Urðun og gassöfnun

Urðunin fer fram á mjög skipulagðan hátt. Urðunarsvæðinu er skipt upp í ílangar 40 metra breiðar reinar og er urðað í eina rein í einu.

Böggunum er raðað í þessar niðurgröfnu reinar og að lokum er úrgangurinn hulinn með 1,5 - 2,0 m þykku lagi af jarðvegi. Þegar lokið er við að urða í nokkrar reinar, er sáð í landið. Í framtíðinni er síðan gert ráð fyrir að planta trjám í toppi urðunarsvæðisins.

Á urðunarsvæðum þarf sérstaklega að gæta að fjórum umhverfisatriðum, þ.e. sigvatni, gasmyndun, foki og meindýrum.

Sigvatn

Sigvatn kemur aðallega frá tveimur uppsprettum, þ.e. vökva úr sjálfum úrganginum og ofanvatni (ofankoma) sem getur sigið í gegnum úrganginn. Lítill hluti getur síðan verið grunnvatn sem kemur í gegnum botn urðunarsvæðisins. Sigvatninu þarf að fylgjast með, því það getur innihaldið efni úr úrganginum. SORPA hefur frá upphafi fylgst með mörgum efnis- og eðliseiginleikum sigvatnsins án þess að nokkuð hafi komið í ljós sem valdið getur áhyggjum. Einnig hefur verið fylgst með þungamálmum í sjávargróðri utan við Álfsnes. Niðurstöður allra þessara mælinga og eins mælingar á frárennsli er að finna í ársskýrslum SORPU.

Gasmyndun og söfnun

Á öllum urðunarsvæðum myndast hauggas sem er blanda af koltvísýringi (CO2) og metani (CH4). Hauggasið myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni í haugnum og mynda hauggasblöndu. Metanið í hauggasinu er mjög orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða 21 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Betra er að brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa. Þannig eru gróðurhúsaáhrif urðunarstaðarins í Álfsnesi í lágmarki.
Borað er í hauginn 1 ½ - 2 ½  árum eftir að urðun líkur í hverri rein. Boraðar er um 55 gasholur á árinu  og götuðum plaströrum komið fyrir í holunni. Efst úr rörinu er svo lögn sem tengist safnæð. Safnæðarnar eru fjórar og tengjast þær saman í eina stofnlögn sem liggur að dælustöð, sem sér um að soga hauggasið frá holunum. Frá dælustöð liggur leiðsla að hreinsistöð Sorpu og að brennara.

Metangasframleiðsla í Álfsnesi árið 2012 samsvaraði 2,3 milljónum bensínlítra og nýttist á 1200 ökutæki. Nánari upplýsingar á metan.is

Metan hf. er dótturfyrirtæki SORPU bs. og var stofnað til að markaðssetja metan og finna nýtingarmöguleika fyrir það. Hægt er að nota gasið sem ökutækjaeldsneyti, til rafmagnsframleiðslu, til hitunar eða til notkunar í iðnaði í stað jarðefnaeldsneytis.

Fok

Meirihluti þess úrgangs sem kemur til urðunar í Álfsnesi er baggaður úrgangur. Reynt er að tryggja að lítil hætta sé á foki, en í íslensku veðurfari getur nánast allt fokið. Verði vindstyrkur of mikill er allri móttöku hætt í Álfsnesi og þannig reynt að koma í veg fyrir óþarfa fok. Umhverfis svæðið eru girðingar sem grípa mest af því sem fýkur og að loknum veðraáhlaupum eru þær hreinsaðar.

Meindýr

Haft er eftirlit með meindýrum og vargfugli á urðunarstaðnum og þeim eytt samkvæmt starfsleyfi. Helstu plágurnar eru mávur á útungunartíma og starri, sérstaklega seint á haustin og á veturna.

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is