Hvað er lífplast og hvernig flokkast það?
Mörgum þykir erfitt að átta sig á hvað skal flokka sem plast og hvað ekki. Hver er munurinn á hefðbundnu plasti og svonefndu lífplasti og hvaða flokkunarmöguleikar eru fyrir lífplast í gegnum farvegi SORPU?
Lífplast (e. bioplastics) er ekki bara ein tegund af plasti heldur samheiti yfir plasttegundir sem búa yfir ólíkum eiginleikum og nýtingarmöguleikum. Hinar ýmsu gerðir lífplasts eiga sameiginlegt að vera framleiddar úr endurnýjanlegum hráefnum og/eða geta brotnað niður við tilteknar aðstæður. Oftast er hugtakið notað um plast sem á uppruna sinn í lífmassa (e. biobased plastic), þ.e.a.s. plöntum í stað jarðolíu. Samkvæmt European bioplastics, samtökum lífplastiðnaðarins í Evrópu, er hugtakið lífplast þó einnig notað um lífbrjótanlegt plast (e. biodegradable) sem á uppruna sinn í jarðolíu.
Lífbrjótanlegt lífplast úr lífmassa (PLA)
Lífplast sem er lífbrjótanlegt (e. biodegradable) brotnar niður í vatn, lífmassa og CO2 við heppilegar aðstæður. Niðurbrotið er m.a. háð hitastigi, rakastigi og örveruflóru. Kjöraðstæður eru sjaldnast fyrir hendi í náttúrunni og því ólíklegt að plastið brotni þar niður, nema á löngum tíma. Hins vegar getur plastið brotnað niður í stýrðu ferli í jarðgerðarstöðvum eða á urðunarstöðum. Dæmi um þetta er plast sem ber merkinguna PLA og er t.d. notað í ýmsar umbúðir og einnota borðbúnað. PLA er helst notað undir kalda drykki og matvöru. Í útliti eru glös og umbúðir úr PLA eins og hefðbundin plastglös og umbúðir. Neytandinn áttar sig helst á því að ekki er um hefðbundið plast að ræða þegar hann skolar glasið í heitu vatni. PLA þolir ekki háan hita og glasið breytir um lögun við um 60°C. Fræðilega er hægt að endurvinna PLA í nýjar vörur án þess að hráefnið tapi gæðum, en það er almennt ekki gert því markaðshlutdeild efnisins er enn fremur lítil og efnisendurvinnsla því óhagkvæm. Því fer PLA oftast í jarðgerðarstöðvar eða brennslustöðvar í Evrópu.
Plast sem er merkt PLA flokkast í dag með almennum heimilisúrgangi hjá SORPU og fer í urðun. Frá og með vorinu 2020 verða umbúðir og vörur úr PLA hins vegar hluti af vinnsluferli nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar höfuðborgarsvæðisins.
Lífplast ekki endilega lífbrjótanlegt
Algengur misskilningur er að plast sem á uppruna sinn í lífmassa (plöntum) sé sjálfkrafa lífbrjótanlegt eins og önnur lífræn efni. Svo er ekki því ýmsar gerðir lífplasts hafa í raun alveg sömu eiginleika og hefðbundið plast, þ.e. að vera sterkt og brotna ekki auðveldlega niður. Merkingar á slíku plasti geta t.d. verið bio-PE, bio-PET, bio-PA og bio-PP. Það þýðir þá að plastið er efnafræðilega samskonar og hefðbundið plast af þessum gerðum (PET, PA, PE og PP). Hráefnið í plastið er hins vegar úr endurnýjanlegri auðlind í stað jarðolíu. Slíkt plast er nú í auknum mæli notað í samsettum umbúðum. Sem dæmi geta plasttappar á drykkjarvörufernum verið úr bio-PE.
Bio-PE, bio-PET, bio-PA og bio-PP flokkast eins og hefðbundið plast hjá SORPU.
