og vernda uppljóstrara í samræmi við lög nr. 40/2022 um vernd uppljóstrara.
  • Meðhöndla upplýsingar um eigendur og stjórnendur fyrirtækja sem sækjast eftir opinberum samningum í útboðum SORPU á grundvelli laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.
  • Skrásetja viðskipti, hvort heldur kaup eða sölu, og færa bókhald í samræmi við ákvæði laga nr. 145/1994 um bókhald.
  • Skrásetja mál sem eru til meðferðar hjá SORPU og meðferð þeirra í samræmi við ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 og laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014.
  • Varðveita skjöl og gögn í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

3. Hvaðan fær SORPA persónuupplýsingar um þig?

Persónuupplýsingar sem SORPA vinnur eru oftast fengnar beint frá þér, t.d. þegar þú:

  • Hefur samband við byggðasamlagið, t.d. með bréfpósti, tölvupósti, í gegnum vefsíðu eða öðrum samskiptaleiðum.
  • Heimsækir skrifstofur okkar.
  • Pantar vörur eða nýtir þjónustu hjá okkur.
  • Stofnar til reikningsviðskipta eða sækir um viðskiptakort.
  • Notar viðskiptakort á starfsstöðvum okkar.

Jafnframt lætur þú af hendi persónuupplýsingar með óbeinum hætti, s.s. þegar þú:

  • Notar viðskiptakort á starfsstöðvum okkar.
  • Gengur inn á svæði sem vöktuð eru með öryggismyndavélum.
  • Notar vefsíður eða þjónustuvef SORPU þar sem vefkökur eru notaðar og aðgerðarskráning fer fram.

Í öðrum tilfellum kunna persónuupplýsingar þínar að berast okkur frá þriðja aðila, s.s. lögaðila sem er í viðskiptum við byggðasamlagið, samstarfs- og vinnsluaðilum, fjárhagsupplýsingastofum eins og Creditinfo eða opinberum aðilum, s.s. Þjóðskrá Ísland og Samgöngustofu þegar fyrrnefndir aðilar hafa heimild til miðlunar slíkra upplýsinga. Áður en persónuupplýsinga er aflað frá þriðja aðila leitast byggðasamlagið eftir að upplýsa þig um slíkt.

Neitir þú að afhenda SORPU persónuupplýsingar eða andmælir vinnslu þeirra getur það haft áhrif á það hvernig byggðasamlagið veitir þér þjónustu.

4. Hvaða heimild höfum við til að vinna með persónuupplýsingar þínar?

Söfnun og vinnsla persónuupplýsinga þinna fer fram þar sem hún er nauðsynleg til að gera eða efna samning milli þín og SORPU eða fullnægja lagaskyldu í samræmi við 2. og 3. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Í ákveðnum tilvikum óskar SORPA eftir upplýstu samþykki þínu fyrir vinnslu persónuupplýsinga í samræmi við kröfur persónuverndarlaga. Í þeim tilvikum getur þú hvenær sem er dregið veitt samþykki til baka og er þá þeirri vinnslu sem samþykkið nær til hætt. Afturköllun samþykkis hefur þó ekki áhrif á vinnslu persónuupplýsinga fram að afturkölluninni.

Í ákveðnum tilvikum er unnið með persónuupplýsingar vegna þess að SORPA, þú sjálfur eða þriðji aðili hefur lögmæta hagsmuni af því að upplýsingar séu unnar. Slík vinnsla fer einungis fram ef hagsmunir SORPU og/eða þriðja aðila af því að vinnslan fari fram vegi þyngra en einkalífshagsmunir þínir að undangengnu sérstöku hagsmunamati þar um. Eftirfarandi vinnsluaðgerðir fara fram á grundvelli lögmætra hagsmuna:

