Góði hirðirinn flytur í gömlu Kassagerðina
Góði hirðirinn flytur í gömlu Kassagerðina við Köllunarklettsveg 1. Stefnt er að flutningum þann 1. janúar á næsta ári. Góði hirðirinn hefur vaxið mikið undanfarin ár með aukinni áherslu á endurnotkun og minni sóun.
Núverandi húsnæði Góða hirðisins við Fellsmúla hefur gagnast versluninni vel undanfarin ár. Vegna mikils vaxtar í umsvifum þarf verslunin nýtt og stærra húsnæði og flytur því í tvöfalt stærra rými við Köllunarklettsveg. Núverandi húsnæði takmarkar getu Góða hirðisins til frekari vaxtar og til að taka á móti og selja alla þá nytjahluti sem til hans berast. Stærra húsnæði mun því auka endurnot á nytjahlutum og styður við markmið SORPU við innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Skrifstofur SORPU munu á sama tíma flytja í sama húsnæði.
Byggja upp klasa fyrir græna geirann
Samhliða þessu hafa eigendur húsnæðisins við Köllunarklettsveg ákveðið að helga fasteignina klasastarfsemi fyrirtækja í græna geiranum á sviðum loftslagsmála, innleiðingu hringrásarhagkerfisins, sjálfbærni og sambærilegri starfsemi.
Líf Magneudóttir, formaður stjórnar SORPU, segir mikið fagnaðarefni að Góði hirðirinn hafi vaxið fiskur um hrygg að starfsemi hans kalli á stærra húsnæði. „Endurnotkun eins og sú sem Góði hirðirinn stuðlar að er það besta sem við getum gert til að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi, fyrir utan auðvitað að draga úr neyslu og sóun. Ákvörðun eigenda hússins um að leggja áherslu á starfsemi klasa fyrir græna geirann í húsinu öllu skiptir miklu máli. Þannig skapast grundvöllur fyrir samspil opinberra aðila og einkaaðila, sem er nauðsynlegt til að ná settum markmiðum á sviði hringrásarinnar, loftslagsmála og sjálfbærni.“
Meira rusl
SORPA innleiðir nýtt greiðslukerfi - beiðnabækur SORPU hætta
11. maí 2022SORPA hefur innleitt nýtt greiðslukerfi og samhliða því uppfært greiðsluskilmála sína. Ein af breytingunum er að...
Móttaka garðaúrgangs í Kópavogi verður á gamla Gustssvæðinu um helgar í sumar
06. maí 2022Móttaka garðaúrgangs í Kópavogi á gamla Gustssvæðinu opnar 7. maí. Viðskiptavinum endurvinnslustöðvar SORPU við...