Niðurbrjótanlegt plast úr jarðolíu
PBAT er dæmi um plasttegund sem brotnar auðveldlega niður við ákveðin skilyrði og fellur undir skilgreininguna lífplast þó plastið eigi uppruna sinn í jarðolíu, óendurnýjanlegri auðlind. Það er talið brotna niður að fullu og er oftast notað í blöndu við sterkju (lífmassa). Það er m.a. notað í poka og matarfilmu og sem innsta lag í umbúðum og borðbúnaði úr sterkju.
PBAT plast flokkast með almennum heimilisúrgangi hjá SORPU.
„Oxo-biodegradable" plast
Á markaði eru plastpokar sem eru merktir „oxo-biodegradable“ og hafa verið seldir sem umhverfisvænir plastpokar. Þeir eru gerðir úr hefðbundnu plasti sem hefur verið blandað sérstöku íblöndunarefni (d2w) sem breytir efnisuppbyggingu pokanna þannig að niðurbrot gengur mun hraðar fyrir sig þegar plastið kemst í samband við súrefni. Evrópusambandið hefur nýlega boðað bann við slíku plasti þar sem vísbendingar eru um að það brotni ekki niður að fullu heldur í örsmáar einingar, s.k. örplast, sem getur valdið lífríkinu skaða. Oxo-biodegradable plast fellur því ekki undir skilgreininguna lífplast því það uppfyllir ekki skilyrðin um að vera að fullu lífbrjótanlegt.
Oxo-biodegradable plast flokkast með almennum heimilisúrgangi hjá SORPU.
Ekki töfralausn á umhverfisvandamálum
Umskipti úr hefðbundnu jarðolíuplasti yfir í plast sem á uppruna sinn í endurnýjanlegri auðlind (lífmassa) getur átt þátt í að færa okkur nær markmiðum um kolefnishlutleysi. Hins vegar er æskilegt að skoða allan lífsferil vöru eða umbúða þegar slíkt er metið og fleira kemur þar inn en hráefnið í plastið, t.d. landnotkun við öflun hráefnisins, framleiðsluferill vöru, flutningar og fleira. Þá er varasamt að ætla að það lífbrjótanlega plast sem til er í dag sé lausnin á umhverfisvandanum sem fylgir t.d. plasti í hafinu. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á niðurbrotsferli slíks plasts í náttúrulegu umhverfi benda flestar til að það brotni hægt eða ekki niður í slíkum aðstæðum. Í raun brotni það aðeins niður í stýrðum iðnaðarferlum, s.s. í jarðgerðarstöðvum. Í skýrslu sem unnin var fyrir sænsku ríkisstjórnina og kom út 2018 var ein meginniðurstaðan sú að ekki sé til það plast sem brotnar fullkomlega niður í náttúrulegu umhverfi, a.m.k. ekki innan þess tímaramma sem þarf til að öruggt sé að það valdi ekki skaða fyrir lífverur. Við þurfum því fyrst og fremst að horfa til notkunar okkar á plasti og finna leiðir til að draga úr þeirri sóun sem fylgir t.d. einnota vörum, sama hvers eðlis efniviðurinn í þeim er.
Dæmi um tegundir lífplasts, hefðbundins plasts og lífbrjótanlegs plasts má sjá á myndinni hér fyrir neðan (byggt á myndum úr ofangreindri skýrslu og European bioplastics).


Meira rusl
Afgreiðslutími SORPU á uppstigningardag, fimmtudaginn 26. maí
20. maí 2022Hér má sjá opnunartíma starfsstöðva SORPU á uppstigningardag, fimmtudaginn 26. maí. Endurvinnslustöðvar: kl....
SORPA innleiðir nýtt greiðslukerfi - beiðnabækur SORPU hætta
11. maí 2022SORPA hefur innleitt nýtt greiðslukerfi og samhliða því uppfært greiðsluskilmála sína. Ein af breytingunum er að...