  • Vinnsla til að einfalda þjónustu og stuðla að betri upplýsingagjöf til notenda.
  • Staðfesting á lánshæfi í tengslum stofnun reikningsviðskipta og uppfletting í vanskilaskrá.
  • Vinnsla í þágu innheimtu vanskilakrafna, þ.m.t. vöktun vanskilaskrár.
  • Vinnsla í þágu þróunar og prófunar á nýjum vörum og þjónustuleiðum, þjónustu- og tölfræðigreiningar og gæðaeftirlits.
  • Vinnsla í þágu net- og upplýsingaöryggis.
  • Vinnsla til að tryggja öryggis- og eignavörslu byggðasamlagsins og, m.a. með öryggismyndavélum og varðveislu annars konar rafrænna samskipta.
  • Varðveisla efnis sem verður til við rafræna vöktun t.d. ef nauðsynlegt er að varðveita efni til að afmarka, setja fram eða verjast lagalegum kröfum fyrir dómi eða annars staðar.
  • Bílnúmeravöktun og uppfletting í ökutækjaskrá til að greina dreifingu viðskiptavina á endurvinnslustöðvum og aðlaga þjónustu og gjaldskrá í kjölfarið.
  • Vinnsla í þágu markaðs- og kynningarstarfs byggðasamlagsins þ.m.t. markhópagreining og í þágu beinnar markaðssetningar sem m.a. felst í rafrænni upplýsingagjöf til þín um þjónustu og opnunartíma starfstöðva.

Almennt vinnur SORPA ekki með viðkvæmar persónuupplýsingar um þá einstaklinga sem þessi persónuverndaryfirlýsing nær til en það er ekki útilokað t.d. ef upplýsingar um slys verða til í tengslum við rafræna vöktun með öryggismyndavélum. Ef SORPA vinnur viðkvæmar persónuupplýsingar í samræmi við framangreint byggir vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga ávallt á skýrri heimild í 11. gr. persónuverndarlaga t.d. afdráttarlausu samþykki, lagaheimild eða vegna laganauðsynja.

5. Með hverjum deilum við persónuupplýsingum þínum og af hverju?

Persónuupplýsingar um þig geta verið afhentar til þriðju aðila ef slíkt skylt samkvæmt lögum, s.s. til stjórnvalda, löggæslu- og skattyfirvalda eða dómstóla. Á grundvelli lagaskyldu er SORPU t.a.m. skylt að skila skjölum og gögnum til Þjóðskjalasafns Íslands á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

Að auki kann SORPA að veita þriðju aðilum aðgang að persónuupplýsingum þegar það er nauðsynlegt vegna rekstrar og þjónustu. Þetta á við um aðila sem veita upplýsingatækniþjónustu, annast hýsingu kerfa eða veita aðra þjónustu sem tengist vinnslu persónuupplýsinga og er hluti af starfsemi SORPU. Dæmi um slíka aðila eru fjárhagsupplýsingastofur (s.s. Creditinfo), innheimtuaðilar og greiðslumiðlunarfyrirtæki. Í vissum tilvikum geta slíkir aðilar talist vera vinnsluaðilar og gerir SORPA þá vinnslusamning við viðkomandi aðila, þar sem trúnaður og öryggi þeirra persónuupplýsinga sem unnið er með er tryggt, í samræmi við kröfur persónuverndarlaga.

Fjárhagsupplýsingastofur geta fengið aðgang að upplýsingum þegar framkvæma þarf lánshæfismat í tengslum við reikningsviðskipti eða ef skráning í vanskilaskrá verður nauðsynleg vegna vangoldinna krafna. Ef til innheimtu kemur vegna krafna SORPU getur byggðasamlagið einnig þurft að miðla persónuupplýsingum til samstarfsaðila sem aðstoða SORPU við innheimtu Ennfremur kann SORPA að miðla persónuupplýsingum þínum til greiðslumiðlunarfyrirtækja, svo sem banka eða kortafyrirtækja, til að hægt sé að ljúka greiðslu fyrir umsamda vöru eða þjónustu — meðal annars í tengslum við samningssamband þitt við SORPU, eða ef þú ert tengiliður fyrir fyrirtæki sem hefur slíkt samband.

Framangreindir þriðju aðilar kunna að vera staðsettir utan Íslands. SORPA miðlar þó ekki persónuupplýsingum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema slíkt sé í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga, s.s. á grundvelli staðlaðra samningsskilmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eða auglýsingar Persónuverndar um ríki sem veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd.

