Á hverjum degi tekur Sorpa á móti sjö tonnum af fatnaði og öðrum textíl og 5.5 tonnum af raftækjum. Það eru ótrúlega margar buxur, peysur og bolir sem eru ekki lengur í tísku eða raftæki sem teljast ekki lengur nýjasta nýtt.
Aðeins um 10% af þessum fatnaði kemst í endurnotkun hér á landi, restin er send úr landi til endurnotkunar eða í endurvinnslu og endar stór hluti í brennslu til orkuendurnýtingar. Það er einfaldlega vegna þess að mikið af þessum fatnaði er ekki nógu góður til að endurvinna eða nota aftur.
Heimsmarkaðurinn fyrir notuð föt hefur breyst mikið þar sem eftirspurn hefur dregist saman og gæði fatnaðar hafa versnað. Þessa breytingu má rekja að stórum hluta til uppgangs hraðtískunnar sem hefur í för með sér aukin fatakaup.
Besta leiðin er að nýta það sem við eigum, því þegar við kaupum minna, hendum við minna!