Endurvinnsla sláturúrgangs í lífdísil og hágæða moltu

Tilraunaverkefni SORPU og Lífdísils

Frá upphafi árs 2015 hafa SORPA og fyrirtækið Lífdísill verið í samstarfi um framleiðslu eldsneytis og jarðvegsbætis úr lífrænum úrgangi sem berst til SORPU, einkum sláturúrgangi. Markmið verkefnisins er að framleiða allt að 1 milljón lítra af lífdísileldsneyti á ári, en það magn jafngildir um 0,7% af árlegri heildarnotkun dísilolíu á bifreiðar hérlendis.

Þau 5.000 tonn af sláturúrgangi sem hingað til hafa verið urðuð í Álfsnesi ár hvert, verða nú endurnýtt sem hráefni í lífdísil og hágæða moltu. Hér er um að ræða þá hluta skepnunnar sem hvergi finnst markaður fyrir, hvorki til matvæla- né fóðurframleiðslu og hvorki innanlands né utan. Sláturúrgangurinn er fyrst hakkaður og hitaður. Að því búnu eru prótein og vatn skilin frá fitunni í skilvindum. Fitan er flutt í verksmiðju Lífdísils að Lynghálsi í Reykjavík, en próteinið notað til jarðgerðar ásamt garðaúrgangi, deigi, lýsishrati og fleiru kolefnisríku hráefni. Þar er henni breytt í lífdísil í efnahvarfi. Metanól er helsta íblöndunarefnið, en metanólið er 100% innlend og vistvæn framleiðsla frá Carbon Recycling International. Lífdísill úr lífrænum úrgangi hefur nánast ekkert sótspor og tekur flestum gerðum vistvæns eldsneytis fram að þessu leyti. Framleiðslan er öll seld til N1 í heildsölu, sem íblöndunarefni í venjulega dísilolíu og hentar blandan öllum dísilvélum.

Fyrsti gámur af jarðvegsbæti tæmdur

Umfangsmikið þróunarstarf hefur verið unnið í framleiðslu jarðvegsbætis úr próteinþætti sláturúrgangsins, ásamt mörgum öðrum lífrænum úrgangsefnum, og í lok ágúst 2016 var fyrsti gámurinn með tilbúnum jarðvegsbæti tæmdur. Í kjölfarið var hafist handa við að prófa efnið í samanburði við gæðastaðalinn BSI PAS 100. Samkvæmt staðlinum skal jarðvegsbætir mæta viðmiðum um hámarks innihald þungmálma og aðskotaefna, auk kvaða um steinefna- og gerlainnihald. Í framtíðinni þarf að sýna fram á mikinn stöðugleika í framleiðslunni til að mæta kröfum staðalsins. Fyrstu niðurstöður mælinga á efninu benda til að um fyrirtaks jarðvegsbæti sé að ræða sem standist allar gæðakröfur. Ætlunin er að framleiðslan skili á milli 5 og 10 þúsund tonnum af jarðvegsbæti á ári þegar fram í sækir, sem nýta má samkvæmt viðurkenndum gæðastöðlum í stað innflutts tilbúins áburðar. Getur þetta falið í sér mikinn umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning.

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is