Með notkun á samfélagsmiðlasíðum SORPU, s.s. Facebook, safnast tölfræðiupplýsingar um heimsóknir á síðuna sem byggðasamlagið vinnur ásamt viðkomandi samfélagsmiðlaþjónustu. Í tengslum við þá vinnslu koma aðilar fram sem svokallaðir sameiginlegir ábyrgðaraðilar. Við hvetjum þig því til að kynna þér vel persónuverndaryfirlýsingar þeirra.

6. Hver eru réttindi þín samkvæmt persónuverndarlögum?

Persónuverndarlög veita öllum einstaklingum þ.m.t. viðskiptavinum, og öðrum sem SORPA kann að vinna persónuupplýsingar um, ákveðin réttindi. Þú átt almennt rétt á að:

  • fá staðfestingu á því hvort við vinnum persónuupplýsingar um þig og ef svo er fá aðgang og afrit af persónuupplýsingum þínum, standi hagsmunir annarra því ekki í vegi, s.s. vegna réttinda annarra sem skulu vega þyngra. Þá áttu jafnframt rétt á ákveðnum lágmarksupplýsingum um tilhögun vinnslu sem m.a. eru veittar í yfirlýsingu þessari.
  • persónuupplýsingar þínar fluttar til annars ábyrgðaraðila ef þú hefur afhent SORPU persónuupplýsingar á rafrænu formi og slíkur flutningur er tæknilega mögulegur. Einungis er um að ræða persónuupplýsingar sem afhentar hafa verið á grundvelli samþykkis þíns eða vegna framkvæmdar samnings og eru unnar með sjálfvirkum hætti.
  • óska eftir því að rangar eða tilteknar persónuupplýsingar um þig verði leiðréttar ef þær eru rangar eða óáreiðanlegar, eftir því sem lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn heimila. Þú getur einnig hvenær sem er uppfært grunnupplýsingar um þig á þjónustuvef SORPU. [ESM1] þess að rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar um þig sæti leiðréttingu.
  • óska eftir að persónuupplýsingum um þig sé eytt í afmörkuðum tilvikum ef skilyrði persónuverndarlaga um eyðingu eiga við, eftir því sem lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn heimila.
  • andmæla vinnslu persónuupplýsinga sem byggir á lögmætum hagsmunum SORPU eða fer fram í þágu beinnar markaðssetningar.
  • fara fram á að vinnsla persónuupplýsinga þinna sé takmörkuð tímabundið vegna sérstakra aðstæðna hjá þér.
  • sæta ekki sjálfvirkri ákvarðanatöku nema hún fari fram samkvæmt skilyrðum persónuverndarlaga og þegar hún fer fram átt þú rétt á mannlegri íhlutun og útskýringu á því hvernig sjálfvirk ákvarðanataka er fengin, sbr. nánari umfjöllun í kafla 9.
  • afturkalla samþykki þitt um að SORPA megi safna, skrá, vinna eða geyma persónuupplýsingar þínar, þegar vinnsla byggist á þeirri heimild.
  • leggja fram kvörtun hjá eftirlitsyfirvaldi sjáir þú ástæðu til þess.

Réttindi þín eru ekki fortakslaus og lög eða reglugerðir kunna að heimila eða skylda SORPU til að hafna beiðni þinni um að nýta þér umrædd réttindi. Réttur þinn til að andmæla vinnslu persónuupplýsinga þinna vegna beinnar markaðssetningar er þó ávallt fortakslaus.

Þú hefur einnig rétt á að leita til persónuverndarfulltrúa byggðasamlagsins og/eða leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd teljir þú SORPU ekki vinna persónuupplýsingar þínar í samræmi við persónuverndarlög. Netfang persónuverndarfulltrúa er personuvernd@sorpa.is. Upplýsingar um Persónuvernd má finna á heimasíðu stofnunarinnar, www.personuvernd.is.

