Spurningar og svör

 • Hvaða plast má fara í tunnuna?
  Í tunnuna mega fara allar plastumbúðir, bæði úr mjúku og hörðu plasti, sem og plast sem ekki ber úrvinnslugjald.
   
 • Hvernig getur maður vitað hvort umbúð er plast eða ál?
  Þumalputtareglan er sú að ef þú krumpar það saman og það sprettur út aftur er það plast, ef það helst samankrumpað er það ál.
 • Þarf að skola plastið?
  Já það á að skola plastið og skila því án matarleifa og annarra aðskotahluta.
 • Hversu vel þarf að skola plastumbúðir? Þurfa þær að vera algjörlega hreinar?
  Umbúðir skulu vera án matarleifa. Við endurvinnslu á plastinu er það síðan flokkað eftir tegundum, tætt og þvegið. 

 • Hvað gerist ef plastið er ekki skolað eða ekki skolað nógu vel?
  Ef mikil óhreinindi eða matarleifar fylgja plasti kemur vond lykt við geymslu. Meðhöndlun plastsins í móttökustöð verður óþrifalegri fyrir starfsfólk og móttökuaðili erlendis getur fellt verð gáma. Óhreinindi geta því gert endurvinnslu plastsins óhagkvæmari og meira er notað af auðlindum við vinnsluna, s.s. vatni og orku.
 • Þarf að skola allar umbúðir, t.d. sjampóbrúsa, hreinsiefni, krem, tannkrem o.s.frv.?
  Umbúðir skulu vera tómar en óþarfi er að skola slíkar umbúðir sérstaklega.

 • Mega plastumbúðir fara blautar í pokann?
  Smá bleyta gerir ekkert til.
 • Þarf að fylla pokana eða má setja í t.d. hálfan poka, hnýta fyrir og setja út í tunnu?

  Það er í lagi að setja hálfan poka út í tunnu. Við bendum hins vegar á að það er umhverfisvænna að nýta pokana vel. Munið bara að hnýta vel fyrir pokana.

 • Má setja plastið í lausu í tunnuna, þ.e.a.s. ekki í poka?
  Blásarinn nær flestum stórum plastumbúðum, s.s. dunkum eða brúsum. Hann nær hins vegar ekki minni umbúðum í lausu. Bestur árangur næst ef plastið er í vel lokuðum poka, t.d. í sömu stærð og innkaupapokar.
 • Má nota hvaða poka sem er undir plastið?

  Pokarnir undir plastið verða að vera úr plasti. Ekki má nota poka úr maís eða annarri sterkju undir plastið.

 • Má nota hvaða stærð af poka sem er?
  Það er hægt að nota brauðpoka, innkaupapoka, ávaxtapoka og ruslapoka úr plasti. Það verður þó að vera vel bundið fyrir. Bestur árangur næst ef plastið er í miðlungsstórum poka, t.d. af sömu stærð og innkaupapoki.
   
 • Fer plast, sem skilað er í poka í sorptunnuna, í sama endurvinnslufarveg og annað plast sem er skilað til SORPU?
  Plast sem íbúar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar skila í pokum er flokkað frá öðrum úrgangi með vélrænum hætti og fer eftir það í flokkinn plastumbúðir og annað plast í móttökustöð SORPU í Gufunesi. Það er sami flokkur og t.d. plast sem skilað er í grenndargáma á höfuðborgarsvæðinu eða í plasttunnur Reykjavíkurborgar fer í. Efnið fer í sama endurvinnslufarveg, sem er fyrst og fremst háður mismunandi tegundum plasts en ekki söfnunaraðferð.

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is