Skapaðu framtíðina
Íbúar Seltjarnarness auka endurvinnslu á plastumbúðum

Nú gefst íbúum Seltjarnarnesbæjar einstakt tækifæri til að stuðla að aukinni endurvinnslu á höfuðborgarsvæðinu. SORPA og Seltjarnarnes taka höndum saman um tilraunaverkefni sem snýr að söfnun og endurvinnslu á öllum plastumbúðum sem til falla á heimilum í sveitarfélaginu.

Árlega fara um 30 kg af plasti í urðun frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt rannsókn SORPU á heimilisúrgangi.
Aðeins um 1-2 kg af því plasti sem til fellur hjá íbúum, skilar sér nú flokkað í endurvinnslufarveg. Markmiðið er að auka magnið í 15 kg á íbúa á Seltjarnarnesi. Því leitum við til íbúa bæjarfélagsins um þátttöku í verkefninu.

Hvernig flokkum við plastumbúðirnar?
Íbúar fá afhenta plastpoka sem ætlaðir eru undir hreinar plastumbúðir. Pokarnir eru rifgataðir svo þeir springi ekki á leið sinni til endurvinnslu.
Pokarnir eru til í tveimur stærðum, 120 lítra og 30 lítra.
Minni pokarnir eru aðeins ætlaðir þeim sem nota sorprennur í fjölbýlishúsum.

Plastumbúðir eru til dæmis; sjampóbrúsar, tómatsósuflöskur, plastbakkar undan matvöru, plastílát undan mjólkurdrykkjum og hreinsivörum, jógúrtdósir, snakkpokar, plastfilma, plastpokar, umbúðir úr frauðplasti o.s.frv.

• Umbúðir þarf að skola svo ekki komi ólykt við geymslu.
• Gott er að stafla umbúðum saman svo þær taki minna pláss.
• Setjið umbúðinar í pokann. Nýtið pokann eins vel og kostur er.
• Þegar pokinn er fullur, bindið þá fyrir og setjið síðan með almennu heimilissorpi í gráu tunnuna.


Athugið að mjög mikilvægt er að pokarnir séu ekki notaðir undir annan úrgang en plast! Ef önnur efni en plast eru í glæru pokunum fara þau með í endurvinnslufarveginn og gera plastið óhæft til endurvinnslu.

Við flokkum plastið frá öðrum úrgangi
Sorphirðubílar á vegum Seltjarnarness flytja efni gráu tunnunnar í móttökustöð SORPU í Gufunesi. Þar verða pokarnir með plastinu flokkaðir frá öðrum úrgangi með vélum. Plastið er síðan baggað og sent til Svíþjóðar í endurvinnslu. Þar er það flokkað eftir plasttegundum, hreinsað, malað og svo nýtt sem hráefni í margvíslegar nýjar plastvörur.

Hvar er hægt að fá poka?
Þann 23. maí, eða þar um bil, fá íbúar senda poka sem eiga að duga í 2-3 mánuði. Íbúar geta svo nálgast fleiri poka undir plast í Íþróttamiðstöðinni á Seltjarnarnesi og er það íbúum að kostnaðarlausu. Afgreiðslan er opin virka daga frá 8-22 og 9-18 um helgar. Gert er ráð fyrir að 3-4 pokar verði afhentir í hvert skipti.

Markmið verkefnisins
Verkefnið stendur yfir í eitt ár og verður framvindan kynnt íbúum reglulega. Markmiðið er að meta gæði og magn plasts sem berst frá sveitarfélaginu til endurvinnslu og kostnað sem fellur til vegna meðhöndlunar þess. Niðurstaða verkefnisins mun nýtast SORPU og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til ákvarðana um framtíðarlausnir á söfnun plastefna.
Íbúar eru hvattir til að taka þátt í verkefninu og gefa plastumbúðum áframhaldandi hlutverk í hringrás efna.  
 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is