Gamlir larfar lifna við

Frá aldamótum hafa orðið áhrifamiklar breytinga á fataframleiðslu í hinum vestræna heimi. Föt skulu framleidd samkvæmt nýjustu tískustraumum og berast neytendum fljótt og örugglega á viðráðanlegu verði. Áhrifin birtast í framleiðsluferlinu, sem oftast fer fram á fjarlægum slóðum við vinnu- og umhverfisskilyrði sem eru með öllu óásættanleg.

Á árinu 2015 fluttu Íslendingar um 3.800 tonn af textílvörum til landsins samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Innflutningur er þó væntanlega umtalsvert meiri þar sem töluvert magn berst til landsins í ferðatöskum landsmanna. Um leið og nýr fatnaður og aðrar textílvörur rata á heimili okkar þurfa gamlar vörur og fatnaður, eðli málsins samkvæmt, að víkja. En hvað verður um þann fatnað og klæði sem við þurfum að losna við?

                                   

Yfir helmingur í endurnotkun og endurvinnslu
Íslendingar nýta vel farveg Rauða krossins fyrir notaðan fatnað. Árið 2015 skiluðu sér um 2250 tonn af vefnaðarvöru til endurnotkunar og endurvinnslu, eða tæp 7 kg á hvern Íslending. Flestir virðast meðvitaðir um notagildi heils fatnaðar en færri gera sér grein fyrir að nánast öll vefnaðarvara getur nýst í gegnum Rauða krossinn. Þá skiptir engu hvort klæðið er heilt eða slitið og hægt er að skila allt frá nærbuxum og sokkum upp í rúmföt, handklæði og gardínur.

Frá Rauða krossinum í flokkunarstöðvar og hjálparstarf
Ólíkt því sem flestir halda fer aðeins lítið brot af því sem berst Rauða krossinum í beint hjálparstarf, eða tæplega 2%. Á síðasta ári sendi Rauði krossinn um 30 tonn af fatnaði og vefnaðarvöru í hjálparstarf til Hvíta-Rússlands og Sierra Leone og um 8 tonnum var úthlutað hérlendis til einstaklinga sem á þurftu að halda. Um 50 tonn fóru í endursölu í verslunum Rauða krossins hérlendis en afgangurinn, yfir 2000 tonn, voru seld til flokkunarstöðva í Þýskalandi og Hollandi. Farsælt samstarf Rauða krossins og Eimskipa greiðir fyrir þeim flutningum. Á meginlandinu fer fram umfangsmikil flokkun eftir efnistegundum, gæðum, stærðum og litum í um 250 til 300 mismunandi flokka. Helstu markaðir fyrir notuð föt eru í Afríku, Mið-Austurlöndum og Austur-Evrópu.

Gallabuxurnar uppfærðar samkvæmt nýjustu tísku
Sá hluti sem ekki telst hæfur til endurnotkunar fer í ýmiskonar endurvinnslu. Sem dæmi má nefna að hægt er að endurvinna gallabuxnaefni allt að 5 sinnum. Efnið er þá tætt og þráður spunninn, nýtt gallabuxnaefni svo ofið úr þræðinum og það t.d. nýtt í nýjar gallabuxur. Á sama hátt er hægt að tæta slitna prjónavöru og spinna þráð sem svo nýtist í margs konar prjónavarning. Önnur endurvinnsla á vefnaðarvöru felur í sér framleiðslu á tuskum fyrir bílaverkstæði, notkun tætts efnis í einangrun, mottur, sætistróð í bílsætum o.s.frv. Þá skiptir engu hvort efniviðurinn er götóttur, mjög slitinn eða blettóttur. Nánast allt klæði getur nýst aftur í nýjar vörur.

Hægt að draga verulega úr umhverfisáhrifum með endurnotkun og endurnýtingu
Hver einasta flík sem er framleidd krefst orku- og vatnsnotkunar og hefur í för með sér losun á mengandi efnum. Framleiðsla á aðeins einum gallabuxum þarfnast tæplega 11.000 lítra af vatni. Uppistaðan í efni gallabuxnanna er bómull en það er jafnframt algengasta efnið í fatnaði. Bómullarplantan er frek á vatn og efnanotkun í kringum ræktun hennar er mikil. Sem dæmi er áburðarnotkun í bómullarræktun ein sú mesta sem gerist í landbúnaði og um 12% allrar notkunar á skordýraeitri í landbúnaði er vegna bómullarræktar. Á svæðum þar sem framleiðsla á vefnaðarvörum er mikil, finnst fjöldinn allur af heilsuspillandi efnum í umhverfinu, s.s. þungmálmar og hormónabreytandi efni. Vatnasvæði taka við óhreinsuðu skólpi frá verksmiðjum með tilheyrandi áhrifum á lífríki og íbúa svæðanna í kring. Notkun á endurunnu bómullarefni getur því dregið mikið úr umhverfisáhrifum og sparar bæði orku og náttúruauðlindir.

Um 2000 tonn leynast enn í ruslinu
Áhrifa hinnar hröðu endurnýjunar í fataskápum okkar gætir einnig í ruslinu. Samkvæmt þeim rannsóknum sem gerðar eru hjá SORPU á úrgangi sem fer til urðunar frá íbúum höfuðborgarsvæðisins og frá endurvinnslustöðvum, má ætla að yfir 2000 tonn af vefnaðarvöru hafi farið til urðunar árið 2015. Það eru um 10 kg á hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þá er ótalið það sem kemur beint til móttökustöðvar SORPU frá stærri rekstraraðilum. Það er ódýrara fyrir samfélagið og umhverfislega betra að þessi efni fari í endurnotkun og endurvinnslu. Fyrir hvert kíló af vefnaðarvöru sem komið er í veg fyrir að fari í ruslið sparast sem samsvarar 15 kg af koltvíoxíðúblæstri. Ef tækist að nýta ofangreint magn af vefnaðarvöru í stað þess að urða, mætti spara útblástur sem jafngildir notkun á 15.000 bifreiðum á ári.

Í ljósi þess að fremur einfalt er að skila bæði heilu og slitnu klæði í gáma Rauða krossins á grenndarstöðvum og á endurvinnslustöðvum SORPU er í raun galið hvað ennþá fer mikið í ruslið. Þessu verðum við að breyta og hvert og eitt okkar gegnir þar hlutverki. Skilum jafnt heilu og slitnu klæði í farveg Rauða krossins.

 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is