Molta, molta, molta!

Við leitum að bændum, sem hafa áhuga á að prufa moltu.

Moltan væri afhent við GAJU, Álfsnesi á næstu mánuðum og misserum.

Samstafsaðili þarf að geyma moltuna hjá sér og snúa öðru hvoru til að fá aukna þroskun.

Moltan ætti svo að vera tilbúin til notkunar eftir nokkra mánuði.

Innihaldslýsingu moltunni frá GAJU má sjá hér

Takk fyrir að flokka matarleifar!

Um GAJU

Nafnið GAJ​A þýðir samkvæmt grískri goðafræði „móðir alls lífs“ en nafnið er líka stytting á nafninu GAs- og JArðgerðarstöð. Í stöðinni fer fram endurvinnsla á matarleifum sem hafa safnast frá heimilum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk stöðvarinnar er að breyta matarleifunum í metangas og moltu og koma um leið í veg fyrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.  

Gróðurhúsalofttegundir

Það má því með sanni segja að GAJA sé eitt stærsta loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu síðan heitt vatn var lagt í hús og við hættum að kynda með kolum og olíu. 

Mikilvægt samstarfsverkefni okkar allra 

Nú þegar við getum flokkað matarleifar frá og komið þeim í endurvinnslu þá er hægt að flytja blandaða ruslið okkar úr landi til brennslu - frekar en að urða það.  

Helsti ávinningurinn af því að vinna matarleifar í GAJA er verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Árið 2024 er gert ráð fyrir að GAJA taki á móti 24.000 tonnum af matarleifum, sem kemur í veg fyrir losun á 20.000 tonnum af koltvísýringsígildi. Það jafngildir því að taka 10.000 fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti af götunum!

Hliðarávinningur af þessu ferli GAJA eru heilmikil molta og metan. Moltuna er hægt að nýta í ræktun og gasið er notað í stað jarðefnaeldsneytis í samgöngum og iðnaði.

Matarleifar teknar úr blönduðu rusli

Ef það er of mikið af matarleifum í blönduðu rusli gerir brennslan sem tekur á móti efninu í Svíþjóð athugasemd við það. Með því að hætta að urða blandað rusl með matarleifum drögum við úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstað SORPU í Álfsnesi. 

Árið 2022 losaði urðunarstaður SORPU því sem jafngildir 94.000 tonnum af koltvísýringi – jafnmikið og 50.000 bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.  

Með því að hætta að urða matarleifar í Álfsnesi drögum við í sameiningu úr losun frá urðunarstaðnum eða um 80.000 tonn af koltvísýringi á næstu 10-15 árum.

Það er eins og að taka 40.000 bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti af götum borgarinnar, sem er á við allan rafbílaflota landsins! 

Molta og metan

  • Af hverju er molta góð fyrir jörðina okkar?

    Molta er öflugur og hollur jarðvegsbætir sem nærir jarðveginn. Molta er ólík mold að því leiti að hún inniheldur ekki nein ólífræn efni, eins og sand eða möl, eins og moldin gerir. Molta inniheldur kolefni, köfnunarefni, fosfór og kalín, sem eru mikilvæg nærandi efni fyrir jarðveginn. Hún er rík af örveruflóru og m.a. þess vegna stuðlar hún að heilbrigðari jarðvegi og eykur hæfni hans til að binda kolefni, þannig leikur molta lykilhlutverki í að viðhalda heilbrigðu vistkerfi.

  • Hver er munurinn á áburði og moltu?

    Molta nærir jarðveginn en áburður gefur plöntunum næringu. Það er mikilvægt að blanda moltuna við mold í hlutföllunum einn á móti þremur. Moltan er nefnilega kraftmikil og getur brennt viðkvæmar plöntur og grös nema hún sé blönduð.

  • Hver getur notað moltu?

    Moltan frá GAJU er útimolta og hægt er að nota hana til dreifingar á gróðurlendi, til uppgræðslu eða skógræktar. Moltan er sterk og best er að blanda henni saman við mold. Bein snerting við rætur plantna er ekki æskileg.

    Dæmi um notkun á moltu:

    Undir þökur: Efsta lagið er jafnað með moltu. Lagðar hafa verið þökur beint ofaná grófsigtaða moltu og það komið vel út.

    Á grasflatir: Dreift þunnu lagi að vori eða hausti, gott að blanda hana með sandi þó ekki nauðsynlegt. Hægt að gera með stórvirkum dreifurum á stærri svæði. Heima í garði er best að nota gamla lagið, fötu og góða vettlinga.

    Við trjáplöntun og Pottaplöntur: Notað eins og húsdýraáburður í holuna, og eftir að plantan er klár er settur góður hringur af moltu kringum hana, ca 10-15 cm þykkur.

    Við sáningu: Blandað í efsta lagið til helminga en molta er ágæt til að þekja blóma og runnabeð.