7. Hversu lengi geymum við persónuupplýsingar um þig?

SORPA varðveitir aðeins persónuupplýsingar eins lengi og þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar, í samræmi við ákvæði laga og varðveislustefnu byggðasamlagsins. Almennt eru persónuupplýsingar varðveittar á meðan á viðskiptasambandi stendur, eins lengi og lög kveða á um eða lögmætir hagsmunir félagsins krefjast og málefnaleg ástæða gefur tilefni til. Sem dæmi er persónuupplýsingum sem verða til við rafræna vöktun sjálfvirkt eytt að 30 dögum liðnum, nema lög kveði á um annað eða laganauðsyn krefji s.s. til að geta stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur, einkum í dómsmáli.

SORPA hefur afhendingarskyldu á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og eftir atvikum annarra lagaákvæða sem gilda um vistun gagna byggðasamlagsins. Það þýðir að SORPU er óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali sem fellur undir gildissvið laganna, nema með lagaheimild eða sérstakri heimild þjóðskjalavarðar. Almennt er gögnum og skjölum skilað til Þjóðskjalasafns að 30 árum liðnum frá tilurð þeirra.

8. Öryggi persónuupplýsinga þinna

SORPA leggur ríka áherslu á að tryggja öryggi persónuupplýsinga og hefur innleitt skipulagslegar og tæknilegar öryggisráðstöfunum í þeim tilgangi. Dæmi um slíkar ráðstafanir eru aðgangsstýringar og aðgerðaskráning í upplýsingakerfum og hugbúnaði, notkun eldveggja, örugg innskráning svo dæmi séu tekin auk þess sem starfsfólk fær reglulega þjálfun og fræðslu um persónuvernd og upplýsingaöryggi. Þessum ráðstöfunum er ætlað að koma í veg fyrir mannleg mistök, þjófnað og svik og vernda öll gögn gegn óleyfilegum aðgangi, glötun, eyðileggingu, breytingum fyrir slysni og ólögmætri notkun.

SORPA leggur áherslu á að takmarka skuli aðgang að persónuupplýsingum við þá starfsmenn sem nauðsynlega þurfa slíkan aðgang starfa sinna vegna. Starfsfólk SORPU er jafnframt skylt til að gæta trúnaðar og tryggja öryggi persónuupplýsinga á meðan og eftir að það lætur af störfum fyrir SORPU.

SORPA hefur skjalfest verklag til að tryggja lögmæta meðferð og öryggi persónuupplýsinga þ.m.t. um skilvirk viðbrögð við öryggisbrestum eða öryggisatvikum sem og tilkynningarskyldu. Í slíkum tilvikum er Persónuvernd, viðeigandi eftirlitsstofnunum og eftir atvikum einstaklingum tilkynnt um öryggisbrest í samræmi við persónuverndarlög.

9. Sjálfvirk ákvarðanataka

Ef til þess kemur að SORPA útbúi persónusnið um þig s.s. til að meta eða spá fyrir um ákveðna þætti er varða hagi þína, hegðun eða þjónustunotkun mun byggðasamlagið ávallt tryggja að slík vinnsla fari fram samkvæmt ákvæðum persónuverndarlaga. Sjálfvirk ákvarðanataka og gerð persónusniðs sem hefur mikil áhrif á hagsmuni þína fer einungis fram á grundvelli viðeigandi heimilda þ.m.t samþykkis.

10. Markpóstar

SORPA kann að senda út tilkynningar með fréttum af starfseminni á viðskiptavini eða tengiliði viðskiptavina og aðra þá sem sérstaklega hafa skráð sig á tölvupóstlista byggðasamlagsins. Vinnsla tölvupóstfanga í þeim tilgangi er byggð á lögmætum hagsmunum SORPU af markaðssetningu og því að tryggja viðskiptavinum fyrirmyndar þjónustu.

Ef þú óskar ekki eftir því að vera á tölvupóstlista SORPU getur þú ávallt afskráð þig með því að smella afskráningarhlekk sem fylgir sérhverjum tölvupósti. Þá minnir SORPA jafnframt tengiliði tölvupósta reglulega á rétt þeirra til afskráningar af tölvupóstlistanum.

