Plastið í sér poka og beint út í tunnu 

Ný leið til að flokka plast til endurvinnslu í Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi 

Bæklingur um verkefnið

Fylgjast með framgangi verkefnisins á Facebook síðunni.

Þann 1. mars 2018 var tekinn í notkun nýr búnaður í móttöku- og flokkunarstöð SORPU sem auðveldar flokkun á plasti til endurvinnslu. Nú er einfaldlega hægt að setja hreint plast í lokuðum plastpoka í sorptunnuna (orkutunnuna) og SORPA flokkar það vélrænt frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu.

Nýi tækjabúnaðurinn metur eðlisþyngd plastsins og blæs pokum með flokkuðu plasti frá öðrum úrgangi. Ekki þarf neina sérstaka poka undir plastið, að öðru leyti en því að þeir þurfa að vera úr plasti (ekki maís eða sterkju). Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að draga úr urðun plasts og nýta betur hráefni í plastinu

 

Fjögur einföld skref til að flokka plast

                                                                  

                                           Sjá kynningarmyndband af ferlinu.

Hvers vegna að flokka plast?
Árið 2017 fóru um 27 kg af óflokkuðu plasti frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu í sorptunnuna, samkvæmt rannsókn SORPU á heimilisúrgangi, og enduðu þar með á urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Aðeins um 5 kg af plasti á íbúa skilaði sér flokkað í endurvinnslufarveg.

Plast er búið til úr olíu, sem er óendurnýjanleg auðlind, og er mikilvægt að nýta betur en nú er gert. Plast brotnar seint eða ekki niður í náttúrunni og getur valdið lífríkinu skaða sleppi það óhindrað út í umhverfið. Ábyrgð okkar allra er að umgangast auðlindir jarðar af virðingu og koma úrgangi í þann farveg að hráefni nýtist á nýjan leik en fari ekki til spillis eða valdi umhverfinu skaða.
Samfélagið þarf að gera betur hvað plastið varðar og með nýjum vélrænum flokkunarbúnaði í móttöku- og flokkunarstöð SORPU er einfalt að koma því til endurvinnslu. Þá er hagkvæmara fyrir sveitarfélagið, og þar með íbúana, að sem mest af plasti, pappír og pappa fari í endurvinnslufarveg fremur en í urðun.

Aukin þjónusta við íbúa
Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga, Hafnafjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar. Í aðdraganda verkefnisins tóku íbúar á Seltjarnanesi þátt í tilraunaverkefni um flokkun á plasti í poka sem setja mátti í sorptunnuna. Starfsmenn SORPU flokkuðu svo plastið frá öðrum úrgangi. Tilraunaverkefnið stóð yfir í rúmt ár og tæplega sjöfaldaðist magn plasts í endurvinnslu frá íbúum á Seltjarnarnesi á þeim tíma. Aðferðin er einföld, hagkvæm, leiðir af sér verulegan umhverfisávinning og hefur aukna þjónustu við íbúa að leiðarljósi.

Hér má sjá mynd af uppsetningu búnaðarins í móttöku- og flokkunarstöð SORPU í febrúar síðastliðnum.
 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is