    Hafa ber í huga takmarkanir samkvæmt reglugerð 674/2017: “Lífrænn áburður eða jarðvegsbætandi efni – Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu má ekki bera á það moltu eða kjötmjöl síðar en 1. nóvember árið áður og skal landið þá friðað fyrir beit a.m.k. til 1. apríl.

  • Er moltan frá GAJU hrein?

    Moltan sem GAJA framleiðir er búin til úr matarleifum frá heimilum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fólk er mjög gott í að flokka rétt í matarleifatunnuna, sem þýðir að hráefnið sem GAJA fær inniheldur lítið af óhreinindum. Staðreyndin er samt sem áður sú að moltan gæti innihaldið örlítið magn af óhreinindum eins og plasti og gleri. Þessi óhreinindi eru innan þeirra marka sem reglur sem gilda um GAJU segja til um.

  • Er moltan frá GAJA vottuð?

    GAJA hefur fullgilt starfsleyfi frá Matvælastofnun til framleiðslu á moltu, sem einnig er skráð hjá Matvælastofnun sem lífrænn áburður.

  • Hvar get ég fengið moltu?

    Frá 15 maí - 5 júní verður hægt að nálgast moltu víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, í samstarfi við sveitafélög höfuðborgarsvæðisins. Einnig er hægt að nálgast moltu á endurvinnslustöðvum SORPU við Breiðhellu, Sævarhöfða og Ánanaust.

  • Hvað er metan?

    Metan er grænn orkugjafi og sem nýtist sem eldsneyti. Sótspor 1 bensínbíls er meira en 100 sambærilegra ökutækja sem ganga fyrir metani!

  • Hverjir nota metan?

    Metan frá GAJU er notað á bifreiðar t.d stætisvagna og ruslabíla og einnig í iðnaði t.d kaffibrennslu Te & Kaffi og í Lavashow.

Hringrásin byrjar í eldhúsinu

Matarleifar eru auðlind sem við getum nýtt svo miklu betur. GAJA virkar þó ekki nema við flokkum matarleifarnar vel og vandlega. Saman höfum við náð ótrúlega góðum árangri við að safna matarleifum og þannig lyft grettistaki í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Árið 2023 flokkuðu íbúar á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni um 10.500 tonn af matarleifum. Eins mælist hreinleiki í matarleifum fyrir árið 2023 98%, sem er til marks um að íbúar standi vel að flokkun matarleifa. Það er ekkert smá vel gert og sýnir hversu mikil áhrif hvert og eitt okkar getur haft á umhverfi okkar. 

Hvert fór hýðið?

GAJA og matarleifar

  • Hver eru loftslagsáhrif GAJU?

    Helsti ávinningurinn af því að vinna matarleifar í GAJA er verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Árið 2024 er gert ráð fyrir að GAJA taki á móti 24.000 tonnum af matarleifum, sem kemur í veg fyrir losun á 20.000 tonnum af koltvísýringsígildi. Það jafngildir því að taka 10.000 fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti af götunum.

    Hliðarávinningur af þessu ferli GAJA eru heilmikil molta og metan. Moltuna er hægt að nýta í ræktun og gasið er notað í stað jarðefnaeldsneytis í samgöngum og iðnaði.

  • Hvað framleiðir GAJA?

    Bæði metangas og moltu sem er vottuð af MAST.

  • Hvernig flokka ég matarleifar?

    Mikilvægt er að hráefnið sem berist GAJU séu einungis matarleifar. Til matarleifa flokkast öll matvæli sem falla til í eldhúsinu, svo sem ávaxtahýði, eggjaskurn, matarleifar með beini, fiskiúrgangur o.fl. Einnig mega afskorin blóm fara með. Allt um hvernig þú flokkar getur þú fundið á flokkum.is

  • Af hverju skiptir máli að nota bréfpoka undir matarleifar?

    Vinnsluferli í GAJU, gas og jarðagerðarstöð SORPU kallar á bréfpoka, því þeir brotna betur niður í jarðgerðarferlinu og festast síður í vélbúnaðnum sem er þar.

  • Af hverju ætti ég að flokka matarleifar?

    Söfnun á matarleifum er stórt skref í átt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Úr matarleifunum framleiðum við metangas og moltu. Metangas nýtist meðal annars sem bifreiðaeldsneyti og molta nýtist til landgræðslu. 

  • Hvernig gengur að safna matarleifum eftir að nýja flokkunin tók gildi?

    Frá því að sérsöfnun matarleifa á höfuðborgarsvæðinu hófst hafa íbúar staðið stórvel að flokkun matarleifa og árangur farið fram úr björtustu vonum okkar.

    Samkvæmt könnun Gallup sem framkvæmd var í lok árs 2023 fór flokkun matarleifa úr 27% árið 2022 í 90%. Mælingar frá GAJU, sýna að hreinleiki í flokkuðum matarleifum árið 2023 var 98% sem er gríðarlega góður árangur og til marks um að íbúar standi vel að flokkun matarleifa.