Glæri pokinn dregur úr urðun um 1.200 tonn á ári
Góður árangur hefur náðst í minnkun á úrgangi til urðunar frá endurvinnslustöðvum SORPU með tilkomu glæra pokans.
Glæri pokinn á Endurvinnslustöðvum SORPU skilar því að 1.200 tonnum minna er urðað árlega nú samanborið við tímann þegar fólk mátti skila úrgangi í svörtum ruslapokum. Skil á óflokkuðum úrgangi til urðunar hafa því dregist saman um 18% í kjölfar breytinganna. Minni urðun er mikilvæg til að styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins sem gengur út á að draga úr sóun, nota hluti lengur, endurvinna og endurnýta.
Stjórnendur SORPU gera ráð fyrir að árangur af innleiðingu glæru pokanna aukist enn frekar eftir því sem meðvitund um mikilvægi hans eykst. Rannsóknir SORPU benda til að rúmlega helmingur alls þess úrgangs sem hingað til hefur verið skilað til urðunar á endurvinnslustöðvum eigi sér aðra og betri endurvinnslufarvegi.
Íbúar og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið innleiðingu glæra pokans mjög vel. Þetta sést á því að samkvæmt upplýsingum frá smásölum voru 3 af hverjum 100 pokum sem seldust glærir en eru nú 50 af hverjum 100.
Glæru pokunum er ætlað að auðvelda starfsfólki endurvinnslustöðvanna að aðstoða viðskiptavini með að skila endurvinnsluefnunum í réttan farveg á stöðinni. Er þetta gert að fyrirmynd sveitarfélaga á norðurlöndunum, þar sem lagt hefur verið bann við svörtum pokum á endurvinnslustöðvum.
Til að auka árangurinn í þessu verkefni enn frekar mun taka í gildi 500 króna álagsgjald fyrir hvern svartan poka sem kemur inn á endurvinnslustöðvarnar.
Meira rusl
SORPA innleiðir nýtt greiðslukerfi - beiðnabækur SORPU hætta
11. maí 2022SORPA hefur innleitt nýtt greiðslukerfi og samhliða því uppfært greiðsluskilmála sína. Ein af breytingunum er að...
Móttaka garðaúrgangs í Kópavogi verður á gamla Gustssvæðinu um helgar í sumar
06. maí 2022Móttaka garðaúrgangs í Kópavogi á gamla Gustssvæðinu opnar 7. maí. Viðskiptavinum endurvinnslustöðvar SORPU við...