11. Rafræn vöktun með öryggismyndavélum

Rafræn vöktun fer fram með öryggismyndavélum á starfsstöðvum SORPU og við önnur mannvirki byggðasamlagsins, s.s. við endurvinnslustöðvar, móttöku- og flokkunarstöðvar, urðunarstaði, grenndarstöðvar og húsnæði Góða hirðisins. Vöktunin fer fram á grundvelli lögmætra hagsmuna SORPU í þágu öryggis- og eignavörslu. Þá eru persónuupplýsingar sem safnast við rafræna vöktun einungis notaðar í þágu yfirlýsts tilgangs með söfnun þeirra og ekki afhentar öðrum en löggæsluyfirvöldum vegna lögreglurannsóknar eða öðrum aðilum á grundvelli skýrrar heimildar, t.d. vátryggingafélögum vegna tjónamála.

Rafræn vöktun samkvæmt framangreindu fer fram á grundvelli lögmætra hagsmuna byggðasamlagsins í þeim tilgangi að tryggja öryggi og eignavörslu. Efni sem safnast við rafræna vöktun er ekki varðveitt lengur en reglur Persónuverndar heimila, eða í 30 daga, nema skýr heimild sé til staðar fyrir lengri varðveislu.

Strangar aðgangstakmarkanir gilda um aðgang að efni sem safnast við rafræna vöktun öryggismyndavéla og það er eingöngu skoðað ef laganauðsyn er til staðar t.d. í tilefni af ágreiningi, slysi, innbroti, ef uppi er grunur um refsiverða háttsemi eða í þágu innra eftirlits.

Persónuupplýsingar sem verða til við notkun öryggismyndavéla verða einungis notaðar ef upp koma atvik er varða eignavörslu eða öryggi einstaklinga, s.s. þjófnaður, skemmdaverk eða slys. Þær má ekki afrita eða afhenda öðrum aðila, nema á grundvelli lagaheimildar, samþykki skráðra aðila eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar hverju sinni. Persónugreinanlegar myndupptökur eru því almennt ekki afhentar öðrum en lögreglu og þá ef um slys eða meintan refsiverðan verknað er að ræða. Þá kann myndupptökum jafnframt að vera miðlað í þeim tilgangi að SORPA geti stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur. Í þeim tilvikum sem unnið er með myndupptökur í þeim tilgangi er, eins og nauðsyn krefur, heimilt að veita stjórnendum, lögmönnum og tryggingarfélagi SORPU og gagnaðila, auk dómstóla, aðgang að myndefninu.

Á endurvinnslustöðvum SORPU skrá myndavélar inn- og útakstur bifreiða og bílnúmer ökutækja með sérstökum bílnúmeragreini í þágu greiningar á samsetningu gesta og mats á dreifingu viðskiptavina. Í framhaldi eru upplýsingar um skráð ökutæki sóttar úr ökutækjaskrá, s.s. tegund, flokkun og burðargetu ökutækis, hvort eigandi/umráðamaður sé einstaklingur eða lögaðili, sem og póstnúmer aðseturs. Upplýsingar um ökutæki eru varðveittar í að hámarki 7 daga á persónugreinanlegu formi, en að þeim tíma liðnum er þeim umbreytt í ópersónugreinanleg tölfræðigögn. Framangreind vinnsla fer fram á grundvelli lögmætra hagsmuna SORPU í þeim tilgangi að betrumbæta og þróa þjónustu SORPU.

Nánari upplýsingar um notkun öryggismyndavéla, framkvæmd rafrænnar vöktunar, meðferð myndefnis og réttindi einstaklinga er hægt að nálgast í sértækri fræðslu sem aðgengileg er á vefsíðu SORPU.

12. Endurskoðun og uppfærslur

SORPA áskilur sér rétt til að endurskoða persónuverndaryfirlýsingu þessa reglulega og uppfæra eftir þörfum. Ef um efnislega uppfærslu er að ræða mun þér verða tilkynnt um slíkt áður en uppfærð yfirlýsing tekur gildi. Minni háttar breytingar s.s. orðalagsbreytingar taka gildi við birtingu á vefsvæði SORPU.

Yfirlýsing þessi var síðast uppfærð þann 6. maí 2025.